10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

Umræða utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og vænta mátti hafa hér orðið miklar og vonandi gagnlegar umr. og ég skal ekki lengja þær miklu frekar. Ég vil aðeins

minna á orð Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ, sem höfð eru eftir honum í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann segir m. a., með leyfi forseta:

„Ég tel að taka beri fullt mark á áliti fiskifræðinga og mögulegum afrakstri fiskistofnanna. Þetta álit mitt styð ég í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum haft af þorskveiðunum á þessu ári. Það er eitthvað verulegt að þegar við getum á þessu ári ekki fiskað nema 2/3 af því sem veitt var árið 1981.“

Og enn fremur segir hann: „Ég vara við óskhyggju um að við getum tekið meiri afla en fiskifræðingar leggja til.“

Ég vil einnig minna á það sem haft er eftir Sigfúsi Sehopka fiskifræðingi í Morgunblaðinu í gær, en hann segir þar að ef farið hefði verið að tillögum fiskifræðinga fyrir árið 1977 og síðan, á meðan fiskiskipaflotinn var minni, þá hefði væntanlega verið hamlað gegn stækkun flotans og þá væri vandamálið ekki eins stórt í dag.

Einhvers staðar sá ég líka haft eftir hæstv. núv. samgrh. og fyrrv. sjútvrh. að við gætum ekki staðið undir þeim samdrætti sem minnkun þorskaflans í 200 þús. tonn hefði í för með sér til viðbótar við þau áföll sem við hefðum orðið fyrir. Og orð hans í umr. hér áðan staðfestu þessa skoðun hans. En þá spyr ég: Geta afkomendur okkar staðið undir þeim samdrætti? Eigum við enn einu sinni að velta vandanum yfir á herðar þeirra? Eiga rányrkja og stundarhagsmunir enn einu sinni að sitja í fyrirrúmi? Það eru lítil búhyggindi að ganga svo á helstu auðsuppsprettur lands okkar að afkomendur okkar fái ekki annað en roð og bein í sinn hlut.

Og vegna þess sem hv. 3. þm. Suðurl. sagði þá get ég nú ekki stillt mig um að segja að ég hefði heldur kosið að heyra hann bera saman kjör fiskvinnslufólks og alþingismanna heldur en agnúast út í námsmenn, sem hafa það nú ekki allt of gott.

Það ástand sem nú hefur skapast við minnkandi afla, yfirvofandi atvinnuleysi og samdrátt þjóðartekna minnir okkur á hversu varhugavert það er að bera öll eggin sín í einni og sömu körfunni. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að styrkja fleiri stoðir efnahagslífs okkar.

Og að lokum og það er það mikilvægasta: Undir engum kringumstæðum mega þær ráðstafanir sem grípa þarf til þrengja hag þeirra verst stöddu í þessu þjóðfélagi. Þeirra hagur má alls ekki þrengri verða.