21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6461 í B-deild Alþingistíðinda. (6001)

221. mál, jarðalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil bara upplýsa að landbn. fékk þetta frv. það seint að ekki var hægt að koma því við að fara ofan í það, heldur var fastmælum bundið að reyna að hafa áhrif á að þessi lög yrðu tekin upp á hausti komanda og athuguð nánar, þannig að ég held að menn þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Hins vegar fannst nefndinni í sambandi við þær skipulagsbreytingar sem er verið að gera að raunar væri ekki hægt annað en lögfesta frv. nú.

Í sambandi við stjórnun á landbúnaðarframleiðslu vil ég bara benda síðasta ræðumanni á að það er eftir framleiðsluráðslögunum sem slíkar breytingar mundu koma, ef einhverjar eru, enda er allar stjórnunarheimildir á landbúnaðarframleiðslunni að finna í þeim lögum en ekki jarðalögum.

Hins vegar má bæta við þetta að það er mikil ásókn ýmissa í að fá land á lögbýlum og jarðirnar hafa víða verið bútaðar þannig niður að þær hafa jafnvel verið gerðar óhæfar til búrekstrar. Til þess að koma í veg fyrir það eru jarðanefndir nauðsynlegar svo að það sé eitthvert skipulag og eitthvert eftirlit með hvað gerist í þessum efnum. Má segja að jarðanefndirnar séu til aðstoðar sveitarstjórnunum í þessum efnum. Hitt er annað mál að ég fellst alveg á að í greininni sé allt of langt gengið í sambandi við t. d. sæluhús og skíðaskála. Ég skal viðurkenna það.

Hitt gleður mig, hvað ýmsir menn hafa nú allt í einu mikinn áhuga á málefnum landbúnaðarins. Þetta gleður mig stórlega og við ræðum það betur síðar.