21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6461 í B-deild Alþingistíðinda. (6003)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana verður að skoða í tengslum við 305. mál, frv. til l. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Síðarnefnda frv. var afgreitt til 2. umr. fyrir nokkrum sólarhringum og hefur verið til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. Nd. Meiri hl. n. hefur skilað áliti en minni hl. hefur ekki haft tíma til að skila áliti í því máli vegna þeirra miklu anna sem hér hafa verið við þingstörfin.

Það hefur flogið fyrir hér, herra forseti, í sambandi við þetta mál, að einhver áhugi sé á því hér meðal ýmissa þm., m. a. af minni hálfu og e. t. v. einhverra annarra, að stöðva framgang þessara mála. Auðvitað er með öllu fráleitt að setja mál þannig upp að verið sé að stöðva framgang þingmála. Ef meiri hl. er til að koma málum fram hér á hv. Alþingi reynir á það hvort sá meiri hl. er til. En það sem mér m. a. gengur til í þessu efni er auðvitað það að ríkissjóður hefur á undanförnum mánuðum reynst vera verr á sig kominn en nokkurn hafði áður órað fyrir og ríkisstj. er að skera niður framlög til félagslegra verkefna í stórum stíi. M. a. er verið að lækka útgjöld til sjúkratrygginga og sjúkradagpeninga um 20–30 millj. kr. Á sama tíma er það ætlun ríkisstj., um leið og hún sker niður framlög til félagslegrar þjónustu, að lækka stórkostlega gjöld á bönkum og öðrum opinberum stofnunum. Þetta sýnir eins og í hnotskurn hvers konar ríkisstj. við höfum. Það er ríkisstj. sem leggur áherslu á að hygla fjármagnsstofnunum og fyrirtækjum á kostnað félagslegrar þjónustu fólksins í landinu og skirrist ekki við að bora gat á ríkissjóðinn, eins og hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson er iðinn við nætur og daga, því að í rauninni er það alltaf svo að ef hann á tvo kosti varðandi útgjöld ríkissjóðs tekur hann þann sem er dýrari fyrir ríkissjóð. Það á við t. d. í sambandi við frv. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Þar var hæstv. fjmrh. gefinn kostur á tveimur útgáfum af þessu málefni skv. tillögum bankamálanefndarinnar og hann tók auðvitað þá sem er dýrari fyrir ríkið. Hann tekur alltaf það sem er verst fyrir ríkissjóð. Það má segja að hæstv. fjmrh. sé þannig sjálfum sér samkvæmur í sinni yfirstjórn á ríkiskassanum.

Ég verð því, herra forseti, að ræða það mál nokkuð ítarlega og sömuleiðis um frv. um skattskyldu innlánsstofnana. En áður en ég kem að þeim frv. ætla ég að ræða hér í stuttu máli um þau orð sem hæstv. fjmrh. lét falla við umr. 14. maí s. l. þegar þessi mál voru hér á dagskrá. Þá stóð málið þannig að ýmsir þm. stjórnarandstöðuflokkanna höfðu gagnrýnt þetta frv. og þegar mjög var liðið á nóttu kvaddi hæstv. fjmrh. sér hljóðs, eins og gjarnan er siður ráðh., til þess að svara því sem fram hafði komið. En hæstv. fjmrh. notaði tækifærið til almennra pólitískra árása á stjórnarandstöðuna og þá alveg sérstaklega Alþb. Það er alveg óhjákvæmilegt að taka nokkurn tíma hér í hv. Nd., virðulegi forseti, í það að ræða um það hvað þarna kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. þegar hann var að gera árásir á Alþb.

Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð um störf síðustu ríkisstj. Hann lagði á það áherslu að hann hefði verið kosinn í bankaráð Útvegsbankans af lista sjálfstæðismanna og sagði að fráfarandi ríkisstj. hefði ekkert haft með það að gera. Það er venjan hjá hæstv. fjmrh. að hann vill sverja af sér afskiptin af myndun fyrrv. ríkisstj. Hann heldur oft um það langar ræður að hún hafi aldrei komið honum neitt við. Þó skrifaði hæstv. fjmrh. einu sinni bréf upp í hvíta húsið við Lækjartorg þar sem greint var frá því að hann teldi eðlilegt að forseti Íslands fæli Gunnari Thoroddsen alþm. að gera tilraun til myndunar ríkisstj. Bréf hafa oft skipt sköpum í sögunni eins og kunnugt er, sendibréf, jafnvel þó þau væru stutt. Þetta bréf hæstv. fjmrh. réð úrslitum um það að hv. þm. Gunnar Thoroddsen fékk þá tækifæri til þess úr hendi forseta Íslands að gera tilraun til myndunar ríkisstj. Þannig má segja að hæstv. núv. fjmrh. hafi verið sá maður sem þarna réð úrslitum. Og það er óþarfi fyrir hann að vera alltaf að sverja það af sér því að þetta var góð ríkisstj. að mörgu leyti sem hann átti þarna hlut að að mynduð yrði.

Í sambandi við þessa stjórnarmyndun var m. a. rætt um það hvernig yrði háttað forustu í bankaráðum viðskiptabankanna, eins og gjarnan er gert, og Seðlabankans. Og þar kom það fram að stjórnaraðilarnir töldu ekki óeðlilegt, miðað við allar aðstæður, að hæstv. núv. fjmrh. yrði formaður bankaráðs Útvegsbankans. Það er þess vegna eins gott að hann sitji uppi með það að það var auðvitað að nokkru leyti fyrir hans eigin tilverknað að þáv. ríkisstj. áleit það eðlilegt að hann yrði formaður bankaráðs Útvegsbankans. Og mér finnst satt að segja sérkennilegt að hann skuli vilja sverja það af sér að þáv. ríkisstj. horfði á það gerast að hann yrði formaður bankaráðs Útvegsbankans. Hæstv. fjmrh. heldur því fram í ræðu sinni, að mín ummæli um þetta hafi verið ósannindi. Ég vísa því auðvitað á bug. En úr því að málin ber á góma hér á annað borð er ekkert óeðlilegt að ræða það nokkuð hvernig þetta gerðist varðandi myndun síðustu ríkisstj.

Hæstv. fjmrh. sagði einnig í næturræðu sinni, sem hann hélt til að greiða fyrir þingstörfum hér eina nóttina, að hann hafi í raun og veru aldrei ráðið úrslitum um tilveru síðustu ríkisstj. Ég held ég verði að leiðrétta hæstv. ráðh. í þessu efni líka. Það var ekki aðeins að hann kæmi mjög við sögu við fæðingu þeirrar stjórnar, heldur lá fyrir yfirlýsing frá þessum hæstv. ráðh., hv. þm. Albert Guðmundssyni, um það að hann mundi verja þá stjórn vantrausti. Hann lýsti því aftur og aftur yfir, m. a. opinberlega, að hann mundi verja ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens vantrausti ef fram kæmi till. um vantraust á þá stjórn. Og það er athyglisvert að á fyrstu árum þeirrar stjórnar kom ekki fram nein till. um vantraust á hana þó hún hefði þetta knappan þingmeirihluta. Af hverju skyldi það hafa verið nema vegna þess að hv. þm. Albert Guðmundsson var búinn að gefa þessa yfirlýsingu? Menn eins og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason og fleiri töldu nóg að gert í sambandi við innra ástand í Sjálfstfl. þó ekki væri farið að kljúfa hann enn frekar með því að knýja hv. þm. Albert Guðmundsson til að greiða atkv. á móti till. um vantraust á þá ríkisstj. Hæstv. núv. fjmrh. vill greinilega líka gleyma þessu. En ég vil segja honum til upprifjunar: Þetta réð úrslitum ásamt mörgu öðru um það að þáv. ríkisstj. fékk þrátt fyrir allt starfsfrið á einum tveimur þingum. Hans yfirlýsingar skiptu þarna sköpum. Og þegar hann biður mig um að nefna eitt dæmi þess að hans atbeini hafi ráðið úrslitum þá hef ég þegar gert það og hlaut að gera það eftir að krafa hans um þetta kom fram.

Hæstv. fjmrh. hélt hér þessa venjulegu ræðu, hann er búinn að halda margar í vetur, um mig sem formann Alþb. og sérstaklega kommúnistadeildar þess. Ég hlýt að rifja hér upp nokkur atriði í sambandi við þetta, því að greinilegt er að minni hæstv. fjmrh. nær skammt, ekki einu sinni yfir tvö, þrjú síðustu ár varðandi ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, hvað þá heldur yfir lengri tíma í okkar stjórnmálasögu. Þau mál snúa þannig að Kommúnistaflokkur Íslands var lagður niður 1938. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir mig að byrja þar. Kommúnistaflokkur Íslands var lagður niður 1938 og þá var stofnaður Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn. Hann var stofnaður upp úr Kommúnistaflokki Íslands, sem var lagður niður, og vinstri armi Alþýðuflokksins, sem var þá undir forustu Héðins Valdimarssonar. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn varð fljótlega mjög sterkt afl hér á Alþingi Íslendinga. M. a. gerðist það í kosningunum 1942 að Sósíalistaflokkurinn varð verulega miklu stærri en Alþýðuflokkurinn. Þar með varð vinstri armurinn í verkalýðshreyfingunni á Íslandi hægri arminum sterkari. Þetta gerði verkalýðshreyfinguna á Íslandi talsvert öðruvísi en t. d. í grannlöndum okkar eins og kunnugt er. (Gripið fram í: Og hefur ekki borið sitt barr síðan.) Alþýðuflokkurinn? — Nei.

Á árunum 1938–1968 starfaði síðan Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn og hann beitti sér fyrir því á árunum 1953 og 1954, 1955, að stofnað yrði Alþýðubandalagið, kosningasamtök. Þau voru stofnuð m. a. fyrir tilverknað og áeggjan verkalýðshreyfingarinnar í landinu sem lagði á það áherslu þá sem síðar að verkalýðssinnar og vinstri menn, jafnaðarmenn, ættu sem allra sterkust stjórnmálasamtök hér á landi. Alþb. bauð fyrst fram til Alþingis í kosningunum 1956. Árið 1963 gekk síðan verulegur hluti Þjóðvarnarflokks Íslands til liðs við Alþb., m. a. með því að hv. fyrrv. þm. Gils Guðmundsson bauð sig fram fyrir Alþb. í Reykjaneskjördæmi.

Upp úr þessu verður það síðan að átök eiga sér stað innan Alþb. Það verður síðan stjórnmálaflokkur með formlegum hætti 1968. Og þá var því lýst yfir af Morgunblaðinu að þessi flokkur yrði bersýnilega ekki mjög lengi til úr þessu vegna þess að hann yrði með öllu áhrifalaus. Þeir sem máli skiptu þar væru hlaupnir á dyr. En það hefur annað komið í ljós. M. a. varð hv. þm. Albert Guðmundsson og hæstv. núv. ráðh. þess valdandi að þessi flokkur, sem hans málgagn, Morgunblaðið, reyndi að jarða 1968, varð aðili að ríkisstj. á árinu 1980.

Kommúnistadeild hefur ekki verið starfandi í Alþb. á þessum tíma né heldur kommúnistaflokkur. Alþb. er sósíalískur flokkur, verkalýðsflokkur, sem leggur áherslu á jafnrétti og lýðræði. Alþb. er ekki flokkur sem tekur undir ríkistrú af neinu tagi. Alþb. leggur áherslu á það þjóðfélag þar sem menn fá að velja í öllum tilvikum á milli stjórnmálastefna. Alþb. er þess vegna flokkur sem aðhyllist það sem kallað er plúralistískt samfélag, fjölþætt pólitískt samfélag, og frábiður sér allar árásir sem grundvallast á því að Alþb. aðhyllist kennisetningar þar sem byggt er á því að skerða valfrelsi fólksins. Þess vegna leggjum við á það mikla áherslu að hér sé haldið uppi lýðræðislegu stjórnskipulagi þar sem vald fjármagnsins er heft. Og það er grundvallarmunurinn á Alþb. og t. d. Sjálfstfl., að Alþb. er lýðræðisflokkur en Sjálfstfl. er fjármagnsflokkur. Það er frelsi fjármagnsins sem þar á að ráða en í hinu tilvikinu er það fólkið og frelsi þess sem á að ráða úrslitum um framvindu þjóðfélagsins.

Þetta þurfti ég nú að rifja upp bara vegna hæstv. fjmrh., ekki vegna þess að ég vilji, virðulegi forseti, teygja tímann hér og heldur ekki vegna þess að ég telji ekki að þeir sem hér eru viti þetta. En mér hefur fundist stundum á hæstv. fjmrh. að það væri eins og svona staðreyndir færu fram hjá honum. Og þegar hann afhjúpaði það að hann mundi ekki einu sinni hvað hann hafði gert þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð, þá sýndist mér einsýnt að nauðsynlegt væri að hjálpa honum til við sagnfræðina nokkra áratugi aftur í tímann líka. En það er ekki þar með sagt að þessu sé lokið og kem ég nú að næsta þætti þessa máls.

Hæstv. fjmrh. sagði með leyfi forseta:

„Það þýðir ekki. Það er búið að gera það svo oft í gegnum tíðina og ég, sem er nú sextugur, hef ekki heyrt neitt nýtt úr þeim herbúðum síðan ég var þingsveinn á þessum stað 1935–1938.“

Hann segir m. ö. o. að hann hafi á árunum 1935–1938 heyrt það sama frá róttækum sósíalistum hér í þessum sal og hann heyrir nú. Þetta er nokkuð athyglisvert og bendir til þess að vissar sögulegar staðreyndir renni saman í eitt í höfðinu á hæstv. fjmrh. En þannig er málum háttað að ef hann er þarna að vitna til Kommúnistaflokks Íslands, sem er rétt hugsanlegt að hann sé að gera, vegna þess að hann ræddi áður um kommúnistadeild Alþb., þá eignaðist Kommúnistaflokkur Íslands ekki menn á Alþingi fyrr en 1937. Þá voru þrír menn kosnir, einn kjördæmiskosinn í Reykjavík og tveir uppbótarmenn, annar í Reykjavík og hinn í Vestmannaeyjum. Þar áður voru að vísu ýmsir róttækir sósíalistar á Alþingi, en þá voru þeir flestir í Alþfl. Og ég geri ráð fyrir því að þegar hann er að vitna til svipaðra ummæla og við höfum oft uppi Alþb.-menn frá árunum 1935–1937, þá sé hann að víkja sérstaklega að Alþfl. mönnum. Þetta er í raun og veru ákaflega athyglisvert vegna þess að þetta staðfestir það, sem við höfum oft lagt áherslu á, að Alþb. á ekki einasta sögulega fortíð í þeim flokkum sem hér hafa verið nefndir, heldur líka í Alþfl. Forverar Alþb. eru sem sagt Alþfl. og þessir flokkar sem hér hafa verið nefndir sérstaklega. Mér þykir því vænt um það að hæstv. fjmrh. skuli átta sig á þeim beinu tengslum sem eru þarna á milli Alþfl. og Alþb. Það eru mjög augljós tengsl og mér þykir nauðsynlegt að halda þeim til haga, vegna þess að ég vil gjarnan að það liggi fyrir á hvaða grundvelli Alþb. er byggt.

Síðan kom fleira fram frá hæstv. fjmrh. um þessi mál. Eitt var það að hann leggur á það mikla áherslu að núv. ríkisstj. sé að afsósíalisera þjóðfélagið, en það eru ummæli sem hann hefur viðhaft nokkrum sinnum, að sé mjög nauðsynlegt að afsósíalísera þjóðfélagið. Hann sagði þetta í sjónvarpinu fyrir nokkrum mánuðum og hann hefur verið að endurtaka það af og til síðan. Ég þykist skilja þetta svo að hæstv. fjmrh. vilji í rauninni eyða að sem mestu leyti áhrifum jafnréttissinna, verkalýðssinna og vinstri manna á íslenska þjóðfélagið. Og hann hefur í þeim efnum náð nokkrum árangri, m. a. með því að lækka framlög til sjúkratrygginga almannatrygginga. Það er ákaflega göfugt verkefni fyrir þá sem vilja umsvif fjármagnsins sem mest. Hann hefur lagt á það áherslu að draga úr félagslegri þjónustu og hann hefur líka verið óður og uppvægur að selja ýmis ríkisfyrirtæki, m. ö. o. fyrirtæki almennings.

Ég held að það sé rétt að núv. ríkisstj. hafi komist lengra í því en nokkur önnur í sögu lýðveldisins að þrengja að félagslegri þjónustu í landinu og þannig hafi hæstv. fjmrh. gengið lengra gegn jafnréttishugmyndum og jafnréttishugsjónum en flestir aðrir fjmrh. Ég veit að hann fær prik fyrir það uppi í Valhöll hjá íhaldinu og hjá verslunarráðinu. Ég hygg hins vegar að allir aðrir hljóti að gagnrýna þetta, þeir sem vilja halda utan um hina félagslegu þjónustu og þróun hennar. Athyglisvert er í þessu sambandi að fyrir nokkrum dögum var birt skoðanakönnun með einkarétti í Morgunblaðinu sem Hagvangur hafði gert á viðhorfi fólks í þessum efnum. Þar kom það í ljós að hæstv. fjmrh. er að framkvæma hugmyndir sem eru í bullandi minni hluta á Íslandi. Fólk vill halda hinni félagslegu þjónustu. Yfirgnæfandi meiri hluti fólks leggur áherslu á það að halda hinni félagslegu þjónustu og yfirgnæfandi meiri hluti fólks leggur áherslu á það að fyrirtæki og stofnanir eigi að bera skatta. Hæstv. fjmrh. er því í þessu efni að framkvæma verkefni fyrir lítinn leiftursóknarminnihluta örfárra ofstækismanna, kreddutrúarmanna, sem halda að þeir leysi hér alla hluti í þjóðfélaginu með því að losa um fyrir fjármagnið. Ég held að hæstv. fjmrh. geti út af fyrir sig glaðst yfir því að hann hafi náð nokkrum árangri í því að draga úr félagslegri þjónustu og jafnvel selja ríkisfyrirtæki. Hitt er hins vegar bersýnilegt, að þjóðin tekur ekki undir með honum. Hún styður ekki þessar árásir á hina félagslegu þjónustu sem er í landinu. Þar er hæstv. fjmrh. bersýnilega að reyna að framkvæma verkefni sem yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er á móti. Hér er hæstv. fjmrh. því bersýnilega í miklum minni hluta.

Þetta fannst mér, virðulegi forseti, nauðsynlegt að taka fram vegna þeirrar ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti hér eina nóttina til að greiða fyrir þingstörfum eins og hans er háttur. Vík ég þá nokkuð að öðrum atriðum sem fram komu í ræðu hans og voru ekki síður merk og krefjast þess að fá nánari umræður.

Það sem mér fannst alvarlegast í þeim voru árásir hæstv. fjmrh. á hv. þm. Ragnar Arnalds, sem á sæti í Ed. og gegndi embætti fjmrh. í síðustu ríkisstj. En eins og kunnugt er þá er skipulag ekki þannig hér á þinginu að Ed.-menn geti borið hönd fyrir höfuð sér í Nd. né heldur getum við hér í Nd. borið hönd fyrir höfuð okkar í Ed. Hins vegar er það svo með ráðh. að þeir geta hlaupið á milli deilda og talað þar í öllum málum og rætt við þm. eins og fara gerir þá og þá. Hæstv. fjmrh. hefur hins vegar þann hátt á, sem er alger nýlunda hér í vinnubrögðum ráðh., að hann lætur sér ekki nægja að lesa yfir hausamótunum á hv. þm. Ragnari Arnalds í Ed., þar sem hann getur borið hönd fyrir höfuð sér, heldur heldur hann áfram þessum reiðilestri þegar málið kemur hér fyrir í hv. Nd. Það er auðvitað óeðlilegt að ráðherrar séu að hella úr skálum reiði sinnar yfir þm. í þingdeild þar sem þm. á ekki sæti. Þetta er algerlega óeðlilegt og ósæmilegt í rauninni. Ég tel að ráðherrar eigi ekki að venja sig á vinnubrögð af slíku tagi. Með því móti eru þeir auðvitað að ganga út fyrir það sem kalla mætti mörk mannasiðanna og ég held að hæstv. fjmrh. eigi ekki að gerast brautryðjandi í þeim efnum að þessu leyti til. Við höfum hér ákveðnar leikreglur í þinginu og ég held að hæstv. ráðherrar eigi ekki að beita sér fyrir því að ráðast að þm. í öðrum deildum, þm. sem ekki hafa tök á að bera hönd fyrir höfuð sér.

En það sem hæstv. fjmrh. sagði í þessu efni var að fyrrv. ríkisstj. hefði svikið í þessum málum í sambandi við gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Þetta er mikil fjarstæða og því nauðsynlegt að rifja hér einnig upp liðna tíma. Vorið 1982 var til meðferðar á þingi frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Það eru lög nr. 65/1982. Efnislega fólst í þeim lögum að á árinu 1982 skyldu innlánsstofnanir aðrar en smæstu sparisjóðir greiða sérstakan skatt í ríkissjóð sem næmi 0.06% af heildarinnlánum þeirra í lok hvers mánaðar. Frá og með tekjuárinu 1983 skulu þær innlánsstofnanir er lögin taka til hins vegar skyldar til greiðslu tekju- og eignarskatts og skyldi álagning byggjast á almennum reglum laga nr. 75/1981

Þegar þessi mál voru hér til meðferðar á Alþingi var það svo, eins og oft áður í þeirri ríkisstj., að meiri hl. hennar var knappur og veikur, einkum hér í Nd. Einn þeirra manna sem töldu sig eiga eitthvað vantalað við ríkisstj. var hv. þm. Albert Guðmundsson. Hann ræddi um það hvort hugsanlegt væri í tengslum við þetta að fella niður eða lækka gjald af umboðsþóknun eða gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Þáv. fjmrh. léði máls á því að þessi umboðslaun, sem hafa verið 60%, yrðu lækkuð fyrst í 50%. Þáv. fjmrh. léði hins vegar aldrei máls á því að gjaldið yrði lækkað enn frekar. Það kom aldrei til greina af okkar hálfu miðað við þáverandi aðstæður. Nú er það hins vegar svo, og það breytir væntanlega einhverju í augum hæstv. ráðh., að ríkissjóður stendur á þessu ári mjög illa, miklu verr en hann gerði á árinu 1982. Og þess vegna m. a. er algerlega óeðlilegt að fara að lækka sérstaklega þessi gjöld sem bankarnir greiða. Það eru þess vegna engin svik, eins og hæstv. fjmrh. heldur fram aftur og aftur, að ekki var stigið lengra á þessari braut í tíð fráfarandi ríkisstj. Þar var framkvæmdin í einu og öllu í samræmi við það sem gert hafði verið ráð fyrir. Meira að segja gerði þáv. fjmrh. ráðstafanir til þess að 1/6 hluti gjaldsins af gengismun og umboðsþóknun, sem lagt hefur verið á gjaldeyrisbankana, yrði felldur niður frá áramótum 1983. Þar með var þáv. hæstv. fjmrh. að fara í einu og öllu eftir því sem rætt hafi verið um á sínum tíma.

Nú geta menn spurt: Hvernig er staða bankanna? Eru þeir svo illa á sig komnir að það þurfi að gefa þeim eftir af greiðslum vegna ársins 1983? Ég hlýt að upplýsa það, virðulegi forseti, af þessu tilefni að Jónas Haralz, formaður Sambands viðskiptabankanna, kom á fund í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun og skýrði frá því m. a. að árið 1983 hefði verið verulega gott ár fyrir alla bankana. Það er þess vegna ekki verið að létta þessu af bönkunum vegna þess að þeir hafi komið mjög illa út á árinu 1983. Þeir komu mjög vel út á árinu 1983, skiluðu stórfelldum hagnaði, þannig að eðlilegt væri að bankarnir væru skattlagðir á þessu ári í samræmi við það hvernig heimili eða fyrirtæki væru skattlögð. Það breytir engu í þessu sambandi að mínu viti að eins og horfur eru í dag er talið hugsanlegt að bankarnir komi lakar út á árinu 1984 en á árinu 1983. Það breytir í raun og veru engu vegna þess að við erum að tala hér um skattlagningu og uppgjör vegna ársins 1983. Rökin fyrir því að lækka þennan skatt af bönkunum eru m. a. sögð vera þau að bankarnir þurfi að byggja upp sitt eigið fé, eiginfjárstaða bankanna sé svo léleg. Þetta er nú umhugsunarefni fyrir heimilin í landinu. Ég hugsa að eiginfjárstaða þeirra sé nokkuð slæm núna, lausafjárstaðan sé heldur slæm líka, rekstrarfjárstaðan vond hjá almenningi í landinu um þessar mundir sem þarf að fara út í búð og kaupa í matinn. En þegar kemur að bönkunum beita menn þeim rökum að eiginfjárstaðan sé svo vond að það sé réttlætanlegt að lækka skattana í ríkissjóð út af því. Það er sem sagt verið að borga styrki úr ríkissjóði til að bæta eiginfjárstöðu bankanna í landinu. Það er það sem hæstv. fjmrh. er að gera. Það er lítilmagninn sem hann er að hlaupa undir bagga með núna.

Formaður Sambands viðskiptabankanna, Jónas Haralz, notaði svo þau rök í málinu að bankarnir ættu í svo miklum viðskiptum út á við að þeir þyrftu að hafa miklu betri eiginfjárstöðu. Sérstaklega ætti Landsbankinn í gífurlegum viðskiptum út á við og þyrfti að njóta trausts á hinum alþjóðlega peningamarkaði. Auðvitað er það rétt að Landsbankinn þarf að njóta trausts á hinum alþjóðlega peningamarkaði. Hann tekur það mikið inn af erlendum lánum. En spurningin hér er ekki um það. Spurningin er um hitt, hvort nú sé einmitt réttur tími, á því ári þegar verið er að skera niður sjúkradagpeninga og félagslega þjónustu, hvort þá sé einmitt réttur tími til að styrkja bankana með framlögum úr ríkissjóði. Ég segi nei. Það er ekki réttur tími núna. Það er rangt. Það er röng forgangsröð verkefna. Ég spyr líka þá menn sem hafa áhyggjur af rekstri bankanna og eiginfjárstöðu Landsbankans: Telja menn það betra fyrir þjóðina út á við að staða ríkissjóðs sé jafnvond og raun ber vitni um? Hvort halda menn að sé verra fyrir þjóðina út á við, að ríkissjóður fari á hausinn eða Landsbankinn? Það væri fróðlegt að hæstv. fjmrh. svaraði því hvorn hann tekur fram yfir, kassann hjá sér eða kassann hjá Jónasi Haralz. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því að þjóðin er að verða sér til skammar á alþjóðlegum vettvangi vegna þeirrar stjórnar sem nú er á ríkisfjármálunum. Ég er sannfærður um að það er stórkostlega hættulegt fyrir lánstraust þjóðarinnar út á við ef staða ríkissjóðs versnar mikið frá því sem nú er. Menn hljóta að undrast þá óráðsíu í ríkisfjármálum sem sjá má á þeirri gífurlegu breytingu sem orðið hefur frá tíð Ragnars Arnalds til Alberts Guðmundssonar við stjórn ríkiskassans. Ég held því að varðandi stöðuna út á við sé í raun og veru engin spurning um Landsbankann. Það er ríkissjóður sem er aðalatriðið. Það er ríkissjóður sem hér er verið að setja á hausinn.

Í þessum umr. hefur líka komið fram að nauðsynlegt væri fyrir bankana hér á landi að búa við svipuð kjör og viðskiptabankar búa við í grannlöndum okkar vegna þess að bankarnir hér séu í vaxandi og harðnandi samkeppni við þá. Það er m. a. nefnt að nú sé á döfinni að opna hér útibú frá erlendum bönkum og íslenskir bankar verði í samkeppni við þau útibú. Það er alveg furðulegt að nefna þetta sem röksemd í þessu máli af meðhaldsmönnum þessa frv., vegna þess að engin ákvörðun hefur verið tekin um að koma hér á landi upp útibúum frá erlendum bönkum. Ég geri ráð fyrir að yfirgnæfandi meiri hl. Alþingis, fyrir utan einn og einn mann í Sjálfstfl., sé andvígur því að hleypa erlendum bönkum hér inn til að stofna bankaútibú. En svo langt getur fríverslunarofstækið náð í þessu efni að menn séu ekki aðeins að tala um sambærilega samkeppnisstöðu iðnfyrirtækjanna í landinu, heldur séu menn líka að ræða um það að bankarnir þurfi að bera sambærileg gjöld og bankar í grannlöndum okkar.

Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, til að mótmæla þessu. Hér er auðvitað algerlega um það að ræða að við ákveðum sjálf hvaða skattar eru greiddir hér af okkar bönkum. Og varðandi ummæli hæstv. fjmrh., endurtekin aftur og aftur, að þurft hafi að fella niður álag á ferðamannagjaldeyri vegna þess að Alþjóðabankinn hafi skipað svo fyrir, spyr ég: Hver hefur húsbóndavald í ríkisfjármálum á Íslandi ef það er ekki Alþingi Íslendinga? Það þarf ekki að spyrja Alþjóðabankann að einu eða neinu í þeim efnum. Og það er blátt áfram niðurlægjandi þegar fjmrh. íslenska lýðveldisins heldur fram skoðunum af þessu tagi.

Því var haldið fram og er haldið fram af talsmönnum þessa frv. um bankana og umboðsþóknunina að þegar þetta frv. yrði samþ. mundi minnka munur á kaup- og sölugengi. Eins og menn vita er nokkur munur á kaup- og sölugengi erlendra gjaldmiðla og sá munur er heldur meiri hér á landi en annars staðar. Menn segja sem svo: Þessi munur mun minnka þegar búið er að fella niður þetta gjald af gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Ég er sannfærður um að þessi yfirlýsing um mun á kaupgengi og sölugengi er einnig röng vegna þess, virðulegi forseti, að það er ætlun ríkisstj. líka að bankarnir ákveði hver fyrir sig gjöld af allri innlendri þjónustu. Tekið yrði upp svokallað álagningarfrelsi bankanna á allri þjónustu þeirra. Þess vegna verður munurinn að mínu mati sá að ríkið missir þá peninga sem hér er verið að tala um, missir tugi milljóna króna, sem verið er að skera hér af tekjum ríkisins, 130 millj. kr. á ári, en síðan hirða bankarnir þessa peninga í eigin þágu, þeir fá heimild til þess með því að ríkisstj. gefi þessa gjaldtöku frjálsa, eins og það er kallað. Þess vegna er ríkissjóður í raun og veru að afsala sér tekjum til þess að geta veitt bönkunum möguleika á að nota viðskiptafrelsið til að taka þessa peninga inn í bankana aftur.

Nú er gengið svo langt í viðskiptafrelsinu að farið er að skrifa bönkunum bréf. Við fengum eitt bréf um þetta í dag og ég ætla að lesa það, með leyfi hæstv. forseta: „Verðlagsstofnun, Borgartúni 7, Reykjavík.

Samband ísl. viðskiptabanka, Jónas Haralz, Landsbanka Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík.

Þann 1. sept. s. l. mun hafa tekið gildi gjaldskrá fyrir innlend viðskipti innlánsstofnana. Gjaldskrárliðir eru ákveðnir af Sambandi ísI. viðskiptabanka og Sambandi ísl. sparisjóða að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands, sbr. þó þá liði gjaldskrárinnar sem ákveðnir eru sem hundraðshlutar af fjárhæð, en þeir eru ákveðnir af seðlabankanum, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961.“ Seðlabankinn virðist því gefa þessa gjaldskrá út.

„Verðlagsstofnun vekur hér með athygli yðar á því að samræmd gjaldtaka“ — takið eftir — „og samningar eða samþykktir um gjaldaupphæðir, hvort sem þær eru lágmark eða hámark, nema hvort tveggja sé, er óheimilt, sbr. 21. gr. laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en sú grein hljóðar svo: „Samningar, samþykktir og annað samráð milli fyrirtækja um verð og álagningu er óheimilt þegar verðlagning er frjáls.“

Ef Samband ísl. viðskiptabanka hefur einhverjar athugasemdir fram að færa við lagabeitingu Verðlagsstofnunar í þessu máli er þeirra óskað sem allra fyrst. Ella verði notkun gjaldskrárinnar og samræmdri gjaldtöku hætt hið allra fyrsta.“

Það var skilningur fulltrúa viðskiptabankanna á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að þessi gjaldtaka, sem ekki má vera samræmd, taki til allra gjalda bankanna af hvaða tagi sem er. Fulltrúi og forstöðumaður Bankaeftirlitsins, sem mætti á fundi fjh.- og viðskn. í morgun, leiðrétti þetta hjá Jónasi Haralz bankastjóra og sagði að þetta ákvæði verðlagslaganna næði aðeins til gjaldskrár fyrir innlenda þjónustu af ýmsu tagi sem bankarnir veita. En allt um það, þá er núna gert ráð fyrir því að bönkunum verði bannað að bera sig saman um gjaldskrár, að bankarnir megi ekki hafa samráð um gjaldtöku af ýmiss konar þjónustu sem þeir veita. Þar með er auðvitað bersýnilegt að verið er að stefna inn á þá braut að bankarnir hafi frelsi, eins og það heitir, samkeppnisfrelsi til að ákveða þetta sjálfir að verulegu leyti, sem þýðir þá aftur það að bankarnir fá frelsi til að taka það gjald aftur sem hér er verið að fella niður á bönkunum. Það er verið að fella það niður, skera niður tekjur samneyslunnar og ríkisins, en bankarnir geta síðan hirt þetta gjald aftur með því að hækka sínar eigin gjaldskrár. Hér er því um að ræða næsta augljóst bragð til að flytja peninga frá fólkinu, frá almenningi og samneyslunni, yfir til bankanna í landinu.

Í umr. um þessi mál hefur nokkuð komið fram hverju ríkið tapar á þessari gjaldaniðurfellingu. Á þessu ári, 1984, tapar ríkið 22 millj. kr. Á árinu 1985 tapar ríkið 44 millj. kr. Á árinu 1986 tapar ríkið um 44 millj. kr. Þetta eru upplýsingar sem komu frá Árna Kolbeinssyni í morgun. Samtals er um það að ræða að ríkið fellir niður u. þ. b. 110 millj. kr. skatta á þessum stofnunum ef miðað er við 50% álag gjaldsins. Ef aftur á móti er miðað við 60% álag gjaldsins, eins og það er nú þó að hluti þess sé endurgreiddur, mun ríkið tapa 135 millj.

Síðan er ætlun ríkisstj. að breyta í grundvallaratriðum lögunum um skattskyldu innlánsstofnana. Þar er verið að breyta úr staðgreiðslukerfi yfir í eftirágreiðslukerfi. Bankarnir eru núna með staðgreiðslukerfi en það er meiningin að breyta þessu yfir í eftirágreiðslukerfi. Og útkoman í þeim efnum er sú að þessi kerfisbreyting, bara þessi eina kerfisbreyting, kostar ríkið 150 millj. kr., þessi eina kerfisbreyting úr staðgreiðslukerfi yfir í eftirágreiðslukerfi. Eitt er nú það að létta sköttum af bönkunum. Annað er hitt að gera það með þeirri rausn að henda um leið út úr ríkissjóði, þó að því sé skipt á tvö ár, 150 millj. kr.

Í tillögum bankamálanefndarinnar, sem ríkisstj. ber mjög fyrir sig í þessum efnum, var að finna nokkrar tillögur varðandi skatta innlánsstofnana. Þegar ríkisstj. lagði málið fram hér í þinginu voru, að mig minnir, tvær eða þrjár af þessum tillögum í frv. ríkisstj. Í fyrsta lagi var í frv. ríkisstj. lagt til að opnuð yrði heimild til sérstakrar niðurfærslu sem næmi hálfu prósenti af aukningu útlána og veittra ábyrgða á rekstrarárinu. Þetta var gert til þess að bankarnir gætu áætlað fyrir töpum vegna þeirra útlána sem þeir veita. Þá er alltaf eitthvað sem ekki næst inn og það var gert ráð fyrir að það yrði 1% eins og í tillögum bankamálanefndarinnar. Þegar ríkisstj. flutti frv. fyrst breytti hún þessu og lækkaði töluna úr 1% niður í 0.5%. Það var mat fjmrh. að óþarfi væri að láta bankana hafa meira, eða eins og segir hér í athugasemdum við einstakar greinar frv.:

„Í frv. er lagt til að fjárhæð til færslu í sérstakan afskriftareikning sé miðuð við 0.5% af framangreindum stofni en bankamálanefndin lagði til að miðað yrði við 1%. Verður að telja“, segir fjmrh. hér, „að till. frv. sé mun nær raunverulegri þörf vegna útlánaáhættu miðað við reynslu fyrri ára og þá niðurfærsluprósentu sem ýmsar innlánsstofnanir hafa notað á undanförnum árum í reikningum sínum. Við mat á þessu hlutfalli verður einnig að hafa í huga að alls engin áhætta fylgir töluverðum hluta þeirra lána og ábyrgða sem talin eru með í stofninum. Má þar nefna verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs, skuldabréf ríkisins og annarra opinberra stofnana, t. d. Framkvæmdasjóðs, útlán og ábyrgðir sem tryggð eru með ríkisábyrgð o. s. frv.“

M. ö. o., fjmrh. taldi nóg að láta bankana hafa heimildir til að afskrifa hér 0.5 prósent af veittum útlánum með þeim rökum sem hér er um að ræða að auðvitað er engin áhætta fyrir bankana að lána út fé með ríkisábyrgð eða þegar um slíkar tryggingar er að ræða. Ed. var svo rausnarleg, meiri hl. í Ed., að hún breytti þessu og tvöfaldaði afskriftaheimildir bankanna, fór úr 0.5% upp í 1%. Þar með er talið að tap ríkissjóðs af þessum ástæðum aukist samsvarandi eða a. m. k. um 10–12 millj. kr. Þetta var önnur till. upphaflegs frv., að gera ráð fyrir því að bankarnir gætu lagt á afskriftareikning 1% af aukningu útlána og veittum ábyrgðum á hverju rekstrarári.

Í öðru lagi gerði upphaflegt frv. ríkisstj. ráð fyrir því að innlánsstofnanir með lægri innistæðu en 50 millj. kr. í árslok 1982 verði skattfrjálsar. Þá var talið að fjárhagsleg áhrif þessarar till. væru óveruleg þar sem þær innlánsstofnanir sem hér um ræðir höfðu einungis tæp 4% af heildarinnlánum 1982.

Þessi till. er inni í frv. ríkisstj. og henni var ekki breytt í Ed. Nú er ekki lengur miðað við 50 millj. kr. í þessu efni heldur 85 millj. kr. Það er búið að breyta tölunni í samræmi við verðbreytingarstuðul ríkisskattstjóraembættisins, þannig að sú breyting sem hér er um að ræða gerir það að verkum að það verða ekki nema u. þ. b. 11 sparisjóðir í landinu sem verða í raun og veru skattskyldir skv. þessu frv. Það eru 11 stærstu sparisjóðirnir. Þeir eru langflestir hér á Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum. Stærstur er sparisjóðurinn í Keflavík. En það eru mjög fáir sparisjóðir utan Reykjavíkursvæðisins og Suðurnesja.

Þegar þetta mál fór til hv. Ed. til meðferðar voru sem sagt inni í því tvær brtt. við lög um skattskyldu innlánsstofnana. En Ed. bætti um betur og boraði fleiri göt á ríkissjóð og fylgdi þannig stefnu hæstv. fjmrh. því að í Ed. var ákveðið að undanþiggja alla stofnlánasjóði og veðdeildir bankanna skattskyldu. Hér er um að ræða verulegt tap í viðbót fyrir ríkissjóð frá því sem var í upphaflegu frv. ríkisstj. Þegar málið var til meðferðar í hv. Ed. var m. ö. o. haldið áfram að bora göt á ríkissjóð til þess að staða hans yrði nú tryggilega eins vond og völ var á þegar þessu þingi yrði frestað eða því slitið.

Þegar búið er að afgreiða málið hér í þinginu þá er búið að samþykkja allar hugmyndir bankamálanefndar um skattalækkanir handa bönkunum nema eina. Þær voru fimm og það er búið að samþykkja fjórar. Þar með er það mál frá. Tillagan um eignarskatt bankanna stendur að vísu enn þá eftir. En jafnframt er svo bætt um betur og bankarnir látnir hafa 150 millj. á tveimur árum með því að færa frá staðgreiðslukerfi yfir í eftirágreiðslukerfi skatta. Hér er um að ræða óskiljanlega rausn hæstv. fjmrh. gagnvart bönkunum, að ekki sé fastar að orði kveðið, og hélt ég að þeir væru síst af öllu þeir sem þyrfti að hjálpa sérstaklega miðað við núverandi aðstæður í íslenska þjóðlífinu.

Hæstv. fjmrh. segir í þessu sambandi: Er það sanngjarnt að taka fyrirframskatta af bönkum frekar en öðrum fyrirtækjum eða stofnunum? Af hverju á að taka skatta fyrir fram af þessum stofnunum og hafa ekki hugmynd um hvernig útkoma ársins verður? Auðvitað er ekkert óeðlilegt að taka skatta jafnharðan af þessum stofnunum. Auðvitað er ekkert óeðlilegt að vera með staðgreiðslukerfi skatta í meginatriðum af þessum stofnunum. Það kom líka fram þegar málin voru til meðferðar í fjh.- og viðskn. Nd. í morgun að Seðlabankinn, Bankaeftirlitið og fjmrn., skattheimtuaðilinn, telja að þetta kerfi hafi gengið mjög vel, staðgreiðslukerfi skatta af bönkunum. Þetta hefur verið tekið mánaðarlega, 0.06% af innlánsaukningu, og síðan hefur það verið gert upp eftir á. Þessi 0.06% hafa verið uppígreiðsla og síðan hefur það verið gert upp eftir á. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að það er ekkert ósanngjarnt í rauninni að taka þessa skatta af bönkunum með þeim hætti sem gert hefur verið og það eru allir mjög sáttir við þetta fyrirkomulag, bæði viðskiptabankarnir og Seðlabankinn og fjmrn., það hefur enginn ágreiningur verið um framkvæmdina. Auðvitað vilja þessir aðilar borga lægri skatta, það eru ýmsir sem vilja það, en það er varla hlutverk fjmrh. að hlaupa eftir hverjum einasta manni sem heimtar lægri skatta í þessu landi og sérstaklega ekki þegar um er að ræða stórgróðafyrirtæki eins og bankana.

Hæstv. fjmrh. ræddi það nokkuð í ræðu sinni, eins og hann hefur reyndar gert áður og ég hef heyrt ganga aftur í ræðum stjórnarsinna stundum að undanförnu, að á síðasta ári hafi vantað 25% til þess að endar næðu saman á fjárlögum Sjálfstfl. árs. Þetta eru hrein ósannindi. Staðan var þannig að á árinu 1983 fór verðbólga verulega fram yfir það sem gert hafði verið ráð fyrir þegar fjárlögin voru afgreidd, það er rétt, hún fór verulega fram yfir það, og af þeim ástæðum fóru öll gjöld, m. a. launagjöld ríkisins, verulega fram úr fjárlagatölunum. En það gerist hins vegar um leið að tekjur ríkissjóðs urðu í krónutölu verulega hærri en gert hafði verið ráð fyrir líka. Ummæli fjmrh. um að vantað hefði 25% í ríkissjóð til að endar næðu saman á s. l. ári eru þess vegna fjarstæða og ósannindi og málflutningur sem er í raun og veru ekki sæmandi hæstv. fjmrh. Þegar hann er að ræða um þessi mál verður hann auðvitað að horfa bæði á tekju- og útgjaldahliðina. Ég segi við hann: Það er eðlilegt að skoða þessa hluti þannig að athuga hvað kemur inn í tekjum og hvað kemur inn í gjöldum og hver er mismunurinn hlutfallslega. (Fjmrh.: Aukafjárveitingarnar.) Þær koma þessu máli ekki við, hæstv. fjmrh. Aukafjárveitingar eru veittar til þess m. a. að jafna út þann mismun sem er á fjárlögum og þeim verðbólguniðurstöðum sem síðan verða í þjóðfélaginu. En það eru ekki þær sem eru hér á blaði.

Hæstv. núv. fjmrh. er hins vegar með ríkissjóð þar sem munurinn á tekjum og gjöldum er meiri en hann hefur verið um margra ára skeið. Hann slær út Matthías Á. Mathiesen, og er þá langt til jafnað, vegna þess m. a. að hæstv. fjmrh. tekur erlend lán til að brúa þetta bil. Hann er fyrsti fjmrh. í sögunni sem lætur borga frímerki og síma- og bílareikning og kaup á pappír og hvað eina með erlendum fjármunum. Hann er fyrsti fjmrh. í sögunni sem er með þvílíkt gat á ríkissjóði að hann verður að brúa það með mörkum og pundum og dollurum. Það hefur aldrei gerst fyrr. Þessi ummæli hæstv. fjmrh. um að vantað hefði 25% í ríkissjóð á s. l. ári eru því hrein fjarstæða vegna þess að þar tekur hann ekki tillit til þess að tekjurnar hreyfast vitaskuld líka þegar um er að ræða verðlagshækkanir umfram það sem nemur forsendum fjárlaganna. Nei, ég held að hæstv. fjmrh., sem á það nú til að vera sanngjarn, eigi ekki að hafa uppi svona málflutning vegna þess að hann gefur algerlega ranga mynd af hinni raunverulegu stöðu.

Ég vil þá spyrja hæstv. fjmrh. til þess að við getum mæst einhvers staðar í þessu plani: Hver er halli ríkissjóðs sem hlutfall af tekjum hans 1983? Hver var hann 1982? Hver var hann 1981? Hver var hann 1980? Nú skal ég hætta. Þessar hlutfallstölur um halla ríkissjóðs sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs ætti hæstv. fjmrh. að geta látið mér í té. Ef hann er í vandræðum með upplýsingar í þessu efni, sem ég held að hann geti nú varla verið, þá vil ég benda honum á glögga grein í Fjármálatíðindum þar sem um þessi mál er fjallað nýlega. Ég held að fjmrh. landsins verði að átta sig á því að það er af ýmsum ástæðum hlustað mjög vandlega á það sem hann hefur að segja um ríkisfjármálin á hverjum tíma. Og ég held að það sé varla viðkunnanlegt fyrir fjmrh. sjálfan að fara með málflutning, ég leyfi mér, virðulegi forseti, að segja þvælu um fjármál ríkissjóðs eins og hann gerir iðulega hér, þegar hann talar um að 25% hafi vantað og ég veit ekki hvað og hvað. Nei, ég held að hér hafi fjmrh. verið á villigötum eins og hann er líka þegar hann er að reyna að knýja í gegn þessa undarlegu skattalækkanir bankanna upp á 360 millj. kr. á tveimur, þremur árum.

Ég tek það fram að það er 1. umr. sem stendur hér yfir um þetta mál og henni er ekki nærri lokið. Hins vegar er ljóst að ríkisstj. leggur ofurkapp á að fá málið afgreitt og auðvitað getur hún beitt afli sínu til að knýja fram skattalækkun handa bönkunum. En það er athyglisvert ef það gerist að stjórnarandstöðunni, sem er að reyna að lappa upp á fjárhag ríkissjóðs, skuli ekki verða tekið fagnandi af fjmrh. þegar hún er jafnábyrg í ríkisfjármálum og núv. stjórnarandstaða er. Við teljum að hallinn á ríkissjóði sé nógur. Við teljum að komin séu nógu mörg göt á ríkissjóð hjá hæstv. fjmrh. Albert Guðmundssyni. Við viljum vernda samneysluna. Við viljum halda utan um félagslega þjónustu. Við viljum ekki lækka framlög ríkisins vegna tannviðgerða eða sjúkradagpeninga húsmæðra, námsmanna né yngra verkafólks í landinu. Þess vegna erum við andvíg því í Alþb. að lækka þessa skatta, við teljum það óþarfa.

Það er furðulegt að forsrh., sem beitir sér fyrir því að taka erlend lán í ríkissjóð til að borga frímerki og síma og bíla og ég veit ekki hvað og hvað, skuli svo beita sér fyrir því að lækka skattana sem renna í ríkissjóð með þessum hætti. Það er alveg dæmalaust. Og þegar fyrir dyrum stendur að ljúka þinginu næstu daga, jafnvel á mánudag var rætt um, þá er offorsið svo mikið við að knýja fram lausn þessa þjóðþrifamáls hér að frestað er að ljúka þinginu vegna þess að það er svo mikil lífsnauðsyn að lækka skattana á bönkunum. Það má alls ekki dragast fram yfir þetta þing, t. d. fram á næsta haust. Framsfl. getur ómögulega liðið það. Það er jafnvel gengið svo langt að margra áratuga hefðir um það að forsrh. sé viðstaddur þinglausnir eru brotnar, vegna þess að það liggur svo mikið á að keyra í gegn skattahækkun bankanna að þinginu yrði væntanlega ekki slitið fyrr en forsrh. væri farinn úr landi. Ja, hvílíkt offors að keyra í gegn þennan „félagsmálapakka“ bankanna, skattalækkun bankanna sem hér er á dagskrá. Það er alveg með ólíkindum, en sýnir vel stefnu þessarar ríkisstj. hvernig hér er að hlutunum staðið.

Það er byrjað á því að þræla hér í gegn frv. um að hækka skatta á einstaklingum um 70 millj., það er þrælað hér í gegn frv. um að skera niður félagslega þjónustu og taka erlend lán til þess að borga rekstrarkostnað ríkisstofnana í fyrsta sinn í sögunni, greiða meðlög og lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Þetta gerist allt. En beint í kjölfarið kemur hér frv., keyrt í gegn af hæstv. forsrh. og fjmrh., um það að bora fleiri göt á ríkissjóð. Það er yfirlýsing ríkisstj. um það að of lítið sé af erlendum lánum, of mikil heilbrigðisþjónusta, of góðir vegir, of mikið byggt, of góð staða ríkissjóðs, það þurfi alveg endilega að búa til stærra gat á sjóðinn, það séu of góðir skólar, of góð kennsla og þess vegna þurfi endilega að lækka tekjur ríkissjóðs.

Hæstv. forsrh. fer hamförum hér síðustu sólarhringa þessa þings til að knýja fram þetta líka þjóðþrifamál, lækkun skatta á bönkunum. Það er engu líkara en hér sé um að ræða mál sem skipti sköpum fyrir framtíð lands og þjóðar næstu ár og áratugi, svo mikill er fyrirgangur í hæstv. ríkisstj. Það skyldi þó ekki vera að ríkisstj. sé svo undir hælnum á bankavaldinu að hún þori ekki að gera annað en það sem það segir? Vissulega er núv. hæstv. fjmrh. frekar undir hælnum á bankavaldinu en nokkrir fjmrh. fyrr og síðar. Það er ekki nóg með það að ríkissjóður sé rekinn með erlendum lánum upp á hvern dag heldur gengur seðlapressan í London hraðar en nokkru sinni fyrr til þess að reka ríkissjóð fyrir seðla sem engin verðmætasköpun eða skattheimta eða tekjumyndun er á bak við í þjóðfélaginu.

Þegar þessi mál voru til meðferðar í n. í Ed. voru skrifuð bréf um þessi mál og þá kom það fram hvaða aðilar það eru sem leggja mesta áherslu á að keyra þetta fram. Hverjir ætli það séu? Ætli það séu húsmæður? Eða verkalýðshreyfingin? Eða bændur? Eða var gerð um það samþykkt í Framsfl.? Það eru bankarnir sem ráðh. eru hlaupandi í kringum hér nætur og daga, haldandi hér næturfundi dag eftir dag því nú stefnir hér hugsanlega í þriðja næturfundinn út af þessu sama máli. (Gripið fram í: Það kemur ekki til, við neitum því.) Auðvitað neitum við því, en það sýnir offorsið, fyrirganginn og frekjuna í hæstv. ríkisstj. að reyna að böðlast fram með þessa skattalækkun bankanna einmitt nú. Ríkisstj. virðist telja hag ríkissjóðs allt of góðan og það sé um að gera að gera hag ríkissjóðs enn þá verri en hann er núna. Stjórnarandstaðan er að reyna að hjálpa til við að halda utan um þennan sameiginlega sjóð landsmanna og þegar stjórnarandstaðan réttir fram hjálpandi hönd í þessu efni og býður ríkisstj. aðstoð við að halda utan um ríkissjóð þá er slegið á þá framréttu sáttahönd. Hugsjón ríkisstj. er gat á ríkissjóði. Hugsjón og sameiningartákn ríkisstj. er gat á ríkissjóði. Því stærra gat, því betri samstaða í ríkisstj. Og þegar upp koma ágreiningsmál þá er verslað. Mangósopinn er látinn fyrir húsnæðissamvinnufélög. Svo eru það kartöflur. Það er braskað með þær fyrir eitthvað annað. Einn daginn er braskað með skatta bankanna og eitthvað enn annað. En það er gatið sem er táknið. Sól ríkisstj. og sameiningartákn er gat á ríkissjóði.