21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6501 í B-deild Alþingistíðinda. (6014)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki í samræmi við venjuleg þingsköp að taka svo til orða að ég hafi kvatt mér hljóðs, heldur mæli ég hér fyrir nál. sem reyndar er frá fyrri minni hl. fjh.- og viðskn. Það er á þskj. 830.

Á því þskj. kemur fram að 1. minni hl. fjh.- og viðskn. leggur til að þetta frv. verði samþykkt.

N. hefur haft þetta frv. til umfjöllunar meginhluta þingtímans og fengið fjölmargar umsagnir um málið. Frv. felur það í sér að skattstjórar fái heimild til að veita sérstaka skattaívilnun þegar skattþegn verður fyrir verulegum útgjöldum vegna tannviðgerða svo að gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.

Aðdragandi þessa frv. er sá að það hafa farið fram ítarlegar umr. hér á Alþingi um þann gífurlega kostnað sem fylgir tannviðgerðum og það hefur margsinnis komið fram af hálfu Alþfl.-manna að þeir teldu að almannatryggingarnar ættu að taka þátt í þeim kostnaði, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði reyndar að umræðuefni, en í nál. frá þeim 2. minni hl. n. sem hann talaði hér fyrir er einmitt tekið fram að það sé örvænt um að slík almenn þátttaka í tannviðgerðum eigi stuðning á Alþingi um þessar mundir og það er af þessum sökum sem þetta frv. var flutt á þessu þingi, um sérstaka ívilnun vegna tannviðgerða hjá gjaldþegni þegar gjaldþol hans skerðist verulega, og það var í ljósi þeirrar umræðu sem áður hafði farið fram. Frv. felur það sem sagt í sér að skattstjórar fái heimild til að veita sérstaka skattaívilnun þegar skattþegn verður fyrir verulegum útgjöldum vegna tannviðgerða svo að gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.

Í 66. gr. skattalaga eru ákvæði um lækkun tekjuskattsstofns ef skattaðilar verða fyrir þungum búsifjum og gjaldþol þeirra skerðist verulega af þeim sökum:

1) Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega. 2) Ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómum eða er fattað eða vangefið og veldur framfæranda verulegum útgjöldum umfram venjulegan framfærslukostnað og mótteknar bætur.

Þannig eru áfram raktar í 66. gr. skattalaganna ýmsar ástæður fyrir því að skattstjórar fái heimild til þess að veita skattaívilnanir þegar menn verða fyrir verulegum búsifjum af heilsufarsástæðum.

Það frv. sem hér er flutt gerir ráð fyrir því að tannviðgerðir verði teknar með undir þennan lið með sama hætti þegar menn verða fyrir verulegum útgjöldum af tannviðgerðum og að skattstjórar geti þá veitt ívilnanir með sama hætti og þegar menn verða fyrir verulegum útgjöldum vegna áfalla af öðru tagi.

Það er skemmst frá að segja að það er nýbúið að samþykkja hér í hv. Alþingi að draga úr framlögum til tannviðgerða til ákveðinna hópa í þjóðfélaginu og það hefur margsinnis verið reynt að koma því fram að almannatryggingarnar greiddu til þessara hluta. Hvorugt hefur tekist og því er með þessu frv. reynt að koma eilítið til móts við þá sem verða fyrir verulegum útgjöldum af þessum sökum.

Það er augljóst að útgjöld einstaklinga og heimila eru oft mjög mikil vegna tannlækninga og geta í mörgum tilvikum skert greiðsluþol manna verulega, ekki síður en þau ákvæði 66. gr. skattalaganna sem ég rakti hér áðan eða aðrir töluliðir hennar. Benda má á að í sumum þeirra tilvika, sem veita skattaívilnun samkv. 66. gr., kemur einnig greiðsla frá sjúkratryggingum almannatrygginganna.

Með frv. er vitaskuld einungis stigið takmarkað skref í þá átt að létta undir með fólki vegna kostnaðar af tannviðgerðum.

Ég ítreka að vitaskuld er eðlilegt að auka þátttöku almannatrygginga í greiðslu tannlækninga, en fjárlagafrv. fyrir 1984 og allur aðdragandi þessa máls gefur þó ekki tilefni til að ætla að slík úrbót sé á næsta leiti. Nýframkomnar till. ríkisstj. um skerðingu á þátttöku almannatrygginga í tannlækningakostnaði gefa hins vegar fyllsta tilefni til að koma til móts við þá, sem illa eru settir að því er gjaldþol varðar, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umfjöllunar.

Þetta eru niðurlagsgreinar nál. á þskj. 830, en þar leggur minni hl. til að frv. verði samþykkt.