21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6502 í B-deild Alþingistíðinda. (6015)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í sjálfu sér er tilgangslaust að hafa mjög mörg orð um þetta mál. Meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. er staðráðinn í því að koma í veg fyrir að þetta mál nái fram að ganga hér á hv. Alþingi.

Í þessu máli hafa komið fram þrjú nál. Í fyrsta lagi kom nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. sem leggur til að málinu sé vísað til ríkisstj., nál. liggur fyrir frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. undirritað af Kjartani Jóhannssyni sem leggur til að frv. verði samþ. og þriðja nál. er undirritað af Guðmundi Einarssyni og Svavari Gestssyni. Það er raunar furðulegast af þessum þremur nál.

Hv. þm. Svavar Gestsson, sem mælti fyrir nál. 2. minni hl., var fljótur að hespa sér af hér í ræðustól um þetta mál, enda hefur hann hringlað mikið með þetta mál á undanförnum árum og breytt afstöðu sinni sitt og hvað í þessu máli. Það er því ekki skrýtið þó hann hafi reynt að flýta sér eins og hann gat að greina frá þeirri afstöðu sem hann nú hefur tekið í þessu máli.

Það má eiginlega með sanni segja, herra forseti, að það sé nokkuð sérstæð sú saga hér í hv. Alþingi sem snertir það að reyna að létta af landsmönnum útgjöldum af tannlækningum og sem rekja má í raun í Alþingistíðindum á undanförnum þremur árum. Hér hafa ýmist verið á ferðinni frv. um að auka þátttöku almannatrygginga í tannlækningakostnaði eða að létta eilítið á þeim byrðum sem fólk axlar vegna mikils tannlæknakostnaðar með því að veita skattafslátt. Svo einkennilega vill til að komi fram till. um að auka þátt almannatrygginga í tannlæknakostnaði er því umsvifalaust slegið fram að réttara sé að veita skattafslátt. Sé eftir þeim óskum farið og lagt fram frv. um að veita skattafslátt er strax snúið aftur við blaðinu og sagt að réttara og eðlilegra sé að fara þá leið að greiða þetta gegnum almannatryggingar. Ég er satt að segja orðin nokkuð þreytt á þeim sirkus sem hefur verið leikinn hér á hv. Alþingi í þessu efni.

Flestir ef ekki allir hv. alþm. viðurkenna í orði að útgjöld vegna tannlækninga geti verið svo mikil að nauðsynlegt sé að leita leiða til að létta af þeim byrðum sem landsmenn margir hverjir bera vegna útgjalda af tannlæknakostnaði. Samt hefur á undanförnum árum farið fram hér á Alþingi hver sirkussýningin af annarri í þessu efni og menn geta ekki ráðið það við sig hverra leiða á að leita í þessu efni. Þó freistandi væri að rifja upp hér á hv. Alþingi alla leikþætti þeirra mörgu sirkussýninga sem hér hafa farið fram um þetta mál, þá skal ég ekki, herra forseti gera það í mjög löngu máli. Ég skal láta mér nægja að drepa á nokkur atriði.

Það var fyrst á Alþingi árið 1981 sem ég lagði fram frv. um aukna hlutdeild almannatrygginga í fannlækningum um að greiða skyldi 25% af almannatryggingum í tannlækningum þeirra sem tryggingar höfðu ekki áður greitt fyrir og 20% í gullfyllingum, krónu- og brúaraðgerðum. Heilbrmrh. var þá hv. þm. Svavar Gestsson, sem oft hefur leikið aðalhlutverkið í sirkussýningunum hér á hv. Alþingi í þessu efni, og er hans þáttur í þessu máli kannske sérstæðastur. Við þá umr. á árinu 1981 sagði þáv. hæstv. heilbrmrh. Svavar Gestsson m. a., með leyfi hæstv. forseta, en það var þegar ég mælti fyrir frv. um að almannatryggingar ættu að greiða aukinn hlut í tannlæknakostnaði:

„En það kæmi líka til greina önnur leið sem ég hef látið kanna sérstaklega og er með í sérstakri athugun. Hún er í því fólgin, að menn fái skattafslátt vegna þessarar þjónustu út á þær kvittanir sem þeir leggja fram fyrir hana. Ég tel að með því móti væru slegnar tvær flugur í einu höggi og stuðlað jafnframt að öruggari framtölum fyrir þá þjónustu sem hér er verið að greiða fyrir.“

Þetta sagði hv. þm. Svavar Gestsson þá, sem nú hefur lagt fram frv. um þátttöku almannatrygginga í tannlækningum, en treystir sér nú ekki til þess að mæla með því að farin verði sú leið að veita skattafslátt vegna mikilla útgjalda af tannlækningum.

En á þessu þingi, á árinu 1981, sofnaði þetta frv. um aukna hlutdeild almannatrygginga í tannlæknakostnaði í n. Á næsta þingi, á árinu 1982, fór ég að ráðum hv. þm. Svavars Gestssonar og þáv. heilbr.- og trmrh. og flutti málið í þeim búningi að veittur yrði skattaafsláttur vegna tannlækninga, enda var þá eins og nú við mikla efnahagserfiðleika að etja og eðlilegra að fyrst um sinn yrði farin sú leið að veita skattafslátt. Málinu var allvel tekið hér á hv. Alþingi og var afgreitt samhljóða út úr n. og nál. m. a. undirskrifað af hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. Matthíasi Bjarnasyni, sem þó skrifaði undir nál. með fyrirvara. Veigamesta athugasemd n. var að málið hefði ekki farið í rétta n., hefði átt að mati sumra þm. að fara í fjh.- og viðskn. í stað heilbr.- og trn. Ég sé núna að það var auðvitað hárrétt að senda málið í hv. heilbr.- og trn. á sínum tíma. Ég held að sú afgreiðsla sem málið hefur nú fengið frá fjh.- og viðskn. sanni það. Nm. í heilbr.- og trn. virtust hafa bæði betri og meiri skilning á málinu og þora að taka afstöðu til málsins. Það er annað en hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. gerir nú, sem greinilega þorir ekki að taka afstöðu og afgreiðir málið með þeim aumingjalega hætti að vísa málinu til ríkisstj.

Undir það nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem nú liggur fyrir um að vísa málinu til ríkisstj. skrifar m. a. hv. þm. Halldór Blöndal. Fyrir tveimur árum hafði þessi hv. þm. allt aðra skoðun á þessu máli, en þá sagði hann, með leyfi forseta, um samhljóða frv. um að veita skattafslátt:

„Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar“, sagði hv. þm. Halldór Blöndal, „að ríkissjóður eigi ekki að hafa tekjur af því þegar menn leita sér lækninga, ég get af þeim sökum tekið fullkomlega undir þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í því frv. sem hér liggur fyrir til 2. umr.

Svona geta menn breytt um afstöðu þegar reynir á að standa við orð sín. Nú skrifar hv. þm. Halldór Blöndal undir það álit að vísa málinu til ríkisstj.

Þá ætla ég að víkja aftur að þætti hv. þm. Svavars Gestssonar í sirkussýningunni sem þá fór fram á Alþingi. Eins og áður er getið var frv. um skattafslátt, sem flutt var á árinu 1982, ekki síst flutt vegna orða þáv. heilbr.- og trmrh. um að hann teldi skattaafslátt fyllilega koma til greina eins og þátttöku almannatrygginga. Svo bregður þó við að þegar frv. um skattaafslátt kemur úr heilbr.- og trn. með samhljóða áliti og fer í atkvgr. þann 2. mars 1983 fer fram nafnakall um frv. og hv. þáv. heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson lýsir þá yfir eftirfarandi við nafnakall, með leyfi forseta:

„Ég tel algjörlega óeðlilegt að setja ákvæði af þessu tagi inn í lög um tekju- og eignarskatt og miklu nær sé að koma til móts við þá, sem þurfa að leita tannlækninga, með öðrum hætti, þ. e. í gegnum almannatryggingakerfið. Spurningin í þessu efni hefur jafnan snúist um það, hvort Alþingi væri reiðubúið að stofna til þeirra útgjalda sem ákvæði af þessum toga hefðu í för með sér. Samkv. því nál. sem fyrir liggur frá heilbr.- og trn. hv. deildar, þá virðist hv. deild reiðubúin til slíks og með tilliti til þess held ég og hef ég talið að það væri eðlilegra að nota fjármunina öðruvísi. Af þeim ástæðum var þetta mál tekið fyrir í ríkisstj. í morgun. Þar var ákveðið að heimila mér að breyta reglugerð um greiðslu sjúkrasamlaga í tannlækniskostnaði á þann veg að endurgreiða hinum tryggðu 20% kostnað við tannlæknaþjónustu, sem er þá viðbót við það sem almannatryggingar þegar greiða í þessu efni. Af þessari ástæðu og fleirum, herra forseti, segi ég nei við frv.“, sagði hæstv. þáv. félmrh. sem nú segir það algerlega óeðlilegt að setja ákvæði af þessu tagi í lög um tekjuskatt og eignarskatt. Sami maðurinn sem hér talaði hafði einmitt ráðlagt mér á sínum tíma, þegar ég lagði fram frv. um aukna hlutdeild almannatrygginga í tannlæknakostnaði, að fara þessa leið. Nú var hún, nokkrum mánuðum síðar, orðin algerlega óeðlileg.

Hv. þm. Svavar Gestsson og þáv. heilbr.- og trmrh. vildi sem sagt ekki fara þessa leið þegar frv. kom hér fram í þá átt og að því kom að greiða atkv. um hana. Þar sem þessi yfirlýsing ráðh. lá fyrir sáu sumir þm. ástæðu til að breyta afstöðu sinni við atkvgr. og einn nm., sem skrifað hafði undir nál. sem mælti með samþykkt frv. um skattafslátt, greiddi atkv. gegn frv., en það var hv. núv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason. Tveir núv. ráðh. lögðu þessari leið þó lið og sögðu já við því að veita skattafslátt vegna tannviðgerða. Það voru hæstv. núv. fjmrh. Albert Guðmundsson og hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson. Treysti ég því að þessir mætu menn ætli nú ekki á þessari stundu að fara að breyta um skoðun og hoppa upp í sirkushringekjuna og breyta um afstöðu frá því sem þeir höfðu á árinu 1982, eins og hv. þm. Halldór Blöndal ætlaði greinilega að gera.

Hæstv. fjmrh. getur miklu ráðið um þessi mál, að koma þannig til móts við þá sem hafa veruleg útgjöld vegna tannviðgerða. Af því að ég sé hann hér í hliðarherbergi vil ég beina þeirri spurningu til hans, af því að hann er maður sem ég vona að standi við orð sín og það sem hann hefur sagt, hvort hann hafi nokkuð breytt um afstöðu frá því á síðasta þingi, en þá var hann tilbúinn til þess að standa að frv. um að veita fólki skattaafslátt vegna mikilla útgjalda vegna tannlækninga. Nú ræður hæstv. ráðh. ansi miklu um þessi mál og hans orð í þessu máli mundu vega þungt ef hann kæmi hér í ræðustól og mundi lýsa því yfir að hann væri sömu skoðunar og á síðasta þingi og mælti með því að þetta frv. yrði nú samþykkt og mundi greiða því atkvæði sitt. Ég treysti því að þessari umr. ljúki ekki án þess að hæstv. fjmrh. komi hér í ræðustól og lýsi afstöðu sinni til þessa máls.

Þegar hæstv. þáv. heilbrmrh. hafði greint frá því að hann hefði skipt um skoðun frá þinginu áður og hann ætlaði að auka þátttöku almannatrygginga með því að breyta reglugerð drógu margir þm. í efa að ráðh. þáv., Svavar Gestsson, hefði lagastoð fyrir því að breyta með reglugerð þátttöku almannatrygginga í tannlækningum. Til þess skorti lagaheimild. Sama dag og till. um skattaafsláttinn var felld lagði ég því fram ásamt nokkrum öðrum þm. á nýjan leik frv. frá síðasta þingi um aukna þátttöku almannatrygginga í tannlækningum. Það frv. var síðan samþ. í Nd. eftir mikið þref um kostnað og hvort ríkissjóður hefði fjármagn til verkefnisins. En frv. varð ekki útrætt í Ed. Fyrrv. heilbrmrh. hélt sínu striki og gaf út reglugerð sem aldrei kom til framkvæmda því hæstv. núv. heilbrmrh. felldi hana úr gildi, þegar hann settist í stól heilbrmrh. skömmu síðar, á þeirri forsendu að ekki væri til fjármagn til að standa undir kostnaði sem af reglugerðinni leiddi. Ég taldi því allar forsendur fyrir því á þessu þingi, sem nú situr, að endurflytja frv. um skattafslátt, m. a. vegna þess að afstaða margra þm., sem greiddu atkv. gegn frv. um skattafslátt á síðasta þingi, byggðist á því að auka ætti hlutdeild almannatrygginga í tannlækningakostnaði sem ekki hefur af orðið. Ef ekki hefur verið grundvöllur fyrir því að láta reglugerðina taka gildi s. l. sumar, sem kvað á um aukinn þátt almannatrygginga í tannlæknakostnaði, er ljóst að ekki er frekar grundvöllur fyrir því nú, ekki síst í ljósi þess að ríkisstj. er með sínum fjármálaráðstöfunum nú að draga verulega úr þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði t. d. unglinga.

Það er að þessu leyti til sem mér finnst þáttur hv. þm. Svavars Gestssonar og Guðmundar Einarssonar allsérstæður í þessu máli. Þeir vita mætavel, þessir hv. þm., að frv. sem þeir leggja fram núna, nokkrum dögum áður en þingi er slitið, um að auka þátt almannatrygginganna um 20%, nær ekki fram að ganga og þeir viðurkenna það meira að segja í nál. sínu og taka það reyndar fram. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þess að meiri hl. Alþingis hefur nú ákveðið að lækka hlutfall ríkisins í tannviðgerðum barna og unglinga sýnist örvænt um að almenn þátttaka í tannviðgerðum eigi stuðning á Alþingi.“

Þeir segjast fyrst og fremst vera að sýna sinn pólitíska vilja. Ég hefði nú talið eðlilegra, hv. þm. Svavar Gestsson, að þú hefðir sýnt þinn pólitíska vilja til þess að eitthvað yrði nú gert í þessu máli með því að styðja frv. sem lá fyrir um skattafslátt vegna mikilla útgjalda vegna tannlækninga. Það hefði verið miklu raunhæfara mat í stöðunni eins og hún er núna. (SvG: Finnst þér líklegra að þetta verði samþ.?) Ég gef nú ekki upp alla von enn þá. Það voru margir þm. á síðasta þingi og þm. sem sitja nú í ráðherrastólum sem greiddu þessari leið atkv. á síðasta þingi og ég geri mér enn vonir meðan ekki hefur farið fram atkvgr., ef þessir menn skipta ekki um skoðun eins og hv. 3. þm. Reykv. gerir hvað eftir annað í þessu máli. Og ég hefði nú haldið það, hv. þm. Svavar Gestsson, að það hefði verið miklu raunhæfara og eðlilegra að hv. þm. hefði stutt þetta nál. sem liggur fyrir um að samþykkja þetta frv.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson hefur lýst því yfir í ræðustól, sem er ábyggilega alveg satt og rétt hjá honum, að það geti kostað 70 þús. kr. t. d. tannréttingar unglinga sem verið er að draga úr núna að almannatryggingar greiði. Það munaði miklu fyrir fjölskyldur ef þær mundu t. d. fá einhvern skattafslátt vegna svo mikilla útgjalda. Þess vegna lýsi ég furðu minni á afstöðu hv. þm. Svavars Gestssonar og Guðmundar Einarssonar. Þeir segja að vísu að þeir ætli að taka þátt f atkvgr. Þó nú væri að þeir tækju þátt f atkvgr. Ég veit ekki hvað það þýðir. Hvað þýðir það hv. þm.?

Ég tel líka að það hafi verið nokkuð ljóst að þetta frv. um skattafslátt, sem var hér til afgreiðslu á síðasta þingi og var mælt með úr n., hefði getað orðið að lögum þá. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir vann ötullega að því að það mál kæmi aftur inn í þingið og þar var mælt með því af öllum nm. að frv. mundi ná fram að ganga. Ef hv. ráðh. hefði ekki komið með sínar yfirlýsingar um breytingu á reglugerð er ég sannfærð um að frv. hefði orðið að lögum á síðasta þingi. Þeim mun meiri ástæða væri nú fyrir hv. þm. Svavar Gestsson að styðja þetta frv. Ég teldi því að hann væri maður að meiri ef hann stæði með þessu frv. í stað þess að vera að flytja núna frv. sem hann veit að nær ekki fram að ganga og ég vil leyfa mér að líta svo á að sé eingöngu flutt til að sýnast.

Ég vænti þess, herra forseti, að þm. hafi dug í sér til að fella till. meiri hl. um að vísa málinu til ríkisstj., eins og meiri hl. hefur hér lagt til.

Ég vil í lokin, herra forseti, fá að vitna til orða hv. þm. Péturs Sigurðssonar, ef sjálfstæðismenn treysta ekki orðum mínum um að rétt og eðlilegt sé að fara þá leið sem hér er lögð til. Á næstsíðasta Alþingi, þegar þetta mál var til umræðu, sagði hv. þm. Pétur Sigurðsson eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég vil nota tækifærið til að lýsa í örfáum orðum ánægju minni með að þetta frv.“, það var um almannatryggingar, „skuti vera komið hér fram og því skuli vera vel tekið af hæstv. heilbrmrh. En ég vil þó sérstaklega fagna því að hann skuli hafa lýst því hér yfir eða skýrt frá því að mál, sem ég hef nokkrum sinnum á liðnum árum borið fram við aðila, m. a. einu sinni í sambandi við lausn kjaradeilu, um skattafslátt vegna tannviðgerða, skuli nú vera komið á þann rekspöl að það sé í alvarlegri athugun hjá heilbrmrn. hvort hægt sé að fara þessa leið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar — hef reyndar í samræmi við þá skoðun mína flutt þáltill. í Sþ. að skattaafsláttarleið sé fær og geti orðið til bóta og til úrlausnar á ýmsum vandamálum sé hún farin. Í sambandi við tannviðgerðir mundi þetta að sjálfsögðu hafa tvöfalda þýðingu: Annars vegar að lækka kostnað þeirra sem í hlut eiga, og mætti þá gjarnan miða þennan afslátt við eitthvert ákveðið tekjumark, hins vegar væri þetta trygging fyrir opinbera aðila að rétt væri talið fram, sem ég er í sjálfu sér ekki að tortryggja, heldur mundi það veita þeim visst öryggi sem hafa verið bornir sökum um að ástæða væri til slíkrar tortryggni“, sagði hv. þm. Pétur Sigurðsson þar sem hann mælti með þessari leið um skattafsláttinn.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. frekar. Ég tel, herra forseti, að það sé ekki síst ástæða til þess að samþykkja þá leið nú sem hér er lögð til þegar fyrir liggur að ríkisstj. hefur dregið töluvert úr þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði unglinga. Ég tel að með því sé reynt að létta, þó í litlum mæli sé, af fólki sem hefur þungar fjárhagslegar byrðar vegna mikilla útgjalda vegna tannlækninga, og þó ég styðji vissulega þá leið að auka þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði, eins og ég hef sýnt með því að leggja a. m. k. tvívegis fram frv. þar að lútandi, tel ég vera raunhæft mat í stöðunni að leggja þessa leið til núna og að þetta sé það skref sem við eigum að stiga núna í þessu efni. Fari svo að það verði samþykkt lög um að auka þátttöku almannatrygginga í tannlæknakostnaði er auðvitað alltaf hægt að afnema þessi lög, þau gætu þá aðeins staðið tímabundið. Ég vil líka benda á að í 66. gr., þar sem lagt er til að þetta bætist við, er bæði um að ræða að það er farin sú leið að veita fólki skattaafslátt ef gjaldþol skerðist verulega og þetta fólk fær líka greiðslu gegnum almannatryggingar. Auðvitað er því hægt að fara báðar þessar leiðir. En ég ítreka það, herra forseti, að ég tel þetta raunhæft mat í þessari stöðu og vil í lokin ítreka aftur þá spurningu mína til hæstv. fjmrh. hvort hann hafi nokkuð breytt um skoðun í þessu efni og hvort ég megi ekki vænta stuðnings hans í því að þetta mál nái fram að ganga.