10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

Umræða utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það fór nú svo fyrir hæstv. sjútvrh. að honum tókst í máli sínu áðan að opna aðeins hug sinn og hefur kannske mælt þar fyrir fleiri í ríkisstj., sem ætla að fara að draga fram upplýsingar úr rétt rúmlega viku gamalli skýrslu um ástand og horfur í þorskveiðum landsmanna sem réttlætingu fyrir þeirri árás á lífskjör manna í landinu sem þeir stóðu fyrir við myndun stjórnarinnar s.l. vor. Þetta er málflutningur sem ég hafði vænst að hæstv. ráðh. færi ekki að hafa uppi hér á hv. Alþingi á sama tíma og hann er að mælast til þess að leitað verði samstöðu í þeim horfum sem við blasa, ef við tökum mark á þeim spásögnum sem fyrir liggja. Og ég verð að lýsa yfir vonbrigðum með að hæstv. ráðh. skuli mæla þessi orð hér nú. En ástæðan er e.t.v. öðrum þræði sú, að þessi hæstv. ráðh. og aðrir ráðh. í ríkisstj. hafa í dag beygt sig svolítið og gefið hér yfirlýsingar um að létta fjötrum af verkalýðssamtökunum í landinu — fjötrum sem þeir smeygðu á fjöldasamtök í landinu á s.l. vori og ætluðu sér, ef gengið hefðu eftir áætlanir Framsfl. um það, að binda þá fjötra um tveggja ára tímabil. Það varð nú ekki. Þessir fjötrar eru fallnir um leið og gengið hefur verið frá lögum hér, samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj. Ég hef trú á að samtök almennings noti þann rétt. sem þau endurheimta, til að taka á málum af ábyrgð, en það greiðir ekki fyrir meðferð mála ef menn ætla að fara að beita bolabrögðum af því tagi sem hæstv. ráðh. kom hér með til réttlætingar gerða og ákvarðana sem teknar voru við allt aðrar aðstæður en nú liggja fyrir og hafa verið tilefni þessara umr. hér á hv. Alþingi í dag.