21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6509 í B-deild Alþingistíðinda. (6022)

101. mál, frestun byggingaframkvæmda við Seðlabanka Íslands

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 814 um þetta frv. Það nál. er frá minni hl. fjh.- og viðskn. og hljóðar svo:

N. hefur athugað frv. og leggur minni hl. til að það verði samþ.

Guðrún Agnarsdóttir tók þátt í umfjöllun málsins í n. og er samþykk þessari afstöðu.“

Undir þetta rita Guðmundur Einarsson, Kjartan Jóhannsson og Svavar Gestsson.

Við þetta vil ég einungis bæta því að ríkisstj. hefur gert almenningi að herða sultarólina. Hún hefur gert almenningi að taka skerðingu á lífskjörum. Hún hefur gert almenningi að þola skattahækkanir. En á sama tíma hefur fólk haft fyrir augunum hvernig t. d. þessi stórbygging hefur risið algerlega að óþörfu. Þetta frv. er vitaskuld flutt í þeim anda að hér verði tekið af skarið og framkvæmdirnar verði stöðvaðar.

Það verður að teljast hámark niðurlægingarinnar að meiri hl. n. skuli leggja til að málinu sé vísað til ríkisstj. vegna þess að það er augljóst að ef ríkisstj. hefði tekið á þessu máli hefði það ekki þurft að koma til kasta Alþingis. Þá hefði ríkisstj. vitaskuld stöðvað framkvæmdirnar. Frv. er flutt vegna þess að ríkisstj. hefur ekki gert það. Frv. er flutt vegna þess að ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að taka þessa ákvörðun og þá er einmitt rétt að þingið geri það.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en eins og ég sagði í upphafi: Minni hl. n., Guðmundur Einarsson, sá sem hér stendur og Svavar Gestsson, leggur til að þetta frv. verði samþykkt.