21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6515 í B-deild Alþingistíðinda. (6040)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1086 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Nefndin hefur athugað frv. Þetta mál er í tengslum við 305. mál. Nefndin kvaddi á sinn fund Árna Kolbeinsson í fjmrn., Sigurð Hafstein frá Sambandi sparisjóða, Pál Ólafsson frá Seðlabankanum og Jónas Haralz.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kemur frá Ed.

Undir nál. meiri hl. rita Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Halldór Blöndal.

Á þskj. 859 er frv. eins og það kom frá Ed. Það tók allnokkrum breytingum í meðferð hv. Ed. og að mínum dómi mjög til batnaðar. Það er sem sagt þskj. 859, sem menn þurfa að hafa í huga, þegar þeir taka afstöðu til málsins. Það er frv. eins og það lítur út á því þskj. sem við leggjum til að verði samþykkt.