21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6516 í B-deild Alþingistíðinda. (6042)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við frv. þetta miðað við að það verði samþykkt eins og hér hefur verið lagt til af meiri hl. hv. n. Brtt. mín er svohljóðandi:

„Á eftir 2. gr. komi ný grein sem verður 3. gr. og orðist þannig:

Í stað þeirrar lækkunar á sköttum innlánsstofnana, sem verður með samþykkt laga þessara, skal koma sérstakt og jafnhátt gjald á þær innlánsstofnanir sem skattalækkunar njóta skv. lögum þessum. Reiknast gjald þetta skv. þeim reglum sem áður giltu um skattlagningu þeirra til ríkissjóðs. Skal gjaldið halda verðgildi sínu og breytast í hlutfalli við breytingu á byggingarvísitölu frá 1. jan. 1984 að telja.

Tekjum af gjaldinu skal varið til dagvistarstofnana á árinu 1984 og framvegis og má það ekki verða til rýrnunar af öðrum fjárveitingum til dagvistarmála. Skal tekjum af gjaldinu úthlutað í réttu hlutfalli við fjárveitingu til einstakra stofnana í fjárlögum hverju sinni.“

Þetta er brtt. mín. Ég hef þegar rökstutt hana í ræðu hér þegar ég mælti fyrir frv., en hún gerir ráð fyrir því að gjaldi, er svari til þess tekjutaps sem ríkissjóður verður fyrir við samþykkt frv. þessa, verði varið til dagvistarstofnana.