21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6519 í B-deild Alþingistíðinda. (6050)

281. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um útflutningsgjald af grásleppuafurðum sem afgreitt hefur verið af Ed. Frv. þetta er mjög einfalt og er í tveimur greinum.

1. gr. fjallar um það að samræma útflutningsgjald annars vegar af óunnum útfluttum grásleppuhrognum og hins vegar af hrognum sem unnin eru í lagmetisiðjum hér innanlands.

2. gr. er varðandi allverulega skuld, sem var um s. l. áramót 3.3 millj. kr., sem hafði safnast upp vegna umsvifa Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda á undanförnum árum. Samstaða er um það í þeirra röð að jafna þessari skuld út með þeim hætti að hluti útflutningsgjalds renni til greiðslu á skuldinni þar til hún er greidd.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., en ég mæli hér fyrir frv. þessu vegna þess að ég veit að hv. sjútvn. er reiðubúin til að fjalla um mál þetta með skjótum hætti. Vænti ég þess að um það geti orðið góð samstaða.