21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6524 í B-deild Alþingistíðinda. (6059)

252. mál, fjarskipti

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að gera aðeins grein fyrir minni afstöðu til þessa máls fremur en gera það við atkvgr. Hún er í stuttu máli sú, að ég mun styðja þetta frv. Ég tel að það horfi til bóta og í því séu ákvæði sem eðlilegt er að nái fram að ganga, varðandi vissa rýmkun frá því sem verið hefur, frá gildandi lögum varðandi verksvið Pósts og síma. Eins og hér hefur komið fram er notendabúnaður tekinn undan og viss rýmkun í sambandi við verksvið manna sem að þessum málum vinna. Ég tel það líka skipta miklu að sú breyting, sem í Ed. varð gerð í sambandi við fjarskiptavirki, úr því hefur verið skorið af nefnd að hún taki ekki til kapalkerfa. Það er þá mál sem bíður síðari tíma, útvarpslagasetningar væntanlega, þar sem um það verður fjallað og Alþingi gefst kostur á að skera úr um það.

Vissulega er hér um allflókið mál að ræða tæknilega og eflaust einnig deildar meiningar um pólitíska niðurstöðu hjá hv. þm. En ég tel út af fyrir sig langt frá því óeðlilegt að að þessu máli komi á undirbúningsstigi aðilar sem vel þekkja til í hinum flókna heimi fjarskiptanna. Það er ekki aðeins að við séum bundnir þar af eigin lögum heldur gilda þar alþjóðlegar reglur og samþykktir sem við hljótum að taka tillit til. Þetta vildi ég að fram kæmi og það að ég tel mig geta stutt þetta frv. eins og það nú er með allgóðri samvisku.