21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6524 í B-deild Alþingistíðinda. (6061)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 28/1976, um Búnaðarbanka Íslands. Stefán Valgeirsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, Friðjón Þórðarson bankaráðsmaður, Helgi Seljan bankaráðsmaður, Stefán Pálsson bankastjóri, Jón Adolf Guðjónsson bankastjóri, Leifur Kr. Jóhannesson framkvæmdastjóri Stofnlánadeildar, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, komu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir viðhorfum sínum.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt. Undir nál. rita allir nm. fyrirvaralaust nema hv. þm. Páll Pétursson, sem ritar undir nál. með fyrirvara.

Þau rök sem hv. fjh.- og viðskn. hefur í huga varðandi þetta mál koma best fram í ummælum forsrh. Steingríms Hermannssonar í grg. með frv. þessu. En þar segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Kostir þess að allir viðskiptabankarnir heyri undir sama ráðh. eru augljósir. Reyndar má segja að önnur skipan mála sé ekki eðlileg. Séu bankarnir undir sama ráðh. tryggir það samræmdari afstöðu stjórnvalda gagnvart bönkunum en verið hefur. Núverandi skipan mála er t. d. af ýmsum talin eiga sinn þátt í örri fjölgun bankaútibúa á undanförnum árum. Þá er þessi breyting til þess fallin að ýta undir þau viðhorf að hver viðskiptabanki skuli sinna atvinnulífinu í heild en sé ekki bundinn að verulegu leyti af þjónustu við tiltekna atvinnugrein, atvinnurekstur eða hagsmunahóp.“

Í grg. er einnig vitnað til bókunar bankamálanefndarinnar, sem hefur verið að störfum nú um nokkurra ára skeið, en þar segir að meiri hl. nefndarinnar sé þeirrar skoðunar að það mundi flýta sameiningu og fækkun viðskiptabanka ef viðskrh. hefði forgöngu um tæknilega útfærslu sameiningar sem leggja mætti fyrir Alþingi í frv.-formi á næsta þingi. Frv. þetta og frv. um Iðnaðarbanka Íslands tengjast því máli. Þá er rétt að það komi fram að Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem starfar á grundvelli laga nr. 45/1971, lýtur nú yfirstjórn landbrh. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir breytingum í þeim efnum. Á hinn bóginn mun veðdeild Búnaðarbankans, sem starfar skv. lögum nr. 34/1979, falla undir yfirstjórn þess ráðh. sem fer með bankamál eins og aðrar veðdeildir. Síðan segir í lok grg.:

„Frv. er flutt af forsrh. þar sem það varðar lagaákvæði um starfssvið tveggja ráðh. og er forsenda breytinga á reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969, sem gera verður til samræmis við efni frv.“

Ég hygg að það sé tæplega hægt að orða rökstuðninginn öllu skýrar en gert er í þessari grg. forsrh. með frv. Undir þann rökstuðning tek ég í einu og öllu. En ég vil að lokum láta það koma fram, herra forseti, að minn flokkur, Alþb., hefur mjög lengi verið þeirrar skoðunar að það að sameina alla bankana og yfirstjórn þeirra í einu rn. væri mikilvæg forsenda þess að unnt væri að stíga frekari skref á þeirri braut að samstilla bankakerfið í landinu betur en gert hefur verið til þessa — og að tryggja bætta hagkvæmni þess frá því sem verið hefur.

Herra forseti. Ég hef ekki neinu við þetta að bæta en nefndin leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed.