21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6525 í B-deild Alþingistíðinda. (6062)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Mér er að vísu ljóst að hér er meiri hl. fyrir því að þetta mál nái fram að ganga, en vegna þess sem fram mun koma í þessum málum síðar vil ég ekki láta hjá líða að ræða þessi mál nokkuð. Mér eru það hins vegar vonbrigði að flm., hæstv. forsrh., er ekki hér viðstaddur þessa umr. því að ég kemst ekki hjá því að gagnrýna mjög þau vinnubrögð sem höfð hafa verið í frammi í þessu máli.

Í fyrsta lagi vil ég mjög gagnrýna það að ekki skyldi orðið við því að senda þetta mál til umsagnar eins og allt er í pottinn búið. Við 1. umr. málsins las ég upp samþykkt sem gerð var í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, till. sem formaður Stéttarsambands bænda flutti og vék að Stofnlánadeild, með ósk um að þetta mál yrði sent til umsagnar bæði bændasamtökunum, Búnaðarfélagi Íslands og Stofnlánadeild. Þetta var ekki gert. Hins vegar er það rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að aðilar frá þessum stofnunum voru boðaðir til n. kl. hálftvö og þá var náttúrlega lítill tími til að ræða þessi mál. Það var hálftími eða tæplega það sem þessi hópur fékk til þess að ræða við n. um þetta mál.

Frsm. n. vitnaði í grg. með þessu frv. og mér skildist hann telja að þar komi fram meginrök í þessu máli. Ég held að það væri hægt að hrekja hvert atriði í þessari grg. Í fyrsta lagi að því er Búnaðarbankann varðar hafa útibú aldrei verið stofnuð úti á landi nema útibúið á Akureyri öðruvísi en yfirtekið hafi verið annaðhvort sparisjóður eða innlánsstofnun um leið og bankinn hefur sett sig niður á viðkomandi stöðum. Það er aðeins útibúið á Akureyri sem var stofnað sama árið og Búnaðarbankinn byrjaði á starfsemi sinni í Reykjavík.

Það er talað um það í grg. að þetta sé gert til þess að bankarnir sinni atvinnurekstrinum alhliða og mætti draga þá ályktun af þessum ummætum að Búnaðarbankinn gerði það ekki. En ef þetta er athugað kemur það t. d. í ljós í sambandi við Búnaðarbankann, eins og greinilega kom fram hjá Jóni Adólf bankastjóra á þessum viðræðufundi, að Búnaðarbankinn er alhliða banki. Hann tekur t. d. þátt í starfsemi í sambandi við iðnaðinn svipað og Iðnaðarbankinn. Hann er með yfir 30% í sambandi við landbúnað. Hann er að vísu með minna í ýmsu öðru, t. d. sjávarútvegi, en hann sinnir sjávarútvegi alveg á þeim stöðum þar sem hann hefur útibú.

Benda má á það að hinir ríkisbankarnir eru með upp undir 50% t. d. í sjávarútvegi. Verslunarbankinn er með yfir 40% í verslun og þannig mætti lengi telja. Ef þetta er skoðað alveg niður í kjölinn, þá kemur í ljós að það hallar a. m. k. ekki á Búnaðarbankann að því leyti til að sinna öðrum atvinnurekstri en landbúnaði.

Það hefði verið fróðlegt að fá það upplýst, — en maður gerir ekki ráð fyrir að svör fáist við neinu hér, menn eru fyrir fram ákveðnir í sinni afstöðu og það er víst ekki siður að gefa svör við spurningum, allra síst þegar langt er liðið á nóttu — sem ég spurði að við 1. umr. um þetta mál, hvað bankamálanefndin hefði athugað í sambandi við reksturskostnað bankanna. Í grg. kemur fram að það þurfi að stækka bankana til þess að það komi rekstrarlega betur út og talið að það mundi vera hægt að spara fé að þessu leyti. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið skoðað frekar en annað. Fyrir nokkrum árum var þetta athugað og þá kom í ljós að stærsti bankinn, Landsbankinn, var með tiltölulega langsamlega mestan reksturskostnað. Og þó að það sé ekki gott að bera það saman við reksturskostnað Búnaðarbankans t. d. af því að hann var þá ekki með gjaldeyrisviðskipti, þá benti allt til þess að Útvegsbankinn væri hagstæðari stærð rekstrarlega en Landsbankinn. Ég held því að sá þáttur sé ekki kannaður, það séu fullyrðingar. Það þarf að breyta einhverju og þess vegna er bara breytt án þess að menn geri sér grein fyrir til hvers sú breyting muni leiða.

En aðalmálið í þessu er það, að ekkert hefur verið athugað hvernig eigi að koma málum fyrir t. d. í Búnaðarbankanum. Menn hafa kannske ekki athugað það að Búnaðarbankinn er stofnaður af sjóðum landbúnaðarins. Þeir voru til löngu fyrir 1930. Hann er stofnaður af sjóðum landbúnaðarins. Hvaða hlutdeild á hann t. d. í fasteignum bankans? Hvernig verður sá rekstur ef á að skilja þarna á milli veðdeildarinnar annars vegar og Stofnlánadeildarinnar sem eru þó reknar saman? Stofnlánadeildin er ein deild í bankanum, hefur verið það frá upphafi. Hún hét að vísu annað, fyrst framan af árum Ræktunarsjóður, Nýbýlasjóður, Byggingarsjóður og fleiri nöfnum. En það breytir ekki málinu. Þetta er það sama og var þó að búið sé að breyta um nafn.

Það má segja að þetta sé liður í þeirri viðleitni að þrengja að landbúnaðinum, gera honum erfiðara fyrir. Ég veit ekki hvað það þýðir hér í þessari grg. þegar talað er um að það sé nauðsynlegt að sameina banka. Það voru lengi uppi áform um að sameina Útvegsbankann og Búnaðarbankann. Það kemur ekki í ljós í þessari grg. hvað er átt við með því að það þurfi að stefna að því að sameina bankana. En miðað við sögu þessa máls, miðað við það sem áður hefur skeð gæti mönnum dottið í hug að það sé sama hugmundin sem uppi er eins og var fyrir nokkrum árum.

Það rignir hér yfir tillögum alls konar, alls konar málum sem eru þannig að þau þrengja og rýra hlut landbúnaðarins. Það stendur ekki á því. Það stendur meira á því að gera eitthvað í sambandi við þá stöðu sem strjálbýlið og raunar landsbyggðin stendur nú í. Það stendur meira á því. Fyrir nokkrum árum, 1979, var t. d. breytt jarðræktarlögum. Þeim var breytt á þann veg að gerð var fimm ára breyting þannig að það átti að minnka styrkina út á ýmsar framkvæmdir í landbúnaði. Þetta gilti í fimm ár. Þetta fé átti að nota til að gera framleiðslubreytingu vegna þess að þá var sýnt að það þurfti að draga úr hinni hefðbundnu framleiðslu. Hvernig hefur verið staðið við þetta? Mér er þetta kannske minnisstætt af því að ég átti þessa hugmynd á þeim tíma að fara þannig að. Þetta var að verulegu leyti svikið. Það fékkst ekki það fjármagn sem var búið að lofa. Þessi framleiðslubreyting hefur að litlu leyti átt sér stað. Þannig væri hægt að rekja hvert málið eftir annað. Og nú er þannig komið fyrir ýmsum byggðum að ekki blasir annað við en menn verði að ganga frá jörðum sínum og það í stórum stíl.

Það þarf enginn að halda að það sé að ástæðulausu að 800 bændur hafa beðið um skuldbreytingu. Það þarf enginn að halda að það sé að ástæðulausu að sumir bændur eru ekki búnir að fá áburð þegar komið er langt fram yfir þann tíma, a. m. k. sums staðar, sem þyrfti að vera búið að bera á í svona árferði. En skilningurinn hér á hv. Alþingi er sá, að það rignir yfir þáltill. frá flestöllum flokkum, sem mundu, ef samþykktar væru, rýra hlut landsbyggðarinnar. Ég gæti komið með sýnishorn af þessu frá öllum flokkunum.

Þegar Búnaðarbankinn var stofnaður fyrir 54 árum var það Tryggvi Þórhallsson sem flutti það mál. Þá stóð upp stjórnarandstaðan hér á Alþingi til að þakka fyrir það frv. Það var tekið eftir því vegna þess að það hafði ekki komið fyrir að stjórnarandstaðan þakkaði fyrir flutning á frv. Þá var skilningurinn fyrir landbúnaði á þennan veg. Það var einn sem greiddi atkv. á móti frv. 1929. En nú sameinast flokkarnir um það að minnka áhrif landbúnaðarins, brytja þetta niður, leggja grundvöll að því að gera þarna breytingu áður en búið er að gera það upp við sig og athuga hvernig á að fara að því, hvernig á að standa að því. Það þarf að flýta sér svo mikið. Og það er vegna þess að það stendur í stjórnarsáttmálanum, að sagt er. Það er eiginlega hliðstætt því sem gerðist hér um nóttina þegar verið var að samþykkja kosningalögin. Þá þurfti að standa við það loforð sem flokkarnir voru búnir að gefa hver öðrum, þó allir væru óánægðir. En það þurfti ekki að standa við hitt fyrirheitið, sem var búið að gefa strjálbýlinu eða landsbyggðinni yfirleitt.

Nei, það er orðin breyting á. Og því miður eru fulltrúar landsbyggðarinnar hættir að standa uppréttir margir hverjir. Það er hvorki meira né minna. Sú breyting sem er verið að gera nú á kosningalögum og öðrum hlýtur að leiða til þess að línurnar skerpast á milli strjálbýlis eða landsbyggðarinnar og þéttbýlisins, hlýtur að gera það, þó að ráðherrar og ýmsir þm. telji, þegar þeir eru komnir út á land, nauðsynlegt að ekki séu skerptar þessar línur. Það er eins og þeir óttist það að svo muni verða, en það liggur í augum uppi að þetta hlýtur að verða, a. m. k. ef ekki verður staðið við þau fyrirheit sem búið er að gefa í sambandi við þá breytingu.

Ég kem inn á þessi mál hér vegna þess að þetta frv., sem er ekki stórt í sniðum, það er ein grein, það er aðeins um að yfirstjórn bankans sé í höndum ráðh. þess sem fer með bankamál og það er víðs fjarri að ég beri nokkurn kvíðboga fyrir því að sá sem er bankamálaráðh. nú muni ekki halda á þessum málum af réttlæti, en enginn okkar sem hér erum, verður lengi í þessum sölum eða í ráðherrastóli og það er verið að stíga hér eitt af þessum skrefum sem ekki verða stigin til baka. Þetta er enn ein fjöðrin sem verið er að taka af landsbyggðinni. Og þetta yrði líka til þess, og kannske ekki síst það, að landsbyggðarfólkið missir vonina um umbætur, um breytingar, um réttlæti, vegna þess að það er á einn veg sem tillögur og frv. koma hér fram. Það er um að rýra áhrif landsbyggðarinnar. Það er það sem verið er að gera.

Það er kannske fróðlegt fyrir hv. þm. að heyra eitthvað úr sögu Búnaðarbankans á þeim árum sem hann hefur starfað, ekki síst hvernig það gerðist að hann tók til starfa. Ég er hér með fyrir framan mig greinargerð sem tekin var saman af Hauki Þorleifssyni þegar bankinn var 30 ára og mun hafa verið birt að einhverju leyti á þeim tíma til að minnast 30 ára afmælis Búnaðarbankans.

Fyrst segir frá því að Ræktunarsjóður Íslands var stofnaður með lögum frá 2. mars 1900 af andvirði seldra þjóðjarða frá árslokum 1883 til ársloka 1898. Höfuðstólnum átti að verja til lánveitinga, til jarðabóta og annarra framkvæmda er að jarðrækt lúta. Vöxtunum mátti verja til verðlauna fyrir frábæran dugnað í jarðabótum. Fram til þess tíma hafði ekkert verið aðhafst í ræktunarmálum landsins. Almenningur var seinn að taka við sér og sinna jarðrækt að nokkru ráði þrátt fyrir uppörvun og eldlegan áhuga aldamótamannanna svonefndu og fyrirheit um lán til jarðabóta og nokkur verðlaun fyrir sýndan dugnað.

Ræktunarsjóður hafði mjög litlu fjármagni úr að spila fyrstu árin, enda þótt sumir þm. létu í umr. í ljósi ótta um að sjóðurinn mundi vaxa svo ört að hann yrði fljótt óþarflega stór og vildu setja honum vaxtarskorður. Þrátt fyrir lítils háttar breytingar á lögunum verður lítil breyting á starfsemi sjóðsins vegna fjárskorts. Ótti þm. um risavöxt sjóðsins reyndist því miður ástæðulaus því oftast hefur hann verið tómur þegar átti að fara að lána úr honum.

Með lögum um Ræktunarsjóð frá 1925 verður breyting á starfsgetu sjóðsins, enda er sjóðurinn sem stofnaður var 1900 oftast nefndur gamli ræktunarsjóðurinn en núverandi ræktunarsjóður er talinn byrja 1925. Skv. þeim lögum er höfuðstóll sjóðsins andvirði seldra þjóðjarða frá árslokum 1983, tekjur af þjóðjörðum frá fardögum 1925, 250 þús. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði, varasjóður veðdeildar Landsbankans, þegar lokið er skuldbindingum þess flokks, sá hluti Viðlagasjóðs Íslands sem er eign veðdeildar Búnaðarbankans, og loks 1 millj. kr. sem ríkissjóður leggur fram til frekari aukningar á höfuðstól sjóðsins.

Enn fremur var í þeim lögum gert ráð fyrir fjölþættari lánastarfsemi. Skv. þeim mátti lána til beinna ræktunarframkvæmda, til girðinga um tún og engi, til vega, til heimilisnotkunar, til vatnsveitna í bæjarhús og peningshús, til rafstöðva til heimilisnotkunar og til íbúðarhúsa og alls konar útihúsa. Með þessum lögum var Ræktunarsjóður gerður vel starfhæfur á þeirra tíma mælikvarða, enda taka bændur í flestum sveitum nú til við ræktun túna, áveitur á engjum, girðingar um tún og engjar, húsabætur o. s. frv. Hámark lána úr sjóðnum var ákveðið 25 þús. kr. og vextir 6%. Eftir að Byggingar- og landnámssjóður tók til starfa 1928 var lánað úr honum út á íbúðarhús úr steini, en út á timburhús úr Ræktunarsjóði fram til 1947. Eftir þann tíma lánar Byggingarsjóður einnig út á timburhús til 25 ára.

Lögum um Ræktunarsjóð var enn breytt árið 1935. Var aðalbreyting fólgin í heimild útgáfu bankavaxtabréfa allt að sexfaldri upphæð á við höfuðstól sjóðsins. Nokkurs fjár var aflað með sölu þeirra jarðræktarbréfa, bæði innanlands og þó einkum í Danmörku. Samtals nam útgáfa jarðræktarbréfa 4.1 millj. kr. Voru þau öll innleyst fyrir árslok 1945.

Enn var lögunum breytt 1947. Þá var gert ráð fyrir 1/2 millj. kr. framlagi árlega úr ríkissjóði og að ríkissjóður lánaði sjóðnum nauðsynlega fjárhæð vegna starfsemi hans, þó ekki yfir 10 millj. kr. gegn 1.5% vöxtum til 20 ára. Ríkisstjórnir hafa ekki enn notað þessa heimild en útvegað sjóðnum nauðsynlegt starfsfé á annan hátt, m. a. með lántöku erlendis, t. d. 1.5 millj. 1947.

Með þessum lögum er ekki gert ráð fyrir að Ræktunarsjóður láni til íbúðarhúsa. Hins vegar er starfssvið hans aukið með því að nú má einnig lána til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, þótt ekki sé á sveitabýlum, eins og mjólkurvinnslustöðva, kjötfrystihúsa, ullar- og skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva, landbúnaðarverkstæða, íbúðarhúsa og verkstæða fyrir iðnaðarmenn í sveitum, rafstöðva, svo og til bústofnsauka og til kaupa á vélum sem notaðar eru við landbúnað. Þrátt fyrir þessa heimild hefur aldrei verið lánað til bústofnsauka sökum fjárskorts sjóðsins og ýmissa annmarka við framkvæmd slíkra lánveitinga. Enn fremur hefur lítið verið lánað einstaklingum til vélakaupa í seinni tíð. Útlánavextir voru 2.5%, lánstími 5–25 ár eftir varanleika framkvæmda.

Gildandi lög um Ræktunarsjóð eru frá 28. maí 1957 og eru um flest samhljóða lögunum frá 1947 nema hvað árlegt ríkisframlag er hækkað úr 1/2 millj. kr. upp í 1.6 millj. kr. og útlánsvextir hækkaðir úr 2.5% upp í 4%. Á árinu 1960 voru útlánsvextir hækkaðir skv. heimild nr. 1 frá 1960 upp í 6.5% og hámarkslánstími færður niður í 15 ár.

Útlán Ræktunarsjóðs hafa farið ört vaxandi frá 1947 og hafa verið hin síðari ár um og yfir 40 millj. kr. til 800 bænda. Síðustu árin voru lánin 864, samtals 49.6 millj. kr., þar af 10 millj. til vinnslustöðva og viðgerðarverkstæða. Samtals hefur Ræktunarsjóður lánað frá 1925 til ársloka 1960 11 679 lán að fjárhæð 331 millj. kr., þar af til vinnslustöðva og viðgerðarverkstæða 32 millj.

Starfsfjár hefur sjóðnum verið aflað að langmestu leyti með lántökum innanlands og utan. Eins og að framan segir var fyrst framan af og allt fram til ársins 1945 nokkurs fjár aflað með sölu bankavaxtabréfa bæði innanlands og utan, en síðan hefur verið talið tilgangslaust að bjóða út jarðræktarbréf til almennings. Ríkissjóður hefur lánað sjóðnum á árunum 1948–1960 samtals 68 millj. kr. Mestan hluta þessara lána, frá 1953, 1955 og 1957, var breytt í óafturkræft framlag svo að eftir stendur sem skuld við ríkissjóð aðeins 1300 millj. kr. lán veitt 1960.

Á árunum 1952–1960 tók ríkissjóður lán erlendis handa sjóðnum samtals í ísl. kr. skv. því gengi sem gilti þegar lánin voru tekin 109 millj. kr. Eftirstöðvar eru nú rétt yfir 200 millj. kr. Skuldirnar hækkuðu við gengisbreytingar um samtals 105 millj. kr. Auk þess hefur Ræktunarsjóður áður greitt í yfirfærslugjald af ársgjöldum á árunum 1958 og 1959 3.4 millj. kr.

Úr Mótvirðissjóði hefur Ræktunarsjóður fengið samtals um 150 millj. kr. Þessi lán eru til 20 ára, en óhagstæð vegna þess að þau eru með 6.5% ársvöxtum meðan útlán sjóðsins báru 4%, nú 8% þegar sjóðurinn lánar með 6.5% vöxtum. Áður en gengislækkanirnar komu til átti sjóðurinn skuldlausa eign er nam 59 millj. kr. en eftir gengislækkunina síðustu á hann um 50 millj. minna en ekki neitt og rekstrarhalli óhjákvæmilegur vegna vaxtamunar.

Byggingar- og landnámssjóður eins og hann hét áður, var stofnaður með lögum frá 7. maí 1928. Var hlutverk hans að lána til endurhýsingar á gömlum jörðum og til hýsingar á nýbýlum. Endurhýsingarlánin voru 4% lán til 42 ára, húsalán til nýbýla á ræktuðu landi 2.5% til 50 ára og vaxtalaus húsalán til nýbýla á óræktuðu landi. Árið 1936 var stofnaður sérstakur nýbýlasjóður en seinna sameinaður aftur Byggingarsjóði.

Gildandi lög um Byggingarsjóð eru frá 28. maí 1957, í VII. kafla laga um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Árlegt tillag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs fram til 1947 var 200 þús. kr. upp í 1.1 millj., en frá 1947 2.5 millj. Enn fremur hefur sjóðnum verið séð fyrir starfsfé með lántökum, bæði erlendis og innanlands. Ríkissjóður hefur veitt sjóðnum samtals um 40 millj. kr. lán, þar af 20 millj. ógreitt um síðustu áramót, afgangurinn var að mestu eftirgefinn á sömu árum og eftirgjafir til Ræktunarsjóðs fóru fram. Úr Mótvirðissjóði fékk hann 3 millj., úr veðdeild Landsbankans á vegum Húsnæðismálasjóðs 36 millj. kr. Af erlendum lánum fékk hann árlega um skeið í íslenskum krónum 15.5 millj. sem nú eru að eftirstöðvum þrátt fyrir nokkrar afborganir rúmlega 35 millj. kr. Gengislækkanir hafa hækkað skuldina um ca. 22.7 millj. kr. auk yfirfærslugjalds 1958 og 1959, 1.2 millj. kr. Höfuðstóll sjóðsins hefur því minnkað allverulega við þessar aðgerðir en er þó enn um 19 millj. kr.

Skv. gildandi lögum er heimilt að lána allt að 75% af kostnaðarverði húsa. Í framkvæmd hefur það verið svo, að sett hefur verið hámark í krónutölu út á hvert hús. Er hámarkið um 90 þús. kr. og 60% hærra út á tvíbýlishús, þ. e. 135 þús. kr. Fyrst voru vextir eins og áður segir 4%, árgjald 5% af upphaflegu upphæðinni.

Síðan var vöxtunum breytt í 2%, en eru nú 6%. Lánstími hefur verið 25–42 ár eftir gerð húsanna og varanleika. Samtals hefur sjóðurinn lánað 124 millj. kr., langmest síðustu árin, til jafnaðar 10 millj. kr. á ári. Á síðasta ári voru lánaðar rúmar 13 millj. Árleg vaxtagjöld sjóðsins nema ca. 5.2 millj. en vaxtatekjur ca. 2.3 millj. svo að halli á vaxtareikningi verður ca. 2. millj. kr.

Veðdeild Búnaðarbankans er stofnuð með lögum um Búnaðarbanka 1929 og hófust lánveitingar úr henni 16. des. 1930. Starfsfé sitt fékk hún fyrst úr ríkissjóði gegn 6% bankavaxtabréfum. Voru samtals gefin út bréf fyrir 1.5 millj. kr., öll innieyst fyrir árslok 1944. Útlánsvextir 1. flokks deildarinnar voru 4.5%, svo að vaxtahalli var 1.5%, stöðugur rekstrarhalli greiddur úr Viðlagasjóði en Viðlagasjóður var afhentur veðdeild og Ræktunarsjóði til eignar. 2. flokkur var stofnaður 1946, 3. flokkur 1955, 4. flokkur 1960.

Á árunum 1952–1957 fékk veðdeildin 6 millj. kr. úr ríkissjóði sem breytt var í óafturkræft framlag. Auk þess fékk hún 5 millj. kr. lán úr Atvinnuleysistryggingasjóði, 7% lán til 8 ára, nú að eftirstöðvum 3 millj. 125 þús. kr. og eru vextir 5.5% og höfuðstóllinn vísitölutryggður.

Tilgangur deildarinnar er fyrst og fremst sá að hjálpa bændum til að kaupa jarðnæði og stofna bú. sýnilegar eignabreytingar á jörðum hafa verið 200–250 á ári undanfarið. Ef gert er ráð fyrir að a. m. k. 100 jarðakaupendur þurfi á aðstoð lánastofnana að halda, hver að meðaltali 100 þús. kr., sem er allt of lágt áætlað, þyrfti veðdeildin a. m. k. 10 millj. kr. árlega í reiðufé til að mæta þörfinni.

Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með lögum frá 14. júní 1929 og tók til starfa 1. júlí 1930. Þær tvær lánastofnanir sem fyrir voru, Ræktunarsjóður og Landnámssjóður, voru fengnar honum sem sérstakar deildir með sérfjárhag. Auk þess var með lögunum ráðgert að stofnaðar væru fjórar nýjar deildir, sparisjóður, rekstrarlánadeild, sem nú heitir sparisjóðsdeild og annast öll innlend bankaviðskipti og er tengiliður allra deildanna, veðdeild, bústofnslánadeild, lánadeild smábýla við kauptún og kaupstaði, annast reikningshald þeirra og afgreiðslu. Bústofnslánadeildin tók þó aldrei til starfa og er ekki nefnd í gildandi lögum. Hins vegar starfaði smábýladeild frá 14. des. 1942 til ársloka 1946, en þá var hún lögð niður og eignir hennar afhentar Byggingarsjóði. Búnaðarbankinn starfar því nú aðeins í fjórum deildum. Sparisjóðsdeildin hefur vaxið mjög mikið á seinni árum og starfrækir tvö útibú í Reykjavík og tvö utan Reykjavíkur, annað á Akureyri, stofnað 1930, og hitt á Egilsstöðum, stofnað á síðasta ári.

Þróun landbúnaðarins hefur verið mjög hagkvæm hér á landi fram á síðustu ár. Landnámsmennirnir fluttu með sér kvikfénað, sem þeir reyndu f fyrstu að láta ganga sjálfala, en reynslan kenndi þeim fljótt að nauðsynlegt var að ala önn fyrir honum á veturna að meira eða minna leyti með heyöflun á sumrin. Þeir reistu hús fyrir nautpening m. a. og einhver skýli fyrir sauðfé og báru skarn á hóla, þótt frumkvöðullinn hafi verið hæddur fyrir það, til þess að auka grasnytjar og kornrækt. Laukagarða er getið þótt slíkt hafi sennilega verið í smáum stíi. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Ég á langt eftir. (Forseti: Það er ósk forseta að hv. ræðumaður fresti ræðu sinni um stund. Við þurfum að afgreiða nokkur önnur mál.) Það er sjálfsagt.