21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6533 í B-deild Alþingistíðinda. (6066)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga. Samt er nú svo komið að Alþingi Íslendinga lætur sér sæma að taka á móti nál. frá n. þar sem hún beinlínis undirstrikar að hún hafi ekki haft tíma til að fjalla um þetta mál. Er þá svo komið fyrir okkur hér á Alþingi að við höfum ekki tíma til að fjalla um mál sjávarútvegsins? Er svo komið að það sé talið eðlilegt að standa þannig að lagasetningu sem varðar grunnatvinnuveg þjóðarinnar að því sé dembt hér inn á elleftu stundu og það sé rekið það grimmt á eftir að n. hrökklist til að afgreiða mál þó að þær lýsi því yfir að þær hafi ekki haft tíma til að vinna að málinu og aðatkjarninn í því að þær þrátt fyrir allt fást til að afgreiða málið er yfirlýsing ráðh. um að hann muni skipa nefnd til að vinna að því hið snarasta að koma þessu máli í betra horf? Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að ráðh. skipi nefnd er vinni að því að gera þetta frv. þannig úr garði hér að það sé eðlilegt að það verði gert að lögum. Það er engin nauðsyn að samþykkja frv. og gera það að lögum fyrst og skipa svo nefnd til að breyta lögunum í haust. Hvað rekur á eftir svona vinnubrögðum? Hvert stefnir Alþingi Íslendinga með svona vinnubrögðum? Mig undrar ef svo er komið að það sé talið eðlilegt að fjalla þannig um mál. Mér er ljóst að ráðh. sækja mál sín með kappi, sumir með ofurkappi, og það getur vel verið að það sé óþægilegt undir sumum kringumstæðum að mæla gegn því að mál séu afgreidd úr n., en til þess eru n. að þeim er ætlað að vinna ákveðið verk og þeim er ætlað að taka afstöðu. Hvað haldið þið að hinn almenni þm. hér í þinginu sé búinn að kynna sér þetta mál mikið fyrst nm. hafa ekki haft tíma til að fjalla um það?

Auðvitað liggur það ljóst fyrir að menn ókyrrast í sætum sínum vegna þess að það eru gerðar athugasemdir við vinnubrögð. Það eru ekki allir sem sitja með krosslagðar hendur, hæstv. iðnrh., og með bros á vör. Mér sýnist nú að það séu farnir að koma rauðir dílar á kinnarnar á sumum. En það er ástæðulaust að hafa hér mörg orð um. Svona vinnubrögð eru Alþingi til skammar. Það er til skammar að taka ákvörðun um að skerða námskröfur þeirra sem bera ábyrgð á mannslífum úti á sjó. Það er lítið samræmi í því að skipa sérstaka sjóslysanefnd á sama tíma og menn telja eðlilegt að gefa eftir á þessum þætti. Framkvæmdavaldið hefur orðið hér til skammar með því hvernig það hefur staðið að þessum málum á undanförnum árum. Sökin er ekki þess ráðh. sem nú fer með þennan málaflokk nema síður sé. Sökin er gömul. Nú á að velta þeirri sök yfir á þingið til að hvítþvo framkvæmdavaldið af þeim mistökum sem það hefur gert. Það er búið að hella yfir þetta sama Alþingi Íslendinga starfsréttindum hjá alls konar starfshópum hér í vetur. Það merkilega er að þar glittir ekki í undanþágur. Þar er ekki þörf á slíku. E. t. v. er hæstv. iðnrh. ánægður með þessa afgreiðslu mála. Það má vel vera að hann telji það til fyrirmyndar. En ég trúi því að Alþingi Íslendinga eigi ekki að vinna svona.