21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6538 í B-deild Alþingistíðinda. (6071)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. meiri hl. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1084 frá meiri hl. samgn. Mál þetta barst n. frá Ed. um hádegi s. l. laugardag. Hefur hún því haft mjög skamman tíma til að fjalla um málið svo sem þurft hefði.

Við 1. umr. málsins í Nd. flutti samgrh. svofellda yfirlýsingu:

„Það skal tekið fram við afgreiðslu frv. þessara að stéttarfélög skipstjórnarmanna og vélstjóra víða um land óska eftir því að fá að koma fram með brtt. við lögin sem lagðar verða fram eigi síðar en 15. okt. á þessu ári.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands mun skipa nefnd í málið sem skila mun einu sameiginlegu áliti um þau ákvæði í lögum þessum sem betur mættu fara.

Ég hef ákveðið að skipa nefnd nú í vor þar sem óskað verði eftir tilnefningu fulltrúa menntmrh., stýrimanna og Vélskólans í Reykjavík, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og útgerðaraðila til þess að gera tillögur um breytingu á þessum lögum, þar sem m. a. verði stefnt að því að undanþágur verði ekki veittar þeim sem hafa ekki áður fengið undanþágur til skemmri eða lengri tíma.

Þeim mönnum, sem eftir breytingu laga þessara hafa ekki réttindi, verði gefinn kostur á menntun í sínum landshluta og þannig að því stefnt að undanþáguveitingum verði hætt sem fyrst.“

Nm. urðu ekki sammála um afgreiðslu málsins. Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon munu skila séráliti. Stefán Valgeirsson tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins. Undirritaðir nm. leggja til að frv. verði samþykkt og styðja brtt. samgrh., sem hann flytur á þskj. 1029, en hún hefur að geyma ákvæði um að atvinnuréttindi skv. 4., 7. og 8. gr. frv. skuli ekki taka gildi fyrr en frá og með 1. jan. 1985. Ætti með því að vinnast nægur tími til að skoða þessi mál öll nánar skv. fyrrgreindri yfirlýsingu samgrh. Karvel Pálmason skrifar undir nál. með fyrirvara og áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Undir þetta nál. rita Friðjón Þórðarson, Stefán Guðmundsson, Eggert Haukdal og Karvel Pálmason með fyrirvara.