21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6538 í B-deild Alþingistíðinda. (6072)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. samgn. sem prentað er á þskj. 1087 og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt málið á nokkrum fundum og fengið til viðtals við sig ýmsa aðila er málið varðar. Ljóst er að mikill ágreiningur er um efni frv. og bárust n. eindregnar áskoranir um að fresta afgreiðslu þess. Koma þær óskir að hluta fram í fskj. með nál. þessu.

Þá óttast ýmsir að þetta frv., verði það að lögum, verði síst til að greiða fyrir varanlegri lausn varðandi undanþágur frá skipstjórnarréttindum og veitingu þeirra.

Nokkur misbrestur virðist hafa orðið á að málið hafi borist þeim aðilum til umsagnar sem eðlilegt hefði mátt teljast og er það ekki til þess fallið að stuðla að nauðsynlegri samstöðu um málið.

Einnig vill minni hl. samgn. átelja að samgn. Nd. skuli ætlað að afgreiða þetta mál á alls ónógum tíma. Minni hl. samgn. leggur til að frv. verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Þar sem áríðandi er að tekist hafi sæmileg sátt milli löggjafarvaldsins annars vegar og hagsmunaaðila hins vegar um efni frv., sem snertir starfsréttindi og menntun sjómanna, samþykkir deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir nál. ritar auk mín, Kristín Halldórsdóttir. Herra forseti. Þar sem hlutirnir ganga nú svo hratt fyrir sig hér á hinu háa Alþingi að nál. minni hl. hefur ekki enn fengist prentað og þau fskj., sem áttu að fylgja þessu nál. sem ég hef nú hér lesið, liggja því ekki fyrir á borðum þm., get ég samvisku minnar vegna ekki annað en lesið upp úr þeim það helsta sem við vildum koma til skila til þm. með því að láta þessi fskj. fylgja nál.

Í nál. segir, með leyfi forseta, svo að ég rifji það upp fyrir hv. þm.: „og bárust n. eindregnar áskoranir um að fresta afgreiðslu þess,“ þ. e. frv. Síðan segir: „Koma þær óskir að hluta til fram í fskj. með nál. þessu.“ Nú mun ég vitna hér í nokkur af þessum fskj., þar sem við birtum bréf frá hagsmunaaðilum sem þetta mál varðar, þar sem þessum eindregnu óskum var komið á framfæri við hv. samgn. Nd. Þá er fyrst:

„Til samgn. Nd. Alþingis.

1. Skipstjórafélag Íslands óskar eindregið eftir því að frestað verði til haustsins afgreiðslu frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

2. Í nefnd þeirri, sem samdi frv., var enginn fulltrúi skipstjórnarmanna (skipstjóra og stýrimanna). Aðeins einn maður var frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem var vélstjóri, en þó átti nefndin að fjalla um atvinnuréttindi beggja þessara starfsgreina. Hvaða erindi átti fulltrúi Sjómannasambands Íslands inn í nefndina?

3. S. K. F. Í hefur ekki haft þetta frv. til umfjöllunar nema í nokkra daga. Félaginu hefur ekki gefist kostur á að fjalla um það sem skyldi. En um umfjöllun um frv. er m. a. nauðsynlegt að taka tillit til eftirfarandi:

a) Alþjóðareglur (I. M. O. 19691 um mælingar skipa sem tóku gildi þann 18. júlí 1983.

b) Samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunar um menntun og þjálfun skipstjórnarmanna (S. T. C. W.-samþykktin frá 1978) sem tók gildi þann 28. apríl s. l.

c) Félög skipstjórnarmanna innan F. F. S. Í. hafa ekki haft tækifæri til að vinna að sameiginlegri niðurstöðu.

4. Skipstjórafélag Íslands er andvígt því að frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum verði að lögum nú á þessu þingi þar sem viðurkennt er að þar eru veigamiklir punktar sem þurfa endurskoðunar við og viðurkennt er af ráðh. Þess vegna sjáum við engin skynsamleg rök fyrir því að reka ófullburða frv. gegnum hv. Alþingi og gera það að lögum núna. Við teljum engin þau tengsl milli frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna annars vegar og frv. um fjarskipti og atvinnuréttindi vélstjóra hins vegar að þau megi ekki afgreiða hvert í sínu lagi.“

Undir þetta rita Höskuldur Skarphéðinsson, formaður Sjómannafélags Íslands, og nokkrir aðrir fyrir hönd Sjómannafélags Íslands.

Þá vil ég lesa það sem verður vonandi fskj. II við þetta nál. Það er stutt, með leyfi herra forseta:

„Hr. formaður samgn. Nd., Stefán Valgeirsson, Alþingi, Reykjavík.

Skipstjórafélag Norðlendinga fer þess hér með á leit við yður, herra formaður, að þér beitið yður fyrir að afgreiðslu á frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum verði frestað til næsta löggjafarþings.

Í frv. felast viðamiklar breytingar á gildandi lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna sem snerta munu hagi fjölmargra þeirra er undir þessum lögum munu starfa, ef samþykkt verða.

Félagið telur því eðlilegt, og raunar skylt, að félögum skipstjórnarmanna, samtökum þeirra og viðkomandi menntastofnunum, verði sent frv. til umsagnar áður en til endanlegrar afgreiðslu þess kemur.“

Og þriðja fskj. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Til samgn. Ed. Alþingis.

Stjórn Slysavarnafélags Íslands hefur bent á að fyrir hv. Alþingi lægi frv. til l. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna sem ætlunin væri að afgreiða með hraði nú fyrir þinglok. Jafnframt hefur verið fullyrt, m. a. í fjölmiðlum, að í frv. þessu væri gert ráð fyrir að dregið yrði úr kröfum um menntun, reynslu og þjálfun skipstjórnarmanna.

Af ofangreindu tilefni vill Slysavarnafélag Íslands benda á að slysatíðni er hærri meðal sjómanna en hjá nokkurri annarri starfsstétt. Það telur að ein ástæða fyrir þessu sé einmitt sú að menntunar- og þjálfunarmál sjómanna séu ekki í nægilega góðu horfi og þurfi þar að gera auknar kröfur frá því sem nú er. Félagið hlýtur því að vara við öllum hugmyndum um það að draga hér úr kröfum og telur að við það mundi slysahætta við störf á sjó enn aukast.

Með allt þetta í huga beinir félagið því eindregið til hv. samgn. Ed. og Alþingis að umrætt frv. verði ekki afgreitt án samráðs og umsagnar frá þeim aðilum sem um áratuga skeið hafa unnið að eflingu slysavarna á sjó og auknu öryggi sjófarenda.

Virðingarfyllst,

f. h. Slysavarnafélags Íslands

Hannes Þ. Hafstein, framkvstj.

Haraldur Henrýsson, forseti S.V.F.Í.“

Herra forseti. Þessi bréf, sem ég hef nú hér lesið, endurspegla hluta af þeim ágreiningi sem við nm. í samgn. urðum greinilega vör við þegar við tókum að fjalla um þetta frv. þó til þess gæfist ekki ýkja langur tími eins og hér hefur margoft komið fram. Áhyggjur manna voru nokkuð mismunandi eðlis. Þar koma inn í öryggissjónarmiðin eins og bent er á í bréfi Slysavarnafélags Íslands. Þar koma inn þau mál er varða starfsmöguleika þeirra manna sem þegar hafa undanþágur. Og þar koma inn sjónarmið sem varða framtíðarskipulag sjómanna með vélstjóramenntun hér á landi í framtíð. Um öll þessi atriði ríkti ágreiningur. Talsmenn skipstjóra og skipstjórafélaganna vöruðu eindregið við því að með samþykkt þessa frv. eins og það liggur nú fyrir væri möguleikum á framtíðarsamkomulagi um varanlega lausn þessara hluta stefnt í hættu. Talsmenn stýrimannaskólanna, bæði Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og hér í Reykjavík, vöruðu mjög við því að með þessum breytingum, sem gerð er till. um í frv., væri grafið undan skólunum sem slíkum og það væri hættulegt spor upp á framtíðina.

Með allt þetta í huga og einnig það, að fáar sjáanlegar ástæður liggja til þess að keyra þetta frv. í gegnum þingið nú og rök fyrir því að ekki megi taka tímann a. m. k. fram á haustið til að vinna þetta betur og leitast við að ná samkomulagi sýnast léttvæg, er það till. minni hl. n. að þetta verði ekki afgreitt hér nú. Við flytjum í nál. okkar till. um að þessu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá þar um.

Við teljum eðlilegt að þessi tvö frv., sem hér hafa verið rædd hvort á eftir öðru, fylgist að þar sem ákvæði í þeim báðum eru mjög skyld og taka á svipuðum hlutum. Þess vegna gerum við um það till. að þau hljóti bæði þessa sömu meðferð.

Ég skal ekki hafa þessa framsögu mína lengri, herra forseti. Það hefði verið ástæða til að rekja efnislega þau mörgu rök sem liggja gegn því að standa að þessum málum hér nú og með þessum hætti. Ég ætla þó ekki að þreyta hv. þd. með því að gera það. En ég harma það, herra forseti, að okkur skuli boðið upp á þau vinnuskilyrði hér, minni hl. samgn., að fá ekki prentað okkar minnihlutaálit hér á borð þm. áður en á að afgreiða þessi mál.