21.05.1984
Neðri deild: 105. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6545 í B-deild Alþingistíðinda. (6100)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. (Gripið fram í: Aðeins örfá orð.) Nei. Það leitar á mig hinn átakanlegi endir Gerplu þegar Þormóður Kolbrúnarskáld hafði sett saman kvæðabálk einn mikinn og óð um Ólaf helga og hafði lent í hrakningum miklum á Grænlandi og Noregi og reynt að ná fundi Ólafs og svo hitti hann Ólaf rétt fyrir Stiklastaðabardaga hrakinn og hrjáður, en nokkur misseri hafði hann verið með kvæði eða drápu til Ólafs helga. Og svo rann upp sú átakanlega stund þegar hann átti að flytja kvæðið fyrir konung. Þá sagði hann þessa frægu setningu: „Og kem ég nú ekki lengur fyrir mig kvæði þessu.“

Þó hrakningar mínir séu ekki jafnmiklir er þess að geta að ég ætlaði að flytja hæstv. sjútvrh. drápu mikla upp á einn og hálfan klukkutíma, en það var settur á mig hljóðdunkur um níuleytið í kvöld. Var mér tjáð að slíkt ætti við alla, samkomulag væri um að hraða umr. og grípa á helstu aðatatriðum. Ég mun standa við þetta samkomulag og stytta drápu þessa og tala í hæsta lagi tíu mínútur, þó að dýrmæt sé, upp á einn og hálfan tíma og taki aðrir sér það til fyrirmyndar.

Þetta frv., sem hér er til umr. komið undir morgun, er 82. mál á þskj. 87 og fjallar um Ríkismat sjávarafurða. Það hefur alltaf verið deilt um mat á fiski, þ. e. hugtakið vega og meta. Það er deilt líka um framkvæmd á því og síst ætla ég að fara að segja að þar sé ekki eitt og annað sem megi laga og bæta. En það er hér á ferðinni viðamikill lagabálkur sem fól í sér allvíðtækar breytingar. Það er athugandi í sambandi við grg. með lagafrv. þessu að ekki er skýrt frá því í hverju sé áfátt þeim lögum sem í gildi eru. Þessi lög eru búin að vera í gildi í tæp tíu ár. Það segir enginn að ekki megi breyta þeim, en í þau tæpu tíu ár sem þessi lög hafa verið í gildi hefur það held ég verið allra álit að þau væru ákaflega skýr og afdráttarlaus. Það hefur aldrei risið upp deila um túlkun á lögunum. Í lögunum er heimild til reglugerðar fyrir sjútvrh. og það má deila um hvort sjútvrh. hafi verið nógu ötulir í reglugerðum við breyttar aðstæður, en hitt held ég að verði ekki um deilt að lögin eru ákaflega ljós og skýr og í grg. fyrir þessu lagafrv. er ekki á það bent í hverju lögum þessum er svo áfátt.

Þetta makalausa frv. á sér nokkuð sérstæða sögu. Það er flutt hér af hæstv. sjútvrh. Satt að segja varð ég nokkuð undrandi þegar ég sá að hann var flm., ekki yfir því að hann vildi einhverju breyta, heldur er frv. svo herfilega illa samið. Það er svo fullt af mótsögnum. Grg. er ekki í samræmi við lögin. Þó að ég sé mjög andstæður hæstv. sjútvrh. saka ég hann ekki um skort á hæfni. Ég verð að segja að mér finnst það ekki í samræmi við hæfni hæstv. sjútvrh. að leggja fram svona frv., enda er mér sagt af kunnugum mönnum að þar hafi enginn lögfræðingur komið nálægt.

Hann mælti mjög með þessu frv. við 1. umr. og vildi láta samþykkja það óbreytt. Þetta var lengi í n. og svo skilaði meiri hl. nál., lagði til eina brtt., annað átti að vera óbreytt. Varamenn höfðu verið á nefndarfundum, en þegar tveir aðalmenn komu var þetta nál. afturkallað, nál. meiri hl. sjútvn. Nd. sem hafði hlotið blessun sjútvrh., og málið aftur tekið í nefnd. Nokkuð sjaldgæf vinnubrögð. Á frv. voru gerðar hvorki meira né minna en sextán breytingar og eftir þessar sextán breytingar, sem ég mundi nú segja að allar voru til bóta, fór það til Ed. Þar voru gerðar á því fjórar veigamiklar brtt. og í framsögu a. m. k. tveggja manna sem mæltu með frv. og voru í sjútvn. Ed. var tekið skýrt fram að þeir hefðu lagt til meiri breytingar á þessu frv. ef þeir hefðu haft til þess tíma. Hv. sjútvn. Ed. vann vel, en hún hafði ekki tíma til þess að vinna þetta enn þá ítarlegar eins og hún hafði óskað. Það komu tíu brtt. í Ed. frá einum nm. og vitað var að nokkrir fleiri nm. hefðu viljað semja um hluta af þessum brtt., en til þess gafst ekki tími.

Ég skal fara fljótt yfir sögu. Það er verið að fjalla hér um lög um mat og eftirlit með stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Frv. er þannig að það er búið að breyta því í tuttugu liðum og það sem átti að vera svona einhver framúrstefna, einhver stefnumörkun eða breyting á lögum, er meira og minna búið að fella út, ákvæði t. d. um fiskmatsráð, sem áttu að verða ein allsherjarbjörgun. Fiskmatsráð er eins og saltstólpi hér og þar inni í þessum lögum. Það er búið að kippa undan fiskmatsráði öllum þeim höfuðverkefnum sem það átti að hafa. Þetta frv. er það illa unnið, vegna þess að unnið var hratt í nefndum, að t. d. í 11. gr. er ákaflega óljóst hvernig ber að skilja. Ef það er túlkað eftir orðanna hljóðan telja fróðir menn, fleiri en einn og fleiri en tveir, að það þurfi að fjölga starfsmönnum um 40–80. Þetta er látið renna hér í gegn í tímaleysi. Þjóðin titrar ef það á að fjölga alþm. um þrjá. Látum það liggja á milli hluta, það er ekki til umræðu hér, en um eitt atriði er spurning, hvort það þurfi ekki að fjölga starfsmönnum um 40–80 til þess að uppfylla þessi lagaákvæði.

Ég gæti tekið upp fleiri atriði. Ég held að stefnumál t. d. Sjálfstfl. hafi verið skiptimynt þarna, ansi billeg. Í upphafi átti sjútvrh. að gefa út sérstakt framleiðsluleyfi. Eftir umr. í Nd. átti hann að gefa út sérstakt vinnsluleyfi þó í 2. gr. laganna væri það fiskmatið sem ætti að gefa út ákveðið leyfi. Hvaða leyfi var það sem ráðh. þurfti að gefa út til viðbótar? Það var framleiðsluleyfið dulbúið. Ed. tók þetta og gerbreytti og tók af skarið og segir svo, með leyfi forseta, í 16. gr.: „Ráðuneytið setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og endurveitingu vinnsluleyfis.“ Þetta gerbreytir öllu.

Ég gæti bent á að þýðingarmesta deildin í framleiðslueftirlitinu er lögð niður, sem að áliti allra kunnugra er galli. Hreinlæti og búnaður í matvælaframleiðslu er númer eitt, tvö og þrjú á öllum mörkuðum. Það er sjálfsagt ýmislegt sem má til betri vegar færa, en þetta er ekki að færa til betri vegar.

Það eru greinar í þessu þar sem slakað er á kröfum, þar sem undanþágum er fjölgað, ákvæði þar sem ekki eru löggiltir matsmenn. Undanþágum var fjölgað þarna. Við vorum að óskapast hér áðan yfir því að verið væri að leyfa undanþágur. Nú er verið að lögbinda þær hér. Svona mætti lengi halda áfram.

Ég vil segja það að ég held að svona eigi ekki að vinna að lagasmíð. Fyrst að frv. var gerbreytt í báðum sjútvn., bæði Ed. og Nd., en ekki fellt saman í heild, þá er lagafrv. ekki nógu vel unnið. Þetta eru afleit vinnubrögð og hreint kennslubókardæmi um það hvernig ekki á að semja lög. Þau á ekki að semja á örstuttum nefndafundum, semja upp heilu lagagreinarnar, og menn verði síðan, hinir mætustu menn, vegna tímaskorts að fresta að bæta um betur og fjölga breytingum. Ég fullyrði að samþykkt þessa frv. eins og það liggur fyrir núna mun ekki bæta fiskmat á Íslandi.

Ég vil koma með smádæmi. Frsm. sjútvn. Ed., Valdimar Indriðason, 3. þm. Vesturl., las upp eftirfarandi klásúlu í grg. sinni, með leyfi forseta:

„Vegna sérstöðu saltsíldarframleiðslunnar skal útflutningsmat saltaðrar síldar framkvæmt á vegum Ríkismats sjávarafurða, sem jafnframt skal annast eftirlit með söltun og verkun síldarinnar, hvort tveggja skv. sérstakri reglugerð sem sjútvrh. setur um saltsíldarmat og eftirlits- og leiðbeiningarstarfsemi með söltun síldar.“

Það þykir ástæða, eftir að hafa rætt við síldarútvegsnefnd, að láta svona fylgiplagg fylgja. Ég vil nú, þó að fáir séu hér í sal og ég sé búin að gangast inn á að draga saman mál mitt, fullyrða að þetta verður íslensku fiskmati, íslenskri fiskframleiðslu ekki til bóta. Fyrir voru góð lög, skýr og afdráttarlaus. Í staðinn fáum við loðin lög, tvíeggjuð. mótsagnakennd og óljós. Ef hæstv. sjútvrh. væri mikið kappsmál að fá þarna vönduð og góð lög, þetta á að ganga í gildi 1. ágúst, þá verður að fresta þessu, taka það upp á haustþingi og láta vinna þetta og fella vel saman og reyna að stefna að því að þetta komi í gildi um áramót. Ekkert slíkt má ske. Hæstv. sjútvrh. gengur inn á allar breytingar, misjafnlega kátur þó, nema eitt, að allar yfirmannsstöður í stofnuninni séu lausar, 30–35 stöður. Ég segi ekkert meira. Ég held að menn átti sig alveg á hvað er á ferðinni. En það er ekki verið að vinna að framgangi íslensks fiskmats og það er ekki verið að vinna að vandaðri framleiðslu með þessu. Með þessu er ég ekki að saka hæstv. sjútvrh. um að hann hafi ekki vilja á því. En þessi vinnubrögð upphaflega, hvernig kastað er höndunum til frv., hvernig meðferðin verður hér í þinginu, þó að það sé bætt kemur ekki heilleg löggjöf út, eru slæm. Ég vil þess vegna skora á hv. þm. að fella þetta frv. Ekki vegna þess að því hafi ekki verið gerbreytt til bóta frá því sem það var lagt fram og frá því fyrsta álitið kom frá nefndinni í Nd., heldur vegna þess að það þarf að vinna þetta mál betur. Ekki er sæmandi að standa svona að jafnþýðingarmikilli lagagerð. Ég er ekkert að tala um nóttina í nótt, látum hana eiga sig. En lengra litið hefur verið staðið illa að þessum málum og það verður þjóðinni því miður til tjóns.