14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

81. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæti hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. nr. 64 2. maí 1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Frv. þetta var samið að tilhlutan nefndar sem skipuð var 20. ágúst 1982 til að athuga rekstur og skipulag Hafrannsóknastofnunarinnar. Var frv. samið af n. sem áfangaálit hennar. Í n. áttu sæti Jón Arnalds ráðuneytisstjóri, formaður, Geir Gunnarsson form. fjvn., Jón Jónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Magnús Pétursson hagsýslustjóri, Már Elísson fiskimálastjóri og Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. Frv. var lagt fram á síðasta Alþingi en náði ekki fram að ganga. Nefndin hefur endurskoðað frv. og fylgir það bréfi hennar til ráðh. dags. 26. sept. 1983 er það barst rn. Ég vil nú í stuttu máli víkja að þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir.

Það nýmæli er í frv. að við stofnunina skulu starfa tveir aðstoðarforstjórar en þetta ákvæði á sér nokkra sögu. Þegar á árinu 1975 var rætt um að gera breytingar á stofnuninni í þá átt að setja á stofn starf útgerðarstjóra sem hefði á hendi daglega stjórn fjármála vegna reksturs rannsókna- og leitarskipa. Átti starfslið stofnunarinnar sem vinnur að útgerð og rekstri skipanna, þ.á.m. áhafnir skipanna, að heyra undir útgerðarstjóra. Þessi hugmynd var rædd m.a. af stofnuninni og gerð voru drög að frv. til l. í þessa átt. Ekkert varð þó meira úr þessari hugmynd en þegar á árinu 1975 var ráðinn sérstakur maður til að annast ráðningar skipshafna og hafa á hendi umsjón og varðveislu tækja og starfar hann enn að þessum viðfangsefnum.

Fyrir nokkrum árum voru svo ráðnir með ráðherrabréfum tveir aðstoðarmenn forstjóra sem jafnframt voru deildarstjórar ákveðinna rannsóknadeilda stofnunarinnar. Þessir aðstoðarmenn forstjóra hafa sjálfkrafa tekið við störfum forstjóra í fjarveru hans og annast rekstur og stjórn stofnunarinnar að svo miklu leyti sem forstjórinn hefur falið þeim. Þeir hafa að öðru leyti verið fulltrúar forstjóra við daglegan rekstur stofnunarinnar og atmennt aðstoðað hann við rekstur hennar. Nú er talið nauðsynlegt að lögfesta þessar stöður, þó þannig að aðeins annar aðstoðarforstjórinn sé vísindamaður á sviði hafrannsókna en hinn aðstoðarforstjórinn verði fjármála- og rekstrarstjóri stofnunarinnar.

Ástæður þess, að talið er nauðsynlegt að ráða sérstakan mann með menntun og sérþekkingu á sviði stjórnunar og rekstrar, er sú að um er að ræða umfangsmikinn skiparekstur og mikla veltu fjármuna. Stofnunin gerir út mörg rannsóknarskip auk leiguskipa og er hér um mikla fjármuni að ræða þar sem meira en helmingur af fjármagni stofnunarinnar rennur til skiparekstursins. Þykir nauðsynlegt að sérstakur maður annist þennan rekstur. En honum er einnig ætlað að annast gerð fjárveitingabeiðna stofnunarinnar, útgjaldaáætlana, kostnaðaráætlana, rannsóknarleiðangra, í samvinnu við forstjóra og samræma starfsemi deilda útibúa með tilliti til sem bestrar hagkvæmni og nýtingar. Þá er eðlilegt að fjármálalegur forstjóri annist starfsmannahald, uppáskrift reikninga og reikningshald og fjárreiður sem ekki eru í verkahring skrifstofu Rannsóknastofnana atvinnuveganna. Allar beiðnir um meiri háttar útgjöld þurfa samt að samþykkjast fyrir fram af forstjóra. Það er mikill ábyrgðarhluti að ekki sé til staðar í stofnuninni maður sem alfarið helgar sig eingöngu þessum málum og hafi til þess þekkingu og menntun.

Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á þau störf sem vísindamenn hafa unnið við rekstur þessara skipa, aðeins talið eðlilegra að vísindamenn beini kröftum sínum og helgi sig einvörðungu vísindastörfum og létti að sama skapi af sér fjármálarekstrarvafstri sem því hefur fylgt.

Haldnir hafa verið fundir með starfsfólki Hafrannsóknastofnunarinnar um þetta frv. og á þeim fundum hefur komið fram að margir eru mótfallnir þessari nýju stöðu. En í því sambandi er þó rétt að taka skýrt fram að gert er ráð fyrir að þessi staða aðstoðarforstjóra, sem annast skal fjármálalegan rekstur stofnunarinnar, þ.á m. skipareksturinn og starfsmannahald, heyri alfarið undir aðalforstjórann og er fjármálastjóranum ætlað að aðstoða hann við daglegan rekstur stofnunarinnar.

Það er líka skýrt tekið fram í 14. gr. að forstjóri hafi á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri hennar. Hann ákveður starfssvið sérfræðinga og annars starfsliðs. Það er því ekki verið að taka ráðin af vísindamönnum heldur aðeins verið að tryggja að umsjón með fjármálum og rekstri stofnunarinnar sé með ábyrgum og forsvaranlegum hætti. Þá er tekið fram í lögum að forstjóri og aðstoðarforstjórar skuli skipaðir til fimm ára í senn sem er nýmæli.

Í samræmi við tillögur sjútvn. Ed. Alþingis á s.l. ári er fjölgað í stjórn stofnunarinnar um tvo menn. Gert er ráð fyrir að skipun núv. stjórnar falli úr gildi um næstu áramót. Sjómenn og útvegsmenn fá nú sinn fulltrúann hvorir í stjórn, auk þess sem starfsmenn stofnunarinnar tilnefna fulltrúa. Aftur á móti er af lögð aðferð við tilnefningu fulltrúa ráðgjafarnefndar en formaður hennar á þó rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Stjórninni er fengið aukið hlutverk og ætlað að taka ákvarðanir um meginatriði í stefnu og starfi stofnunarinnar og gera tillögur um starfs- og fjárhagsáætlanir og tillögur til ráðh. um skipun ráðgjafarnefndar og deildaskiptingu stofnunarinnar.

Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórnin staðfesti skipaáætlun svo og reikninga hennar. Stjórninni er þannig veitt aukin hlutdeild í mótun skipulagsins en að tilhlutan nefndarinnar eru þegar hafnar umræður meðal starfsfólks og innan stjórnar um framtíðardeildaskipulag og fyrirkomulag í Hafrannsóknastofnun.

Eins og áður kom fram er stjórninni ætlað að gera tillögur um skipan ráðgjafarnefndar en frv. gerir ráð fyrir að ekki verði bundið í lög hverjir skuli skipa nefndina heldur skuli stjórnin gera tillögur til ráðh. um skipun nefndarinnar hverju sinni. Birt eru sem fskj. með frv. drög að erindisbréfi fyrir ráðgjafarnefnd stofnunarinnar þar sem er að finna lista yfir þá er tilnefna skulu fulltrúa í nefndina til fjögurra ára í senn. Komið gætu fram ábendingar um fleiri aðila í þessa nefnd og verður ákvörðun um skipun hennar tekin á sinni tíð ef frv. verður að lögum. Ráðgjafarnefndinni er með frv. falið mun víðtækara starfssvið, t.d. að fjalla um starfsáætlanir og rannsóknaverkefni stofnunarinnar og gera tillögur um verkefnaval og starfshætti. Hún skal koma saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári, vor og haust, en oftar eftir þörfum. Að vori skal nefndin fjalla um starfsáætlun Hafrannsóknastofnunar og skulu einstök verkefni hennar lögð fyrir nefndina til umsagnar. Að hausti skulu helstu niðurstöður af starfi hennar skýrð og sagt frá verkefnum er lokið er. Lögð skulu fyrir drög að nýjum verkefnum og leitað ábendinga eða tillagna nefndarinnar um ný verkefni sem tekin verði upp í starfsáætlun og lögð fyrir til umsagnar að vori. Nefndin getur rætt og gert tillögur til stjórnar um allt er lýtur að stefnumótun, starfsháttum og verkefnavali Hafrannsóknastofnunar svo og samskiptum hennar út á við. Verkefni ráðgjafarnefndar skulu sett í erindisbréf en gert er ráð fyrir að skipunartími núv. ráðgjafarnefndar renni út í árslok 1983 þannig að í ársbyrjun 1984 verði skipuð ný ráðgjafarnefnd með nýju erindisbréfi svo sem hér hefur komið fram.

Þá er rétt að geta þess að markmið Hafrannsóknastofnunar eru í 17. gr. skilgreind á ný. Þau verkefni, sem lögin kveða á um að skuli vera á hendi stofnunarinnar, voru skilgreind fyrir tæpum tveimur áratugum þegar aðstæður voru aðrar en nú. Nauðsynlegt er því að endurskoða markmið hennar eins og þau eru skilgreind samkv. lögum. Þau markmið, sem gerð er till. um, eru byggð á skilgreiningu sem sett er fram í langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins fyrir Hafrannsóknastofnun. Ekki eru þau þó orðrétt þau sömu en að baki skilgreiningunni liggur töluvert mikið starf starfsmanna Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknaráðs ríkisins. Þá er gert ráð fyrir með frv. í 16. gr. að sett verði ákvæði um heimild til starfrækslu útibúa og er það nýmæti. Stofnuninni er heimilt að starfrækja útibú utan Reykjavíkur samkv. ákvörðun ráðh. og Alþingis að fengnum tillögum stjórnar og forstjóra stofnunarinnar. Lögð er áhersla á að útibúin geti nýst fleirum en Hafrannsóknastofnun, t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, öðrum rannsóknar- og eftirlitsstofnunum o. fl. eftir því sem tækifæri gefast.

Í 18. gr. gildandi laga er kveðið á um að til að framkvæma verkefni stofnunarinnar skuli skipa starfseminni í fjögur verksvið. Í dag starfar stofnunin hins vegar í níu mismunandi deildum auk fjögurra útibúa, skipareksturs og skrifstofuhalds. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að sett skuli nýtt skipulag með ákvörðun ráðh. að fengnum tillögum stjórnar Hafrannsóknastofnunar.

Deildarstjórar skulu ráðnir. Með þessu er leitast við að tryggja frekari sveigjanleika í starfseminni, betri nýtingu á mannafla, tækjum og fjármunum í stað þess að deildir myndist í tengslum við áhuga- og sérsvið einstakra vísindamanna. Að frumkvæði nefndarinnar hafa þegar farið fram umræður með sérfræðingum stofnunarinnar um núv. deildafyrirkomulag og framtíðarskipan þessara mála. Umræðurnar eru á byrjunarstigi en verði frv. að lögum má gera ráð fyrir nokkurri breytingu frá því sem nú er. Með frv. er gert ráð fyrir að núv. skipulag stofnunarinnar falli úr gildi frá næstu áramótum.

Ég vil einnig taka það fram að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur að minni beiðni gert úttekt á hugsanlegum kostnaðarauka vegna þessa frv. en bréf lá ekki fyrir þegar frv. fór í prentun og mun ég gera ráðstafanir til að það berist sjútvn. í dag eða á morgun en það er nýkomið til mín.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja það til að frv. verði vísað til 2. umr. og hæstv. sjútvn.