22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6566 í B-deild Alþingistíðinda. (6168)

103. mál, lagahreinsun og samræming gildandi laga

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um lagahreinsun og samræmingu gildandi laga. Nefndin varð sammála í afstöðu sinni í þessu máli og það skal fram tekið að hún var fullskipuð. Með leyfi forseta vil ég lesa upp þá brtt. sem allshn. leggur til.

Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar:

1. Að feta ríkisstj. að leita eftir samstarfi við Lagastofnun Háskóla Íslands um framhaldsvinnslu lagasafns með þeim hætti að

a) fella nýja löggjöf inn í tölvuskráðan texta lagasafns 1984, þannig að ávallt sé tiltækur réttur texti gildandi laga í landinu,

b) undirbúa hreinsun úreltra ákvæða úr núgildandi lögum og gera tillögur um niðurfellingu lagabálka sem engum tilgangi þjóna lengur og fella má úr gildi og um greinar gildandi laga sem eðlilegt er og nauðsynlegt að samræma,

c) gera reglugerðum sömu skil um brottfellingu og samræmingu,

d) leggja á ráð um framtíðarskipun á útgáfu laga og reglugerða og alhliða upplýsingamiðlun um réttarreglur, enda verði tölvutækni hagnýtt eftir því sem kostur er og henta þykir.

2. Að fela ríkisstj. að sjá til þess að maður verði ráðinn til framkvæmdar á þessu verkefni.

3. Að kjósa nefnd níu manna til ráðuneytis um framkvæmd framangreindra verkefna.“

Það skal tekið fram að gert er ráð fyrir því af nefndinni að þessi níu manna nefnd verði ólaunuð, en starfið hvíli fyrst og fremst á þeim starfsmanni sem ætlunin er að ráða.