22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6567 í B-deild Alþingistíðinda. (6171)

368. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsögu hv. 6. þm. Suðurl. stóð ég að þeirri till. sem flutt var af allshn. Sþ. Ég flutti samt sem áður brtt. við þá till. vegna þess að ég hafði áhuga á að fram kæmu skoðanir mínar í þessu máli. Brtt. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að leggja fyrir næsta Alþingi frv. um afnám tekjuskatts af tekjum einstaklinga og lögaðila, en í stað þess komi ríkisútsvar á laun einstaklinga en veltuskattur á lögaðila. Ríkisútsvar á tekjur einstaklinga leggist á tekjur yfir 500 þús. kr. Vaxtaútgjöld verði ekki frádráttarbær, en vextir af sparnaði ekki skattskyldir sem tekjur. Frv. miði að því að tekjur ríkissjóðs minnki ekki af þess völdum.“

Það sem mér gekk til með þessum tillöguflutningi var að benda á þá möguleika að hvetja með skattaálagningu til þess sem hvað verst hefur gengið að fá fólk til á Íslandi, þ. e. að spara frekar en að skulda. Ég geri mér ljóst að þessi brtt. muni e. t. v. valda óþarfa umr. á þessum seinustu stundum þingsins án þess að það leiði til viðhlítandi árangurs og þess vegna dreg ég till. til baka.