22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6569 í B-deild Alþingistíðinda. (6177)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargerð hans fyrir þessari skýrslu. Þessi skýrsla er að mörgu leyti hið gagnmerkasta plagg, en ég er kominn hér aðallega til að vekja athygli manna á þeim hluta hennar sem fjallar um byggðadeild.

Það hefur margsinnis komið fram hér í umr. hver afstaða mín og Bandalags jafnaðarmanna er til Framkvæmdastofnunar. Þrátt fyrir ýmsa gagnrýni á þeirri stofnun kunnum við mjög vel að meta vissa þætti þess starfs sem þar fer fram. Sá hluti þessarar skýrslu, sem ég ætlaði að vekja athygli á, ætti að gera mönnum ljósa grein fyrir gildi og mikilvægi þess að menn hlusti og hlýði á mál þeirra manna sem kannske hvað gleggsta grein gera sér fyrir ástandi vorrar þjóðar.

Ég gríp hér niður í kafla þar sem fjallað er um byggðaþróun:

„Eftir áratuga byggðaröskun“, segir þar með leyfi hæstv. forseta, „náðist loks jafnvægi í fólksflutningum á milli landsbyggðar annars vegar og Suðvesturlands hins vegar um miðjan síðasta áratug. Þetta jafnvægistímabil var stutt eða fimm ár. Á árunum 1975–1979 fluttu samtals 21 þús. 411 manns til landsbyggðarinnar“, sem er svæðið utan Hellisheiðar og Hvalfjarðar frá Reykvíkingum séð, og um 21 þús. manns fluttust af landsbyggðinni til svæðisins sem menn kalla gjarnan suðvesturhorn.

„Á árinu 1980 má segja að þessu örstutta jafnvægistímabili lyki og síðan hafa fólksflutningar frá landsbyggð til Suðvesturlands aukist ár frá ári eins og tölurnar hér á eftir sýna.“

Ég hirði ekki að lesa þær tölur. Þær geta menn kynnt sér, en staðreyndin er sú að landsbyggðin hefur þannig tapað um 2400 manns til suðvesturhornsins á fjórum árum og það verður ekki betur séð af þeim könnunum sem fyrir liggja en að þessir flutningar séu í örum vexti.

Bent er á í þessari skýrslu að á áratugnum 1971–1980 varð öflug atvinnuuppbygging víðs vegar á landsbyggðinni í kjölfar útfærslu landhelginnar. Þessari uppbyggingu er að nokkru leyti lokið og þeirra áhrifa fer nú að gæta að hugsanlega var ekki staðið að þessari uppbyggingu alveg sem skyldi, meira af kappi en forsjá. En einnig er annað sem er afskaplega afdrifaríkt í þessari þróun. Það er að öll þjónustustarfsemi í tengslum við atvinnugreinar á Íslandi er eðli málsins samkv. mjög miðsækin. Hún sækir til þess svæðis þar sem hún kemst í tengsl við aðra þjónustu skylda. Reykjavík er að verða nokkurs konar allsherjarþjónustumiðstöð allra landsmanna. Þessu fylgir vaxandi byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sem tengist þjónustustarfseminni. Þjónustustarfsemi úti á landi er yfirleitt lítil og á það erfitt uppdráttar að á móti grunnatvinnugreinunum koma yfirleitt einungis 1–2 störf í þjónustugreinum úti á landi. Þjónustumargföldun á höfuðborgarsvæðinu vegna tilkomu starfa í grunngreinum úti á landi er mun meiri. Hve miklu meiri er erfitt að fullyrða nákvæmlega því að þessi margföldun er misjöfn eftir því hvaða viðmiðunarár eru valin.

Ef skoðaðar eru þær tölur sem hér eru fram settar kemur í ljós að atvinnuuppbygging úti á landi er í rénun. Þetta gerist þrátt fyrir afskaplega fögur fyrirheit og margyfirlýstan áhuga manna á hinu gagnstæða. Þetta kemur einkanlega fram í byggingum og mannvirkjagerð annars vegar, en einnig í þjónustugreinum.

Þá segir hér, með leyfi hæstv. forseta, og ég bið menn að athuga að þetta eru ekki mín eigin orð:

„Sú þróunarstefna, sem lesa má úr þessum tölum, er uggvænleg. Haldi svo áfram virðist ný flóðbylgja flutninga af landsbyggðinni til Suðvesturlands vera að rísa í líkingu við þá sem skall á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum á sjötta áratugnum. Slíkt er hvorugs hagur, Suðvesturlands né landsbyggðar, og er síst af öllu hagkvæmt fyrir þjóðarheildina. slík þróun getur komið upp vítahring sem erfitt getur verið að rjúfa og kann að leiða til þess að sífellt verði erfiðara að manna hinar þýðingarmiklu fiskvinnslustöðvar úti á landi og öllu mannlífi á landsbyggðinni hraki.“

Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef heyrt jafnsvartsýnan tón í skýrslu, hvort sem það er frá Framkvæmdastofnun eða einhverjum öðrum opinberum aðilum.

Hins vegar leiðir slík þróun til vaxandi þenslu suðvestanlands og aukins tilkostnaðar á fjölmörgum sviðum. Líklegt er að mikil byggðaröskun dragi verulega úr hagvexti. Á Suðvesturlandi búa nú yfir 142 þús. manns sem eru tæplega 60% þjóðarinnar. Hagkvæmast er fyrir þetta fólk að búa nokkurn veginn við eigin fólksfjölgun. Hin ýmsu kerfi, svo sem skólakerfi, umferðakerfi o. s. frv., geta þá þróast átakalaust og á hagkvæman hátt. Flóðbylgja innflytjenda af landsbyggðinni mun raska þessari uppbyggingu jafnframt því sem nýting dýrra mannvirkja á landsbyggðinni minnkar.

Í inngangskaflanum“, segir höfundur þessarar grg., „hér að framan voru líkur leiddar að því að gera yrði verulegt átak til að tryggja nægilega öra hagþróun í landinu á allra næstu árum. Það ástand sem hér hefur verið lýst bendir eindregið til þess að þetta átak verði að mjög verulegu leyti að fara fram á landsbyggðinni.“

Í þessu tilefni vil ég minna á að þm. Bandalags jafnaðarmanna hafa hér hvað eftir annað frá því í haust kallað á tillögugerð frá ríkisstj. um einhvers konar átak í atvinnuuppbyggingu, einhvers konar átak sem bent gæti til þess að hér mætti bæta kjör manna á næstu árum með vaxandi atvinnu, framleiðslu og hagvexti. En það hefur ekkert slíkt mál komið fram á þessu þingi sem á nú að ljúka eftir nokkrar mínútur, má nánast segja. Næsta haust byrjum við á sama puði í fjárlagagerð sem ekki verður með neinu móti öðruvísi en hún hefur verið undanfarin ár. Ég hef illan grun um að við eigum eftir að bíða lengi eftir því að þessi ríkisstj. eða nokkrir aðilar hennar leggi nokkuð það til í þessum málum sem vakið gæti bjartsýni hjá fólki, og þá sérstaklega ungu fólki í þessu landi, hvað framtíð þess snertir.

Sem dæmi um það hvað Framkvæmdastofnun hefur verið að fást við, sú stofnun sem hefði þó kannske helst átt að sinna að einhverju leyti því verkefni sem hér um ræðir, nægir að tiltaka nokkur dæmi í yfirlitinu yfir þau lán og styrki, sem veitt hafa verið úr Byggðasjóði, og menn geta sjálfir gert sér leik að því að vega og meta hvaða árangur til heildar þessi uppátæki Framkvæmdastofnunar hafa.

Hérna stendur á bls. 99 og 101, með leyfi hæstv. forseta, í lið 354: Hverabakarí, lán til kaupa á vélum 100 þús. kr. Liður 357: Hverabakarí, lán til byggingar húss fyrir bakarí — þeir voru búnir að kaupa vélar — 300 þús. kr. Liður 259: Hverabakarí, lán til kaupa á vélum. Húsið var of stórt. Það þurfti að kaupa fleiri vélar. Liður nr. 16: lán til að bæta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum — húsbyggingin hefur ekki svarað þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra hluta 450 þús. kr.

Ég hef, held ég, margoft reynt hér að tjá mig um hvað ég tel vera byggðastefnu og nokkuð greint á um það við aðra hér á Alþingi, en ég held að þetta, sem hér er verið að lýsa, geti ekki kallast byggðastefna. Til þess að hægt sé að vega og/eða meta grundvöll fyrirtækja sem þess sem hér um ræðir, þá á ég við rekstrargrundvöll, hvort fyrirtækið á yfir höfuð rétt á sér, verður fyrst að vera búið að ganga frá þeim þætti sem á ábyrgð ríkisins er. Menn kalla það á útlensku „strúktúr“, þ. e. nokkurs konar grundvöll. Öli þau þjónustukerfi sem sveitarfélög þurfa, þ. e. vegir og veitur og annað slíkt, menntastofnanir og þar fram eftir götunum, verða að vera sambærileg um allt land áður en hægt er að byrja að vinna með jafnsértækum hætti og réttlæta það eins og hér er gert á þessum stað.

Það vekur athygli þegar flett er í gegnum þessa skýrslu að eitt fyrirtæki virðist eiga í miklum erfiðleikum hér á landi. Það er Kaupfélag Eyfirðinga. Maður hefði nú haldið, miðað við þau umsvif sem Kaupfélag Eyfirðinga stendur í, að það væri ekki í þeim vandræðum að það þyrfti að fá lánað hjá Framkvæmdastofnun, Byggðasjóði, 300 þús. kr. vegna húss og véla fyrir frystihús á Dalvík. Maður hefði ekki haldið, eftir þá miklu uppbyggingu sem Kaupfélag Eyfirðinga hefur staðið fyrir, að það þyrfti að fá lán upp á 470 þús. kr. vegna byggingar mjólkurstöðvar á Akureyri — hús sem reyndar er búið að vera lengi í byggingu — eða að það hefði þurft að fá lán upp á 300 þús. kr. til vélakaupa vegna brauðgerðar á Akureyri.

Við vitum reyndar að erfiðleikar í atvinnulífi hafa gengið yfir Norðurland með kannske harðari hætti en gerst hefur annars staðar í landinu, tengist það mál reyndar þeirri svörtu sýn sem varpað er upp í þessari skýrslu, en ekki höfðum við gert okkur grein fyrir því að Norðlendingar væru svo illa komnir að þeir gætu ekki lengur prentað blöð án þess að fá styrk úr Framkvæmdastofnun til þess, sbr. 100 þús. kr. lán til Íslendings vegna endurbóta á húsi fyrir setningarþjónustu. Starfsemi eins og sú sem hér er verið að lýsa á ekki heima í reikningum Framkvæmdastofnunar. Hún á heima í banka. Ef einhvern mann vantar 100 þús. til þess að kaupa sér setningarvél fer hann ekki til Framkvæmdastofnunar, hann fer í banka. En hvers vegna fer hann í Framkvæmdastofnun? Jú, það er ein skiljanleg ástæða fyrir því. Ef hann hefur möguleika á aðgangi að þessari stofnun með einhverjum hætti gæti komið upp sú hagsýna hugsun að það væri vert að nota sér þetta því að það er svolítill munur á þeim vöxtum sem þarf að greiða í banka og þeim sem þarf að greiða í Framkvæmdastofnun. Þau lán, sem þar eru veitt, eru yfirleitt á 15% vöxtum, ef miðað er við 10 ára lán, en þurfi ég eða einhver annar maður að taka sambærilegt lán í banka borga ég að jafnaði, miðað við 10 ára lán, 21% vexti. Það er drjúgur munur þar á. Þannig er það mjög þægilegur vinargreiði að útvega kunningja sínum eða vini eða kjósanda lán úr þessari góðu stofnun.

Þá er þó nokkuð um að menn eru styrktir til að greiða af þeim lánum sem þeir áður höfðu fengið. Þetta hefur verið gagnrýnt hér í ræðum áður. Auðvitað er þetta aðgerð sem almennilegt fólk ekki skilur. Það er gersamlega óþekkt í viðskiptalífi að menn geti sótt um styrk til að greiða lánið sem þeir fengu hjá bankanum og gátu ekki borgað. Það þekkist hvergi annars staðar en í Framkvæmdastofnun. En það er líka þess vegna sem þessi stofnun hefur á sér þetta illa orð og það er þess vegna sem þessari stofnun er vantreyst með þeim hætti sem er gert. Það er ekki vansalaust að þeir flokkar sem að þessari stofnun standa skuli ekki hafa manndóm í sér til að breyta þessu, hrista af sér slyðruorðið, heldur láta kúga sig til að halda áfram því kjánalega, óskiljanlega og siðlausa skipulagi sem þar tíðkast í sambandi við dreifingu opinberra fjármuna.