22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6572 í B-deild Alþingistíðinda. (6178)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, stefnuyfirlýsingu dags. 26. maí 1983, er gert ráð fyrir því að ríkisstj. beiti sér fyrir breytingum á stjórnkerfinu eða eins og það er orðað:

„Til þess að gera stjórnkerfið virkara og bæta stjórnarhætti mun ríkisstj. beita sér fyrir breytingum á stjórnkerfinu.

Markmið slíkra stjórnkerfisbreytinga er að einfalda opinbera stjórnsýslu, bæta hagstjórn og samræma ákvarðanir í opinberri fjárfestingu, draga úr ríkisumsvifum og efla eftirlit löggjafarvalds með framkvæmdavaldinu.“

Síðan eru talin upp fjögur atriði: Lagt verði fyrir Alþingi frv. að nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands. Þetta frv. hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi. Það var lagt fram á blaðamannafundi. Það hefur aldrei verið lagt fram í ríkisstj. að mér er sagt. — Ríkisendurskoðun verði breytt á þann veg að hún heyri undir Alþingi. Ég kannast ekki við að þessu máli hafi neitt þokað áleiðis. — Rekstrarlegt eftirlit með ríkisfyrirtækjum verði eflt. Ég hef ekki frétt neitt af þessu. — Stefnt verði að því að auka útboð við opinberar framkvæmdir. Ég kannast ekki við verulegar breytingar í þessu efni. Þó hafa verið samþykkt ákveðin lög í þessa átt hér á Alþingi í vetur, en það var að frumkvæði þm. en ekki ríkisstj.

Þá segir í tölul. 6 í kafla sem ber yfirskriftina „Peninga- og lánastofnanir“:

„Lög um Framkvæmdastofnun ríkisins verði endurskoðuð. Verkefni áætlanadeildar verði færð til annarra stofnana. Framkvæmdasjóði verði mörkuð staða í tengslum við endurskipulagningu sjóðakerfisins. Lánastefnu Byggðasjóðs verði breytt í samræmi við upphaflegan tilgang, samhliða því sem sjálfvirkni í lánveitingum verði afnumin.“

Nú hefur það spurst að hæstv. ríkisstj. hafi haft að störfum í þessu máli nefnd, eins og í fleiri málum, og þessi nefnd hafi í raun og veru ekki komist að neinni niðurstöðu, hana hafi borið upp á sker. M. a. er frá því greint í fréttum og fjölmiðlum að innan nefndarinnar sé verulegur ágreiningur, minni hl. nefndarinnar, skipaður einhverjum fulltrúum eða fulltrúa Sjálfstfl., hafi skilað séráliti, en formaður nefndarinnar, sem mun vera sami maður og er forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins, mun hafa lagst gegn því að nefndin sinnti ætlunarverki sínu eins og aðrir nefndarmenn vildu.

Þegar ríkisstj. var mynduð reyndi hún að skreyta kauplækkunarfarkost sinn með ýmsum hætti. M. a. var því lýst yfir af ráðh. að stjórnkerfisbreytingar stæðu fyrir dyrum og ungu íhaldsmennirnir sem beittu sér fyrir stuðningi við þessa ríkisstj., eins og Friðrik Sophusson og Þorsteinn Pálsson, bundu miklar vonir við það skv. opinberum yfirlýsingum að eitthvað yrði gert í þessum stjórnkerfismálum. Niðurstaðan að loknu fyrsta þingi þessarar ríkisstj. er sú að það hefur ekkert hreyfst í þessum stjórnkerfismálum. Niðurstaðan þar er 0.0. En ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Er það ætlun ríkisstj. að reyna að halda áfram þessu nefndarstarfi við endurskoðun á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins undir forustu Tómasar Árnasonar?