22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6579 í B-deild Alþingistíðinda. (6184)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það væri ofsögum sagt að segja að hann væri rausnarlega skammtaður, tíminn til að ræða hinar ýmsu skýrslur frá hæstv. ráðherrum. Mörgum þótti nú stungin tólg, eins og hér er stundum sagt, þegar tekin var til umr. seint og um síðir skýrsla hæstv. utanrrh., en segja má að nú taki fyrst í hnúkana þegar okkur er á síðasta degi þingsins innan ákveðinna tímamarka ætlað að ræða þessa skýrslu hæstv. forsrh. og væntanlega þá ljúka því af áður en þinglausnir fara fram hér á eftir.

Sjálfsagt mundum við ekki leysa öll þau vandamál sem hér er um fjallað þó að við hefðum eitthvað rýmri tíma til þess að ræða málin. Má í því sambandi vitna í einn verðmætan vitmann, eins og hér var einnig sagt áðan, sem sagði einhvern tíma að heimurinn yrði sennilega ekki frelsaður utan dagskrár í Sþ. Mér er til efs að öll vandamál landsbyggðarinnar yrðu leyst hér þó að við hefðum jafnvel eitthvað rýmri tíma til að ræða þau en nú stendur til boða. En orð eru einu sinni til alls fyrst.

Það sem mér finnst ánægjulegt í sambandi við þessa skýrslu og þá stuttu umr. sem hún hefur hér fengið er að það virðast hafa ýtt nokkuð við mönnum þær staðhæfingar, sem þar eru settar fram og rökstuddar, um hvert stefni með jafnvægi í byggð landsins. Það kemur fram í þessari skýrslu að landsbyggðin tapaði til suðvesturhornsins fast að 1000 manns á síðasta ári og segir það þó ekkert um þá byggðaröskun sem falin er innan fjórðunganna og innan þessara svæða og kemur ekki fram í þessum tölum. Ég hef margoft, herra forseti, í ræðum hér á hinu háa Alþingi, og nú síðast í eldhúsdagsumr. um daginn bent á þá afturför sem hér er að eiga sér stað. Ég vil ekki nota orðið „þróun“ í þessu sambandi.

Ég endurtek að það er ánægjulegt ef þessi skýrsla þó svört sé hefur orðið til þess að hreyfa eitthvað við mönnum. Hvort hún nær að hreyfa við þeim mönnum sem leggja hana hér fram, þ. e. hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj., er svo annað mál og læt ég ósagt um. En að ári munum við fá nýjar tölur. Þær tölur verða ákveðinn mælikvarði á frammistöðu hæstv. ríkisstj. og stjórnvalda yfirleitt. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég óttast þær tölur, en þær munum við væntanlega ræða á næsta þingi, herra forseti, nær það verður sett og hverjir sem þar sitja.