22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6579 í B-deild Alþingistíðinda. (6185)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að fagna þeim upplýsingum sem komu fram í máli hæstv. iðnrh. um það að hann taki deildarstjóra ráðuneytis síns úr stjórnum fyrirtækja sem rn. á eða rekur. Þetta tel ég að séu mikilsverðar fréttir vegna þess að þetta er að mínu mati eiginlega sama eðlis og að taka alþm. úr stjórnum fyrirtækja eins og Framkvæmdastofnunar ríkisins, ríkisbanka og þess háttar. Mér virðist að þeirri skoðun sé að vaxa fiskur um hrygg að þm. beri mjög stranglega að gæta hlutleysis síns eða vera hafnir yfir allan grun hvað varðar hagsmunaárekstra. Það er einmitt það veganesti sem sjá má að t. d. kanadísk yfirvöld gefa sínum þm. Það eru ekki settar neinar ákveðnar reglur um hvað þeir megi eða megi ekki vera. Það er bara sagt að þm. megi undir engum kringumstæðum koma sér í þá aðstöðu að frelsi hans sé ekki hafið yfir grun. Það er í raun og veru eina reglan sem við getum farið eftir. Ég held að við ættum að taka hana upp í auknum mæli í íslenskri stjórnsýslu. Kannske er sú viðleitni, sem hæstv. iðnrh. lýsti áðan, byrjun á því.