14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem ég flyt um starfsmannaráðningar ríkisins. Frv. þetta hefur tvíþættan tilgang.

1. Hér er verið að setja nýjar og skýrari reglur um starfsmannaráðningu ríkisins almennt, hvort heldur um er að ræða ráðningu, setningu eða skipun, en segja má að ákvæði um þetta efni í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna séu ófullnægjandi og alls ekki nægjanlega skýr eða sveigjanleg.

2. Frv. er flutt til þess að stuðla að hæfilegri endurnýjun og mannaskiptum í ríkiskerfinu. Það er tvímælalaust helsta nýmæli þessa frv., sem kemur fram í 3. og 4. gr., að ákveðið er að skipa skuli að jafnaði tímabundið í allar stöður forstöðumanna atvinnufyrirtækja ríkisins og ríkisstofnana, hugsanlega að undangenginni kosningu meðal samstarfsmanna. Gert er ráð fyrir því að starfstími sé hverju sinni 4–6 ár samkvæmt nánari ákvörðun ráðh. í reglugerð en endurskipun eða endurkosning heimil einu sinni. Sama gildi um aðrar mikilvægar stöður eftir nánari ákvörðun viðkomandi ráðh.

Forsaga þessa máls er sú, að veturinn 1977 flutti ég í Nd. frv. til l. um endurnýjun í stöður forstöðumanna ríkisstofnana. Þetta frv. náði ekki fram að ganga. Í frv. var gert ráð fyrir mjög hliðstæðum ákvæðum eins og eru í þessu frv., þ.e. að forstöðumenn ríkisstofnana væru skipaðir, settir eða ráðnir til 6 ára í senn og almennt yrði stuðlað að endurnýjun í þessum stöðum þegar sami maður hefði gegnt í 12 ár eða lengur.

Í ríkisstjórn þeirri sem sat á undan þeirri sem nú er við völd var mál þetta nokkrum sinnum rætt og þar kom að lokum að gerð var samþykkt um það í ágúst 1982, í tengslum við setningu brbl. um efnahagsmál nr. 79/1982. Þar var sérstakt ákvæði sem hljóðaði svo: „Undirbúin verði löggjöf um að stjórnendur ríkisstofnana, ráðuneyta og ríkisbanka verði framvegis ráðnir til fimm ára í senn.“ Þá hafði einmitt verið unnið í fjmrn. um nokkurt skeið að frv. um þetta efni, og var stefnt að því, eins og gert er í þessu frv., að fella ný ákvæði um tímabundna ráðningu forstöðumanna ríkisstofnana inn í endurskoðuð ákvæði um starfsmannaráðningar almennt.

Frv. þessa efnis var lagt fram og kynnt í ríkisstj. nokkrum sinnum á s.l. vetri og naut þá óumdeilanlega mikils stuðnings, var m.a. formlega samþykkt í þingflokki Framsfl. og naut stuðnings ráðherra Sjálfstfl. auk ráðh. Alþb. Málið varð þó aldrei útrætt vegna nokkurra tæknilegra atriða, sem áframhaldandi voru til umr., hlaut ekki afgreiðslu í ríkisstj. og var því ekki lagt fram á Alþingi, þótt segja megi að fullur stuðningur hafi verið í ríkisstj. við meginefni frv. Það vannst m.ö.o. ekki tími til að ganga endanlega frá málinu í þeirri stjórn, enda að mörgu að hyggja á s.l. vetri eins og menn minnast.

Frv. er lagt fram nú nær óbreytt. Ég hef ekki beðið með það lengur með hliðsjón af því að hugsast gat að núverandi ríkisstj. vildi leggja frv. fram, eða núverandi fjmrh. mundi vilja beita sér fyrir samþykkt þess hér á Alþingi, en á lista ríkisstj. yfir mál, sem hún hyggst flytja á þessu þingi, er þetta mál ekki að finna. Ég geri mér hins vegar vonir um að núverandi ríkisstj. sé hugsanlega að efni til sammála því sem felst í þessu frv. og hæstv. fjmrh. sé það einnig. Á það þá vonandi eftir að koma fram hér í þinginu, en það lá sem sagt ekkert fyrir um það að ráðh. eða hæstv. ríkisstj. vildi hafa frumkvæði að þessu máli og því þótti mér einsýnt að hreyfa því hér.

Í frv. sem ég flutti veturinn 1977 var sagt að það væri flutt til þess að stuðla að hæfilegri endurnýjun og mannaskiptum í ríkiskerfinu og á það lögð áhersla að hvergi væri jafnbrýnt að forðast stöðnun og kyrrstöðu og einmitt í starfi forstöðumanns stofnunar. Þess vegna þyrfti sérstaklega að opna leið til að endurmeta skipan þessara embætta öðru hvoru. Ég tel að þessar röksemdir séu enn í fullu gildi. Mun ég nú víkja að einstökum greinum frv.

1. gr. er að meginefni í fullu samræmi við 1. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ekki var talin ástæða til að fella þá grein úr gildi. Og sama gildir um 2. gr.

Um 3. og 4. gr. er það að segja að þar er því slegið föstu að tímabundið skuli skipað í allar stöður forstöðumanna atvinnufyrirtækja ríkisins og ríkisstofnana. Segja má að slíkt hafi verið heimilt að því er forstjóra atvinnufyrirtækja varðar, og áreiðanlega eru þess ýmis dæmi að þeir eru ráðnir með uppsagnarrétti, en þó hygg ég að þeirri heimild hafi ekki verið mikið beitt. Hér er það gert að aðalreglu að slíkir menn séu ávallt skipaðir til fyrirfram ákveðins tíma og er þetta nýmæli. Hér undir munu falla fjöldamargir starfsmenn sem nú hafa æviráðningu. Hér er gert ráð fyrir að það sé viðkomandi ráðuneyti og ráðherra sem taki að öðru leyti ákvörðun um hvaða embætti hjá viðkomandi ráðuneytum eigi að falla undir þessi lög. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að fjmrh. ákveði þetta. Þó að hér sé notað orðið ráðh. þá er að sjálfsögðu átt við ráðherra viðkomandi ráðuneytis. Hins vegar er gert ráð fyrir, ef ágreiningur kemur upp um hvaða embætti eða embættismenn gætu fallið hér undir, að fjmrh. skeri úr, en að úrskurð hans megi bera undir almenna dómstóla.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að ef mönnum finnst eðlilegra að forsrh. skeri úr í deilu af þessu tagi þá hefði ég svo sannarlega ekkert við það að athuga. En þeir sem sömdu frv. hafa haft þennan háttinn á vegna þess að almennt heyra kjör og ráðning starfsmanna ríkisins undir fjmrn. En þetta gæti hugsanlega verið á hinn veginn, að það væri forsrh. sem hefði með málið að gera.

Í 2. málsgr. 3. gr. er hverjum ráðh. heimilað á sínu starfssviði að ákveða að forstöðumaður ríkisstofnunar sé kosinn af starfsmönnum stofnunarinnar. Þetta væri algert nýmæli og áreiðanlega til mikilla bóta. Auðvitað getur komið til álita í vissum tilvikum að það væru tilteknir starfsmenn stofnunarinnar sem kysu forstöðumanninn, en hér er þetta orðað á þennan veg til þess að ráðh. geti haft frjálsar hendur í þeim efnum. Það verður hins vegar að setja um þetta reglugerð, þ. á m. um kosningarrétt, kjörgengi og kosningaframkvæmd.

Það er sérstaklega tekið fram í 3. málsgr. að reglur þessar gildi ekki um biskup og aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar, enda mun flestum kunnugt að um þá starfsmenn gilda sérreglur og þeir eru flestir kjörnir til starfa og þjóðkirkjan nýtur að ýmsu leyti sérstöðu í sínum málum.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir því að menn skuli kosnir eða skipaðir til 4–6 ára. Það er sem sagt ráðh. sem getur ákveðið það og geta þar ýmis sjónarmið komið til. Þetta er því dálítið sveigjanlegra en í frv. sem ég flutti hér fyrir sex árum, þar sem gert var ráð fyrir að um væri að ræða sex ára starfstíma að jafnaði. Í samþykkt ríkisstj. frá því í fyrra var gert ráð fyrir fimm ára starfstíma, en í þessu frv. er sveigja í þessu og talað um 4–6 ár.

Að skipunartíma liðnum má endurskipa eða endurkjósa mann einu sinni þannig að lengsti starfstími í sama embætti getur þá orðið 12 ár. En það skal tekið fram að ef maður hefur gegnt t.d. forstöðumannsembætti í 12 ár og síðan er annar maður skipaður í hans stað í eitt tímabil, þá má að sjálfsögðu skipa síðan þann sem áður gegndi því á nýjan leik. En hann má ekki hafa setið órofið í sama embætti nú sem forstöðumaður lengur en 12 ár. Þetta er gert til að tryggja að um hæfilega endurnýjun sé að ræða í þessum störfum og að menn sem gegna svo ábyrgðarmiklum störfum taki sér þá a. m.k. nokkurra ára hvíld, áður en þeir hefja störf á nýjan leik, ef talið er skynsamlegt að þeir geri það.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að í 20. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir því að forseti geti flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættisskiptin eða lausn frá embættum með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.

Af þessu stjórnarskrárákvæði leiðir að sjálfsögðu að þeir menn sem nú eru skipaðir til starfa en mundu láta af starfinu vegna ákvæðisins til bráðabirgða, sem ég vík að á eftir, ættu rétt á öðru starfi með sömu launum og ættu einskis í að missa af embættistekjum sínum, eins og þar segir.

Ég ætla þá að víkja að ákvæði til bráðabirgða. Þar segir: „Á næstu 12 árum og eftir nánari ákvörðun viðkomandi ráðh. skal auglýsa að nýju allar stöður forstöðumanna stofnana þar sem svo stendur á að forstöðumaður hefur gegnt stöðunni samfleytt lengur en 12 ár.

Nú sækir sá um stöðu sem henni hefur gegnt og má þá skipa hann, setja eða ráða aftur í starfið einu sinni, þ.e. til sex ára að hámarki, ef sérstaklega stendur á.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að reynt sé að koma þessari skipan á á næstu árum eftir því sem ríkisstjórnir og einstakir ráðh. telja skynsamlegt, hæfilegt og mögulegt. Það er gefinn 12 ára frestur til að koma þessari skipan á og gert ráð fyrir að þeir sem gegna þessum stöðum nú geti að vísu sótt um aftur og verið skipaðir, settir eða ráðnir aftur í starfið og þá til sex ára ef sérstaklega stendur á, ef sérstök ástæða þykir til. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að þeir menn sem eru skipaðir í sínar stöður í dag og mundu láta af þeim vegna samþykktar þessara laga ættu með hliðsjón af 20. gr. stjórnarskrárinnar rétt til þess að halda embættistekjum sínum óskertum.

Vissulega má velta því fyrir sér hvort þessi réttur embættismanna samkv. stjórnarskránni sé ekki óþarflega fyrirferðarmikill, að ekki megi skerða laun þeirra hið minnsta ef þeir hverfa til annarra starfa. Má segja að eðlilegra væri að samhliða rétti til áframhaldandi starfa í þágu ríkisins ættu þeir rétt til ákveðinna hámarkslauna, t.d. launa, sem ekki væru lægri en sem svarar 3–4 launaflokkum neðar en starfið sem þeir áður gegndu. Ég skýt því að sem hugmynd að þannig væri hugsanlegt að skipa þessum málum að menn sem hyrfu frá störfum af þessu tagi héldu mestu af sínum launakjörum, en persónulega finnst mér ekki eðlilegt eða nauðsynlegt að þeir haldi nákvæmlega launum sínum um ókomin ár þó þeir hafi í eitt skipti verið skipaðir til þessara starfa. En þetta er stjórnarskrármál og á meðan stjórnarskránni hefur ekki verið breytt verður að sjálfsögðu að virða þetta ákvæði. Því legg ég áherslu á að að svo miklu leyti sem ákvæði til bráðabirgða kæmi til framkvæmda yrði að sjálfsögðu að gera ráð fyrir að þessir menn yrðu settir eða skipaðir til annarra starfa með sömu launum og giltu um forstöðumannsstarfið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég legg áherslu á að það er úrelt með öllu og ekki í neinu samræmi við þær reglur sem almennt gilda á vinnumarkaðinum að menn, sem ráðnir eru til svo þýðingarmikilla starfa að vera forstöðumenn stórra stofnana, séu látnir ríkja yfir þeim ævilangt ef þeir hafa verið til þess settir einu sinni. Þetta eru leifar frá liðinni tíð og ætti fyrir löngu að vera horfið úr lögum. Ég vænti þess fastlega að mikill meiri hl. alþm. sé mér sammála um þetta efni, að það geti ekki verið farsælt, hvorki fyrir ríkið eða ríkisstofnanir né fyrir einstaka starfsmenn, sem lýjast og eldast eins og aðrir menn, að slík ákvæði séu áframhaldandi í lögum. Þess vegna er nauðsynlegt að frv. þessa efnis verði samþykkt og reynt verði að tryggja eðlileg umskipti og endurnýjun í þessum embættum.

Ég vil leyfa mér að leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. félmn.