14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé hreyft við mjög þörfu máli og ég er í höfuðatriðum sammála þeim hugmyndum sem hér liggja að baki. En mig langar til að spyrja hv. flm. einnar spurningar, sérstaklega í sambandi við 3. gr.; reyndar kom hv. 9. þm. Reykv. inn á þetta hérna áðan. Þetta heitir frv. til l. um starfsmannaráðningar ríkisins en einu starfsmenn ríkisins sem eru tilteknir hérna eru forstöðumenn atvinnufyrirtækja annars vegar og biskupar og starfsmenn þjóðkirkjunnar hins vegar. Að hve miklu leyti nær þetta til allra hinna ríkisstarfsmannanna sem er afskaplega stór hópur? Mig langar þá í þessu tilviki líka til að spyrja: Hefur flm. hugsað sér t.d. að þetta nái til starfsmanna Háskóla Íslands?