14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Út af fsp. hv. 4. þm. Austurl. vil ég taka þetta fram: Ég lít svo á að þetta sé alveg ljóst. Í 6. gr. er gert ráð fyrir að ráðning geti verið með tvenns konar hætti, ráðning til ákveðins tíma sem ekki skal vera lengri en tvö ár og ráðning til óákveðins tíma með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Þetta tíðkast hvort tveggja í dag og er engin breyting frá því sem nú er. Það er auðvitað alveg ljóst hver ákveður þetta, það er sá sem ræður viðkomandi mann. Í rn. mundi það oftast vera ráðh., en þó hugsanlega ráðuneytisstjóri í ýmsum tilvikum. Í bönkum eru það væntanlega bankaráðin sem taka ákvörðun um hvernig þessu sé hagað. Það er alveg rétt sem hv. þm. sagði hérna áðan að ráðning til óákveðins tíma með gagnkvæmum uppsagnarfresti er mjög algengt form, m.a. eru bankastjórarnir ráðnir með þessum hætti í dag.

En þá er spurning hv. þm., hverju breytir þá frv. varðandi t.d. bankastjórana? Það bætir því við að þegar um er að ræða forstöðumenn ríkisstofnana eins og forstöðumenn banka þá bætist við þessa 6. gr. ákvæði 3. gr. að þá má ekki ráða til óákveðins tíma. Vegna þess að sérákvæði þessara laga nær þá alveg sérstaklega til þeirra má alls ekki ráða til óákveðins tíma. Annar liður 6. gr. gæti því alls ekki átt við bankastjóra svo nefnt sé dæmi, því það er alveg ljóst af 3. gr. að þá ber að ráða til ákveðins tíma. (TÁ: Að jafnaði í 3. gr.) Já, já, að jafnaði. Að jafnaði skal skipa tímabundið í allar stöður. Það er sem sagt hugsunin í þessum tilvikum að þegar um forstöðumenn atvinnufyrirtækja og ríkisstofnana er að ræða, þá sé um að ræða tímabundna ráðningu.

Það má vel vera að það þurfi að velta einstökum ákvæðum frv. betur fyrir sér. Kannske væri t.d. réttara að upphaf 3. gr. væri ekki bara með mjög skýrri upptalningu sem tæki af allan vafa um að bankarnir féllu undir þetta, heldur væri líka sagt hér: Að jafnaði skal skipa, setja eða ráða tímabundið í allar stöður forstöðumanna atvinnufyrirtækja ríkisins og ríkisstofnana. Ég hygg að greinin væri ótvíræðari og skýrari ef þannig væri til orða tekið og að það verði að flokkast undir pennaglöp að orða þetta ekki á þennan hátt vegna þess að í dag er ekki skipað í allar þessar stöður, það er í vissum tilvikum ráðið í þær og því væri miklu skýrara að orða þetta á þann veg. En þetta er nú svona minni háttar formsatriði sem auðvitað þarf að hyggja að við meðferð málsins í n. En ég hygg að þetta eigi hvorki að valda misskilningi né vandræðum.

Ég ítreka svo, virðulegi forseti, till. mína um að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.