14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hafði samband við mig á ellefta tímanum í gærkvöld, eftir að hafa fylgst með sjónvarpsfréttum, og tilkynnti mér að hann óskaði að taka efni sjónvarpsfréttanna til meðferðar utan dagskrár á fundi Nd. í dag. Ég hafði ekkert við það að athuga og skal fjalla um málið eins og hann hefur gefið tilefni til.

Mér var ekki kunnugt um þá skýrslu er greint var frá í sjónvarpsfréttum. Að vísu hafði fréttamaður sagt mér lauslega frá blaðafregnum um þessa skýrslu og að loknum sjónvarpsfréttunum var hann reiðubúinn að láta mér í té þá skýrslu sem hér er um að ræða.

Þetta er skýrsla sem gerð er af einkafyrirtæki, að því er virðist, að nafni Science Applications Inc., 1710 Goodridge Drive, McLean, Virginia. Segir svo á forsíðu þessarar skýrslu: Drög að lokaskýrslu fyrir tímabilið september 1982 til júlí 1983, vitnað í samning við og undirbúin fyrir forstjóra Defense Nuclear Agency í Washington D.C. Ég hef gert ráðstafanir til að sendiráð okkar í Washington afli sér upplýsinga um þessa skýrslugerð, hvernig hún er tilkomin og í hvaða tilgangi. Sömuleiðis hef ég látið spyrjast fyrir um það í sendiráði Bandaríkjanna hér á landi, hvernig á þessari skýrslu standi og í hvaða tilgangi hún sé gerð. Sendiherra Bandaríkjanna hefur tjáð ráðuneytisstjóra utanrrn. að það væru margir tugir eða hundruð slíkra skýrslna á ferðinni, m.a. í skrifstofunum í Pentagon, sem ekkert væri gert með í raun og veru og þessi skýrsla væri algerlega marklaus.

Nú skal ég ekki frekar fjalla um það, en leggja þó áherslu á það sem fréttamaður gerði sjálfur í sjónvarpinu, þar sem hann sagði: „Rétt er að leggja áherslu á að hér er um að ræða athuganir og uppástungur, sem ekkert bendir til að hafi komist á framkvæmdastig, og einnig er rétt að hafa í huga, að sífellt er verið að gera rannsóknir af þessu tagi, sem aldrei koma til framkvæmda.“

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir að hér er um að ræða mál sem aldrei hefur komið á dagskrá hjá íslenskum stjórnvöldum, að hér yrði komið fyrir landföstum eldflaugum, hvorki með kjarnaoddum né án kjarnaodda. Og ég er sömu skoðunar og fram kemur hjá deildarstjóra varnarmáladeildar í utanrrn., Sverri Hauki Gunnlaugssyni, en haft var eftir honum í umræddri sjónvarpsfrétt að þessi skýrsla hefði ekki komið til tals í varnarmáladeild, enda fjarri lagi að hugmyndum af þessu tagi yrði hrint í framkvæmd. Afstaða íslenskra stjórnvalda væri og hefði verið sú, að varnarliðið gegndi tvíþættu hlutverki, annars vegar að annast beinar varnir landsins og hins vegar eftirlit umhverfis það. Hugmyndir á borð við þær sem fram kæmu í skýrslunni mundu augljóslega brjóta í bág við þetta tvíþætta hlutverk. Ég svara því fsp. hv. þm. um það, hvort ég teldi til mála koma að setja slíkar eldflaugar upp á Íslandi, neitandi.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar, að uppsetning slíkra eldflauga mundi breyta eðli varnarstöðvarinnar og því sé ekki efni til þess á grundvelli varnarsamningsins að slíkt verði gert. Varnarsamningurinn hefur það hins vegar í för með sér — hann er alveg skýr og ótvíræður að því leyti — að hann felur Íslendingum algert og óskorað vald varðandi hvaða ráðstafanir eru hér á landi gerðar, hvaða vopn eru hér til staðar eða hvernig þau eru notuð. Það er á valdi Íslendinga fyrst og síðast að kveða á um það.

Ég get verið sammála hv. fyrirspyrjanda um að ég tel óviðurkvæmilegt að verið sé að gera skýrslur varðandi þátt Íslands í varnarsamvinnu vestrænna þjóða án þess að Íslendingar fylgist með því. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi verið of afskiptalitlir í þessum efnum, að okkur Íslendingum beri að fylgjast með umræðum um varnarviðbúnað mun betur en við höfum gert og við eigum sjálfir að vega og meta hvaða ráðstafanir eru gerðar hér á landi okkur til varnar, öryggi okkar til halds og trausts. Í því felst að við hljótum að byggja upp innan okkar eigin vébanda meiri og betri sérfræðiþekkingu en við höfum enn yfir að ráða eða höfum notfært okkur a.m.k.

Það fer ekki hjá því að innan Atlantshafsbandalagsins og í umræðum milli manna og fulltrúa landa og í stofnunum, er fjalla um utanríkis- og öryggismál, séu gerðar ýmiss konar skýrslur og varpað fram margs konar hugmyndum sem ættað er að skýra viðhorfin í alþjóðamálum og stöðu einstakra landa hvað snertir öryggi þeirra ef til átaka kæmi eða til þess að koma í veg fyrir átök. Okkur Íslendingum ber skylda til að fylgjast mun betur en við höfum gert með öllum slíkum umræðum og gera okkar hug upp með tilvísun til eigin hagsmuna að þessu leyti. Það er ekki hægt í opnum þjóðfélögum vestrænna ríkja að koma í veg fyrir að einstakar stofnanir, félagssamtök, einstaklingar, fræðimenn eða jafnvel opinberar stofnanir, sem láta einkafyrirtæki fyrir sig vinna, fjalli um öryggismál á breiðum grundvelli og þar komi fram ábendingar um stöðu Íslands í einu eða öðru efni. En hitt er alveg ljóst, að samkvæmt varnarsamningnum höfum við Íslendingar fyrsta og síðasta orðið um allar ákvarðanir. Í þessu tilviki er þessi skýrsla ein af mörg hundruð, mörg þúsund skýrslum sem eru á sveimi og ber að líta á hana sem slíka. Hún er því ekki marktæk.

En að gefnu tilefni fsp., sem hér er um að ræða, svara ég því eindregið að ég tel ekki koma til greina eða vera á dagskrá uppsetningu eldflauga hér á Íslandi.