14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

Umræður utan dagskrár

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á yfirlýsingar hæstv. utanrrh. og sjútvrh. af hálfu ríkisstj. þess efnis, að ekki komi til greina og útilokað sé að eldflaugum slíkum sem þeim sem frá var greint í sjónvarpsfréttum í gærkvöld verði komið fyrir hér á landi. Það er ástæða til að fagna þessum yfirlýsingum ráðherranna. Það liggur þá ljóst fyrir að ekki er ágreiningur milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu um það mál sem er hér nú til umr. utan dagskrár.

Það liggur vitanlega einnig alveg ljóst fyrir að það erum við Íslendingar sem höfum lokaorðið um það, á hvern hátt varnarbúnaði er komið fyrir í okkar eigin landi. Við höfum neitunarvald m.ö.o. í því efni. Það kemur þegar ljóst og skýrt fram í 1. gr. varnarsamningsins, sem lögfestur var sama árið og varnarliðið kom hin að til lands 1951, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í þessu skyni [þ.e. varnarskyni] og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.“

Hér kemur mjög skýrt og glöggt fram að allur slíkur varnarviðbúnaður er seldur undir jáyrði Íslendinga. En þessi ákvæði 1. gr. varnarsamningsins vekja hins vegar til umhugsunar um atriði og efni sem nokkuð hefur verið drepið á í þessum umr. og nær raunar mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann, án þess að þau mál hafi nokkurn tíma fram gengið.

Eins og ég las í niðurlaginu er fjallað um varnir sem báðir aðilar eru ásáttir um að séu nauðsynlegar. Þess vegna vaknar sú spurning: Hvernig erum við Íslendingar í stakk búnir til að meta það á hverjum tíma hvers konar og hvaða varnir eru nauðsynlegar hér á landi? Það er þó ein meginforsendan í þessu efni og meginforsendan fyrir þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamvinnu við Bandaríkin að við séum sammála og ásáttir um nauðsyn varna landsins, í hvaða mynd þær birtast og í hvaða mynd þær eru. Við verðum að játa að við erum engan veginn í stakk til þess búnir, við höfum sáralitla og lélega aðstöðu til þess. Í utanrrn., varnarmáladeild, eftir því sem mér er best kunnugt, starfa engir sérfræðingar á sviði varnarmála, á sviði hermála eða á sviði friðarmála, eins og hv. þm. Svavar Gestsson nefndi þetta hér áðan. Þrátt fyrir að nú er komið á fjórða áratug síðan bandaríska varnarliðið kom hingað til lands, 35 ár síðan við gengum í Atlantshafsbandalagið, höfum við því miður ekki enn, þrátt fyrir þennan langa tíma, séð ástæðu til að koma okkur upp innlendri, íslenskri sérfræðikunnáttu, mönnum sem geta með ráðum sínum, ráðgjöf, veitt íslenskum stjórnvöldum hlutlausa, ef svo mætti að orði komast, ráðgjöf og álitsgerðir um nauðsyn varna Íslands á hverjum tíma, hverju beri þar að breyta, eða lagt hlutlaust mat á nýjar tillögur sem í þeim efnum koma frá Bandaríkjunum eða frá Atlantshafsbandalaginu.

Það dæmi sem hér er á dagskrá í dag er einmitt dæmi um hver nauðsyn er að geta tekið slík mál til skoðunar og athugunar út frá sérfræðikunnáttu en ekki aðeins pólitískum ákvörðunum. Í því efni er ég ekki að segja að til greina hafi komi nokkur vafi varðandi þau áform sem hér eru til umr. Það hefur verið þegar tekinn af allur vafi í þeim efnum. En hitt er ljóst, að það er ekki sæmandi fullvalda og sjálfstæðri þjóð, sem sjálf rekur ekki varnir sínar heldur verður að byggja í þeim efnum á samvinnu við eitt af stórveldum veraldar, að búa svo fátæklega um hnútana að innan hennar vébanda, í hennar stjórnarstofnunum sem um þessi mál fjalla, sé ekki fyrir hendi sú lágmarkssérfræðiþekking að unnt sé að leggja innlent, íslenski, mat á þau áform, þann varnarviðbúnað sem er í landinu á hverjum tíma.

Á þessu hlýtur að verða breyting og verður að verða breyting. Um þetta hefur verið talað af hálfu forustumanna í utanríkismálum í langan tíma, af hálfu alþm. einnig, en ekkert hefur gerst. Þess vegna var ánægjuefni að hlýða á ummæli hv. utanrrh. hér í dag um þetta atriði og þá ekki síður ummæli hv. þm. Svavars Gestssonar. Í báðum þessum ummælum kom fram skilningur á brýnni nauðsyn athafna á þessu sviði þó svo á nokkuð mismunandi hátt væri.

Ekki skal ég leggjast gegn því að við komum okkur upp sérfræðingum á sviði friðarmála, og víst er það mikil nauðsyn, og það er alveg rétt að öryggismálanefndin hefur unnið að fræðilegum könnunum og útgáfu á merkum álitsgerðum almennt um stöðu Íslands í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og horfum í því efni, en hér þarf í rauninni miklu meira til. Við þurfum hér bein sérfræðileg ráð, við þurfum að koma okkur upp einum eða fleiri sérfræðingum í varnar- og hermálum, sem starfi í varnarmáladeild utanrrn. og ráði okkur heilt í þeim efnum. Ég held að lengur ætti ekki að draga framkvæmdir í þessu efni. Það virðist vera vilji fyrir hendi bæði innan stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar. Það mál sem hér er með réttu á dagskrá í dag ætti að verða tilefni til þess að menn létu af biðinni, en hæfu aðgerðir í þá átt sem ég hef gert hér að umtalsefni.