14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Kjartani Jóhannssyni, Pétri Sigurðssyni og Kristínu Halldórsdóttur, að endurflytja frv. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt en frv. felur það í sér að létta undir með þeim sem hafa veruleg útgjöld vegna tannlækninga. Lagt er til að skattstjóri veiti sérstaka skattaívilnun þegar svo stendur á að gjaldþol skerðist verulega vegna mikilla útgjalda vegna tannviðgerða. Eins og fram kemur í greinargerð með þessu frv. var frv. fellt á 105. löggjafarþingi við 2. umr. málsins í fyrri deild, en heilbr.- og trn. Nd. sem fjallaði um málið mætti með samþykkt þess.

Þáverandi heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson upplýsti í umr. um þetta mál að hann hygðist breyta reglugerð almannatrygginga á þann hátt að greitt yrði 20% tanntæknakostnaðar fyrir alla þá sem almannatryggingar höfðu ekki greitt fyrir áður. Ljóst var af umr. að þessi fyrirætlan sem ákveðin hafði verið í ríkisstj. um breytingar á þessari reglugerð almannatrygginga hafði áhrif á afstöðu þm. við atkvæðagreiðslu um þetta frv. sem þá var fellt í Nd. Í Alþingistíðindum 17. hefti 1982–1983 gera nokkrir þm. grein fyrir atkvæði sínu um þetta frv. og hjá nokkrum þeirra, m.a. hæstv. núverandi heilbr.- og trmrh. og hæstv. núverandi viðskrh., kemur fram að þeir greiða atkvæði gegn frv. á þeirri forsendu að fyrir lægi að breyta ætti reglugerð sem heimilaði 20% þátttöku almannatrygginga í tannlækningum.

Ekki sakar að minna á að núverandi fjmrh. Albert Guðmundsson greiddi atkv. með því að sú leið yrði farin sem lögð er til í þessu frv. Þessi reglugerð var síðan gefin út 11. apríl 1983. Hún heimilaði 20% þátttöku almannatrygginga í tannlækningakostnaði og átti hún að koma til framkvæmda 1. júní 1983. Sú reglugerð var síðan felld úr gildi 31. maí s.l. af núverandi hæstv. heilbr.- og trmrh. og komst þessi skipan mála því aldrei til framkvæmda.

Með tilliti til þess sem ég hef hér greint er það mat okkar flm. þessa frv. að full ástæða sé til að bera þetta frv. fram á nýjan leik hér á hv. Alþingi, sem heimilar skattaívilnun þegar sérstaklega stendur á vegna mikilla útgjalda vegna tannviðgerða og gjaldþol hjá viðkomandi skerðist verulega af þeim sökum. Enda er ekki í augsýn að sú skipan mála komist á að almannatryggingar greiði 20% af tannlæknakostnaði eins og margir hv. þm. héldu að stæði fyrir dyrum þegar frv. þetta sem nú er til umræðu á ný var fellt á hv. Alþingi. Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að fara einnig í örstuttu máli inn á ýmsar athugasemdir sem komu fram við umr. um þetta mál á síðasta þingi.

Í fyrsta lagi var gagnrýnt að erfitt væri í framkvæmd að meta hver skattaívilnun ætti að vera og hvar draga ætti mörkin þegar talað er um veruleg útgjöld vegna tannviðgerða. Í þessu sambandi skal á það bent að í 66. gr. skattalaganna eru talin upp ýmis ákvæði sem skylda skattstjóra til að veita skattaívilnun þegar svo stendur á sem þar er upp talið, svo sem ef ellihörleiki, veikindi eða slys hafa skert gjaldþol manns verulega, ef á framfæri manns er barn sem haldið er langvinnum sjúkdómi eða er fatlað og veldur framfæranda verulegum útgjöldum og fleiri ákvæði sem þar eru talin upp. Þau koma fram í greinargerð með þessu frv. og ég sé ekki ástæðu til að telja þau hér upp. Með öll þessi ákvæði skal fara á þann veg að nánari ákvæði um skilyrði fyrir ívilnun skulu sett af ríkisskattstjóra. Svo er einnig um þann nýja lið sem hér er lagt til að bætist við 66. gr. skattalaganna.

Í máli form. heilbr.- og trn. á síðasta Alþingi, hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, kom fram eftirfarandi sem ég sé ástæðu til að lesa upp, með leyfi forseta:

„Ævar Ísberg sem sat fund með nefndinni svaraði því til vegna fyrirspurna frá okkur um hvort þetta ylli vandræðum í framkvæmd að þetta heimildarákvæði ylli ekki meiri vandkvæðum í framkvæmd en hin sjö. Framkvæmdavaldinu er falið að setja reglur um hvernig með þessar heimildir skuli farið. Hér eru því engin nýmæli á ferðinni, hér er ekki verið að gera neitt sem ekki hefur verið gert áður og það er alveg óþarfi að fara með þetta frv. um slíkt.“

Af þessu sést að skattayfirvöld telja ekki að það ákvæði sem hér er lagt til verði neitt erfiðara í framkvæmd en önnur þau ákvæði sem þegar eru fyrir í skattalögunum. Í annan stað má benda á að þegar þm. telja, eins og fram kom á síðasta þingi, að eðlilegra væri að almannatryggingar tækju þátt í greiðslu tannlæknakostnaðar en að veita skattaafslátt, þá sé ég ekki annað en að þetta gæti farið saman jafnvel þótt sú skipan kæmist á síðar meir að almannatryggingar greiddu hluta af öllum tannlæknakostnaði í landinu.

Þar kemur fyrst til að útgjöld vegna mikilla tannviðgerða geta verið svo mikil undir sérstökum kringumstæðum að það réttlæti skattafrádrátt jafnvel þótt almannatryggingar greiddu hluta kostnaðar. Enda eru fyrir því fordæmi að jafnvel þótt greitt sé af sjúkratryggingum almannatrygginga vegna veikinda og slysa og lífeyri til aldraðra þá eru engu að síður ákvæði sem skylda skattstjóra að veita skattaívilnun þegar ellihrörleiki, veikindi eða slys hafa skert gjaldþol manns verulega. Löggjafinn hefur í því tilfelli séð ástæðu til að veita skattaívilnun þegar sérstaklega stendur á, jafnvel þó einnig sé greitt af sama tilefni af sjúkra- og lífeyrisdeild almannatrygginga.

Í þriðja lagi vil ég benda á að gagnrýnt var á síðasta þingi að frv. næði ekki til þeirra, sem ekki greiða tekjuskatt og því ekki lægstlaunuðu hópanna. Úr þessu mætti bæta ef ónýttur persónuafsláttur yrði borgaður út líkt og á sér stað um barnabætur, en um þetta hafa þm. Alþfl. flutt frv.

Ég tel því, herra forseti, að þegar á allt þetta er litið sem ég hef hér tilgreint og einnig kemur fram í grg. frv. þá sé það fyllilega eðlilegt og réttmætt að freista þess á nýjan leik að bera þetta mál fram á hv. Alþingi og um það geti náðst samstaða nú þegar mál hafa skipast á þann veg sem ég hef hér lýst.

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég til að frv. þessu yrði vísað til hv. heilbr.- og trn., sem ég taldi eðlilegt. Raunar má segja að mikið af þeirri umr. á hv. Alþingi um þetta mál á síðasta þingi hafi snúist um að vísa hefði átt málinu til fjh.- og viðskn. en ekki heilbr.- og trn. Þó að ég telji að málið eigi eins heima í heilbr.- og trn. eins og fjh.- og viðskn., mun ég til þess að forða því að umr. fari að snúast um hvaða n. eigi að fjalla um málið eins og gerðist á síðasta þingi ekki gera till. um heilbr.- og trn., en láta forseta það eftir að gera till. um hvert málinu verði vísað, í hvaða n. mál þetta fer og fær umfjöllun.