15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Á þskj. því sem fsp. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er tilgreind á er 1. spurningin: „Hvers eðlis eru þau mannvirki sem áform eru um að reisa á Norðausturlandi og Vestfjörðum á vegum bandaríska hersins?"

Svarið er: Engin formleg beiðni hefur komið fram, en fulltrúar varnarliðsins hafa sýnt áhuga á að reisa ratsjárstöðvar í stað þeirra sem lagðar voru niður á Vestfjörðum og Norðausturlandi fyrir rúmum 20 árum. Nýjar stöðvar yrðu þó mun einfaldari í rekstri en þær gömlu voru. Í stað á annað hundrað manna starfsliðs væru 10–15 manns í starfi við nýjar stöðvar og starfræksla þeirra gæti verið í höndum Íslendinga, svipað og nú á sér stað við Lóranstöðina á Gufuskálum.

Samhliða ratsjárstöðvum á Vestfjörðum og Norðausturlandi er talin þörf á endurnýjun eða endurbyggingu stöðvarinnar á Suðausturlandi, á Stokksnesi, og fækkaði þá í starfsliði þeirrar stöðvar til muna og Íslendingar tækju við rekstri stöðvarinnar.

Frá því að ratsjárstöðvarnar á Langanesi og Straumnesfjalli voru lagðar niður hafa ratsjárflugvélar af mismunandi gerðum verið notaðar til að brúa að hluta það bil er skapaðist er stöðvarnar hættu að starfa. Þetta fyrirkomutag er langt frá því að vera fullnægjandi, enda megnar núverandi flugvélakostur engan veginn að halda uppi stöðugu eftirliti á umræddum stóðum. Til þess þyrfti bæði fjölgun flugvéla og starfsliðs svo um munar. Á sama tíma hefur aðflug í námunda við Ístand úr norðri frá Kólaskaga aukist stórlega.

Í öðru lagi er spurt: „Hafa farið fram einhverjar viðræður um slík mannvirki?"

Svarið er: Viðræður hafa átt sér stað milli mín og samstarfsmanna minna annars vegar og sendiherra Bandaríkjanna og yfirmanns varnarliðsins hins vegar um hvernig best yrði staðið að athugun málsins.

Utanrrn. hefur nýlega beðið Þorgeir Pálsson dósent og flugverkfræðing að annast þessa könnun af hálfu okkar Íslendinga í samráði við fulltrúa frá Landhelgisgæslu, Pósti og síma og Flugmálastjórn. Þessi athugun nær m.a. til tæknilegra þátta er kynnu að koma framangreindum stofnunum að góðu gagni ef stöðvar yrðu reistar, svo sem varðandi stjórn á umferð almennra flugvéla á innanlandsleiðum og í millilandaflugi og varðandi upplýsingaöflun fyrir landhelgisgæsluna.

Í þriðja lagi er spurt: „Hafa verið gerðar rannsóknir til undirbúnings staðarvali fyrir slík mannvirki, og ef svo er, hefur það þá verið með leyfi utanrrn?"

Svarið er: Utanrrn. heimilaði varnarliðinu svokallaðar sjónhornsmælingar eða langdrægismælingar, en þær voru gerðar í ágúst og sept. s.l. á ýmsum stöðum á landinu. Frekari athuganir eru nauðsynlegar og verða þær gerðar í samráði við ráðuneytið og tilkvadda tækniaðila. Haft verður samband við heimamenn, ef leyfis þeirra þyrfti að afla eða ef líkur væru á að einhver röskun yrði þessu samfara, sem ekki er búist við.

Engar niðurstöður liggja fyrir um staðarval á hugsanlegum stöðvum, en ýmislegt bendir til þess að gömlu staðsetningarnar á Vestfjörðum og Norðausturlandi gætu verið heppilegasti kosturinn, enda voru þeir staðir ekki valdir af handahófi á sínum tíma.

Að gefnu tilefni, herra forseti, þeirrar fyrirsagnar sem hv. fyrirspyrjandi velur fyrirspurnum sínum, þar sem hann segir að fyrirspurnirnar til utanrrh. fjalli um hernaðarmannvirki á Norðausturlandi og Vestfjörðum, vil ég láta það koma skýrt og greinilega fram að að mínu mati er hér alls ekki um hernaðarmannvirki að ræða. Hér er um að ræða ratsjárstöðvar sem til þess eru nýttar að fylgjast með umferð umhverfis og í nágrenni við Ísland. Það er skylda okkar Íslendinga sem sjálfstæðar þjóðir að fylgjast með umferð umhverfis landið. Við hljótum að gera okkur grein fyrir því að nær daglega koma hingað flugvélar óboðnar upp að lofthelgi Íslands. Það er ástæða til að láta þær vita að við höfum yfirráð yfir okkar landi og lofthelgi. Til þess þurfum við ratsjárstöðvar. Ástæðurnar til þess að ratsjárstöðvarnar voru lagðar niður fyrir 20 árum voru þær, að menn héldu að með stöðvunum hér sunnanlands svo og með flugvélum væri hægt að fylgjast með flugumferð umhverfis landið, en um svo vaxandi þunga flugvélaferða frá Kótaskaga til Íslands hefur verið að ræða á þessum tíma að þörf gerist fyrir frekara eftirlit á þessu sviði.

Hér hefur þá engin ákvörðun verið tekin. Málið er á undirbúnings- og athugunarstigi, en jafnvel á undirbúnings- og athugunarstigi hefur engin leynd hvílt yfir þessu máli að einu eða neinu leyti og það hafa ekki verið gefin nein loðin svör af hálfu utanrrh. varðandi þetta mát, heldur skýrt hreinskilnislega frá því hvað um er að ræða og hvað aðhafst hefur verið. Þessi mál hafa ekki komið til kasta ríkisstj. og það er ekki tímabært fyrr en athugun og undirbúningskönnun er lokið, en þó hefur verið skýrt frá efni málsins með líkum hætti og ég hef gert hér nú og raunar fyrr að gefnu tilefni á ýmsum mannamótum undanfarnar vikur og mánuði.

Það var fróðlegt að heyra hv. fyrirspyrjanda tala um hve langt flugvélar frá Kólaskaga gætu flogið og hvar átakapunkturinn mundi verða. Hann orðaði það svo, „að Sovétríkin ættu þess einan kost að skjóta niður þessar flugvélar í nágrenni Íslands.“ Mér þykir hernaðarhugur hv. fyrirspyrjanda vera óhugnanlegur. Við erum hér á Íslandi með varnarviðbúnað og eftirlit einmitt til þess að koma í veg fyrir að til styrjaldarátaka komi. Ég held að það sé vænlegasti vegurinn til að forða stríði að vera viðbúinn því að menn sæki á úr norðri og austri, þar sem eitthvert tómt rúm er til staðar. Ég vonast til að þessar ratsjárstöðvar verði okkur að góðu gagni á friðartímum og geti stuðlað að því að umferð í lofti og á legi geti verið hættuminnst og öruggust og verði síður en svo til þess að hvetja til styrjaldarátaka, heldur verði þvert á móti til þess að koma í veg fyrir að til styrjaldarátaka komi nokkurn tíma.