15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tilefni af þessum umr. og þeim upplýsingum hæstv. utanrrh. að um þetta mál hafi lítið verið fjallað í ríkisstj. er nauðsynlegt að upplýsa hið háa Alþingi um það hver afstaða stjórnarflokkanna er í þessu efni, því að ég kannast ekki við að það liggi hér fyrir. Mér er kunnugt um að sveitarstjórnir á Norðurlandi og Vestfjörðum hafa lýst áhyggjum sínum yfir þeim áformum að reisa þessi hernaðarmannvirki radarstöðvanna. Prestafélag Vestfjarða hefur gert fræga ályktun um þetta mál. Það eru því margir aðilar sem hafa af því áhyggjur sem hér er á ferðinni, og það er nauðsynlegt að fá það fram, úr því að málið hefur ekki verið rætt í ríkisstj. og komist þar að niðurstöðu, hver er afstaða Framsfl., sem er annar stjórnarflokkanna, eins og kunnugt er.

Telur Framsfl. nauðsynlegt og brýnt að koma upp þessum hernaðarmannvirkjum á Norðurlandi, Norðausturlandi og Vestfjörðum sem hér hefur verið rætt um í dag? Og það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar með hvaða hætti sú afstaða framsóknarmanna, sem hér kann að verða lýst, hefur verið samræmd þeirri afstöðu sem áður hefur komið fram frá ýmsum framsóknarmönnum í þessu efni, sem hafa látið í ljós verulegar áhyggjur af þeim hugmyndum sem hér eru uppi.

Ég held að það fari ekkert á milli mála, herra forseti, að hér er um að ræða hernaðarmannvirki, hér er um að ræða hugmyndir að stöðvum til þess að þjóna hernaði Bandaríkjamanna hér á landi. Og ég held að það sé ekki skynsamlegt af hæstv. utanrrh. eða nokkrum manni hér að reyna að breiða yfir tilganginn með þessum stöðvum. Það er auðvitað verið að reyna að færa hernámið yfir landið allt þannig að Ísland breytist að stærri hluta en verið hefur í herstöð. Það eru ákaflega alvarleg tíðindi og það er nauðsynlegt að það sé rætt niður í kjölinn hér á landi. Af þeim ástæðum m.a. hef ég borið fram þá fyrirspurn um afstöðu annars stjórnarflokksins sem ég kynnti hér áðan.