15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjandi að fróðlegt var að hlýða hér á mál hæstv. forsrh. sem hampaði möguleikum á að nota mannvirki af því tagi sem hér um ræðir til þess að varna slysum. Það er orðið nokkuð langt gengið, ef á að fara nota málflutning af því fagi til þess að færa út hernaðarumsvif Bandaríkjamanna hérlendis. Mér þætti vænt um að heyra það frá fleiri framsóknarmönnum, hvort þeir styðja þennan málflutning og þá tvíhyggju sem kom fram í máli hæstv. forsrh. Ég hlýt einnig að lýsa undrun á því að svo mikilvægt mál, þó á athugunarstigi sé, skuli ekki hafa verið rætt í ríkisstj. og þá að frumkvæði framsóknarmanna ef hæstv. utanrrh. hefur ekki séð ástæðu til að taka það þar upp.

Ég vil einnig upplýsa að það er víðar en í nefndum landshlut:um sem mótmæli hafa komið fram gegn þessum áformum. Á Austurlandi hefur verið um þetta ályktað, m.a. á kjördæmisþingi Alþb. þar, og á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi um mánaðarmótin ágúst-sept. s.l. kom fram tillaga frá einum af bæjarfulltrúum Sjálfstfl. þar í fjórðungi, nánar tiltekið frá Hrafnkeli A. Jónssyni bæjarfulltrúa Sjálfstfl. á Eskifirði, um að fordæmd yrðu harðlega öll áform um byggingu radarstöðva og útfærslu hernaðarmannvirkja hérlendis. Uppi varð fótur og fit á fundinum og af hálfu fundarstjóra, sem ég ætla ekki að tíunda úr hvaða flokki voru, var málinu vísað frá af verulegri hörku. Það er því ljóst að ekki einu sinni innan flokks utanrrh. er samstaða um þau áform sem birtast í þeim athugunum sem hér hefur verið stofnað til.