15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. bentu á það því til stuðnings að eðlilegt væri að byggja hér radarstöðvar að þær væru ekki ósvipaðar þeirri stöð sem væri á Gufuskálum á Snæfellsnesi.

Í fyrsta lagi er það nú svo að Gufuskálastöðin hefur ekki það til síns ágætis sem stuðningsmenn þessara stöðva tala um, þ.e. að hún sé eftirlitsstöð. Hún er staðsetningarstöð og beint hernaðarmannvirki í þeim skilningi að hún er fyrst og fremst til þess ætluð að auðvelda staðsetningu kafbáta og flugvéla sem eru hér á leiðinni umhverfis landið. Þannig að það ágæti þessara stöðva sem fjölyrt er um hér í umr., að þetta séu eftirlitsstöðvar, á ekki við um Gufuskálastöðina, sem er vitaskuld hernaðarmannvirki fyrst og fremst þótt hún sé um leið þjónustufyrirtæki við íslenska fiskiskipaflotann. En aðalhlutverk Gufuskálastöðvarinnar er náttúrlega fyrst og fremst það að geta staðsett hernaðartæki hér í kringum landið.

Á hinn veginn er það að stöðin á Gufuskálum er mönnuð íslensku starfsliði. Vitaskuld breytir það ekki neinu um eðli stöðvarinnar, ekki nokkurn skapaðan hlut, hvort þar eru 100 menn amerískir eða 10 menn íslenskir. Það breytir þar engu um. Eðli stöðvarinnar er hið sama eftir sem áður. Þessar stöðvar, jafnt Gufuskálastöðin og þær stöðvar aðrar sem við erum að ræða hér, eru allar fyrst og fremst hernaðarmannvirki og verða það hvort sem þær geta að einhverju leyti þjónað íslenskum aðstæðum og verið þjónustufyrirtæki fyrir íslenska aðila eða ekki.