15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. forseti. Hv. 11. þm. Reykv. varpaði fram þeirri fsp. til mín, hvaða gagn ég teldi verða af ratsjárstöðvunum í ófriði í norðurálfu. Mér finnst þetta að vísu merkileg fsp., því að hún sagði réttilega að ég hefði lagt megináherstuna á nytsemi ratsjárstöðvanna á friðartímum. Ég undirstrika enn á ný að ég tel nytsemi ratsjárstöðvanna á friðartímum afar mikilvæga bæði til þess sjálfsagða eftirlits sem sjálfstæðri þjóð ber að hafa með umferð umhverfis land sitt og enn fremur til þess að fylgjast með og stjórna umferð á láði og legi.

En ef við eigum að hugsa okkur að til ófriðar drægi hér í norðurálfu, sem ég vil helst ekki hugsa mér að til komi, er auðvitað enn brýnni nauðsyn að við Íslendingar getum fylgst með umferð umhverfis landið og hvaða flugvélar séu að nálgast landið til þess að koma í veg fyrir að þær geti valdið hér eyðileggingu og dauða. En ég ítreka enn á ný að ég vil helst ekki hugsa mér þennan möguleika og því er afstaða mín til stöðu Íslands í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna byggð á því að það varnarbandalag komi í veg fyrir að til ófriðar dragi. Og ég tel að ratsjárvernd á Íslandi, fyrir Ísland og Íslendinga, sé mjög mikilvægur þáttur í því ð koma í veg fyrir að til ófriðar dragi á norðurslóðum.

Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Norðurl. e. Við skulum fara með gát. Við skulum kanna allar aðstæður mjög vel. En ég hygg að menn verði sammála hv. 4. þm. Reykv., Birgi Ísl. Gunnarssyni, þegar þeir kynna sér málið, um að hér sé ekki um aukin hernaðarumsvif að ræða, heldur minnkandi hernaðarumsvif, þar sem stöðvar eins og t.d. á Stokksnesi, sem núna eru mannaðar á annað hundrað Bandaríkjamönnum, verða mannaðar tíu Íslendingum og stöðin í nágrenni Keflavíkur verður mönnuð að mestu leyti Íslendingum. Og hernaðarmannvirki kalla ég ekki tvær stöðvar, annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Norð-austurlandi, sem mönnuð yrði hvor um sig tíu Íslendingum. Ég fæ því ekki séð annað en að við séum að draga úr umsvifum varnarliðsins hér á Íslandi með því raunar að við Íslendingar tökum við hlutverki því sem við höfum hingað til falið annarra þjóða mönnum að gegna —hlutverki sem ekki er hernaðarlegs eðlis þótt í því felist m.a. að fylgjast með því ef herflugvélar frá öðrum þjóðum gerast of nærgöngular við land okkar.

Það sem hér var sagt um Lóranstöðina á Snæfellsnesi er rétt að því leyti að til hennar var vitnað vegna þess að hún er mönnuð Íslendingum og undir íslenskri stjórn þar sem Póst- og símamálastjórnin er. Með sama hætti yrði um hinar nýju ratsjárstöðvar. Þeir Íslendingar sem hafa tilfinningu fyrir því að okkur beri sem sjálfstæðri þjóð að fylgjast með hverjir ferðast umhverfis landið okkar og gera okkur grein fyrir hverjir eru að færa sig alltaf meira og meira upp á skaftið til að nálgast land okkar að því er virðist eingöngu til að reyna á þolrifin í okkur og ganga úr skugga um hvort hér yrði eitthvað til varnar ef um raunverulega ásælni kynni í framtíðinni að vera að ræða ættu að óska eftir ratsjárvernd. Þeir Íslendingar sem ekki skilja þennan grundvallarþátt finnst mér því að ættu að hugsa sig betur um og átta sig á að hér er fyrst og fremst um ráðstafanir að ræða til verndar friði, daglegu friðsamlegu lífi á Íslandi, en lokaákvörðun er ekki tekin fyrr en ölI gögn liggja fyrir og könnun málsins hefur farið fram.