15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er alkunna að valdhafar beita stundum útgöngubanni að næturlagi vilji þeir hafa aga á þegnunum. Svo virðist sem Rússar vilji hafa útsýnisbann á frjálsum þjóðum. Hvenær töpuðu Íslendingar réttindum til að fylgjast með því sem er að gerast í hafinu sem þeir hafa sjálfir ákveðið að telja til sinnar landhelgi eða loftinu yfir því? Ég fæ ekki annað séð en að landhelgisgæslan íslenska þyrfti að eiga ratsjárstöðvar. Mín spurning er því ákveðin til Alþb.manna: Eruð þið reiðubúnir að leggja það til á fjárlögum íslenska ríkisins að við komum okkur upp ratsjárstöðvum á Vestfjörðum í eigu Íslendinga og undir umsjá Íslendinga til þess að koma í veg fyrir m.a. sjóslys á þessum svæðum — eða á það að vera allt annað flugöryggi sem gildir eftir að komið er yfir Snæfellsnes eða að því? Þessari spurningu þarf ég að fá svarað, því að þá fyrst eru menn reiðubúnir að hugleiða hitt: hvað við eigum að gera í samvinnu við aðra eða hvað við eigum ekki að gera í samvinnu við aðra.

Ég vara við þeim hugsunarhætti að það sé sjálfgefinn réttur erlendrar þjóðar að við megum ekki fylgjast með umferð í kringum landið. Mér er næsta óskiljanlegt á hvaða forsendum það geti verið ögrun. Eru sjónaukar yfir vissan styrkleika ögrun við útlendinga ef þeir eru notaðir af fjallatoppum hér við land? Hvar eru rökin fyrir þeim málflutningi að við megum ekki fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur? Við' hljótum að vilja fá skýr svör við þessu. Það er allt annað mál hvort við erum að byggja upp herstöðvar í þessu landi með erlendum hermönnum, eldflaugum og fallbyssum eða hvort við höfum áhuga á að fylgjast með því sem er að gerast í okkar umhverfi.

Ég tel fyrir mína parta að við þurfum að fylgjast með öllum skipaferðum, m.a. vegna þess að það er vitað að erlendar borgir í Evrópu t.d. láta fylla skip af úrgangi til að sökkva úrganginum í sjóinn alltaf lengra og lengra frá meginlandi Evrópu.