17.10.1983
Neðri deild: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

30. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessu frv., sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur mælt fyrir, spyrja að því hvaða áform hæstv. ríkisstj. hefur varðandi breytingar á lögum um almannatryggingar, sem snerta fæðingarorlof almennt.

Á síðasta þingi greindi núv. hæstv. félmrh. frá því, að hann hefði á því brennandi áhuga að bæta mjög úr í þessu efni og á kosningafundum í Vesturlandskjördæmi mun hann hafa greint frá því, að þeir sem helst stæðu fyrir í þessum málum væru þeir sem þá fóru með málaflokkinn, þáv. heilbrrh. og flokksfélagar hans.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hefur hann flutt í ríkisstj. till. um að lagfæra reglur um fæðingarorlof, þannig að sérstaklega verði komið til móts við heimavinnandi húsmæður? Ef hann hefur ekki gert það, hverju sætir það þá?