15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

56. mál, norrænt sjónvarpssamstarf

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Á þingi Norðurlandaráðs í marsbyrjun 1982 var Nordsat-málið rætt í ljósi þess að Danir höfðu þá fyrir skömmu tilkynnt að þeir hefðu ekki hug á þátttöku í frekari athugun þess máls. Að tillögu menningarmálanefndar ráðsins samþykkti þingið ályktun þar sem því var beint til ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar að hefja viðræður í því skyni að gera samning um áframhaldandi þróun útvarps- og fjarskiptasamstarfs er styddist við gervitunglakerfi. Skyldi Norðurlandaráði gerð grein fyrir framvindu málsins og hugsanleg ákvörðun um að hrinda í framkvæmd hljóðvarps-, sjónvarps- og fjarskiptasamstarfi með notkun gervitungla borin undir þing ráðsins.

Í framhaldi af þessum málalyktum á þingi Norðurlandaráðs samþykkti Ráðherranefnd Norðurlanda (menntamála-, samgöngu- og iðnaðarráðherrarnir) á fundi sínum í Stokkhólmi 27. mars 1982 að hefja með þátttöku ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar rannsókna- og undirbúningsvinnu er gera mætti kleift að taka að tveimur árum liðnum ákvörðun um hvort gerður skuli samningur milli þessara þjóða um uppbyggingu gervitunglakerfis í áföngum til dreifingar á hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrám og til annarrar fjarskiptaþjónustu sem kerfið kann að þykja hentugt til. Athugunin á að beinast að tæknilegum, fjárhagslegum, dagskrárlegum og lögfræðilegum atriðum.

Ríkisstjórn Íslands ákvað, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að eiga aðild að þessari athugun. Starfið að könnuninni hófst sumarið 1982 og hefur verið fram haldið síðan. Enn er miðað við að niðurstöður liggi fyrir vorið 1984.

Í fyrsta lið fsp. er spurt hvort íslensk stjórnvöld hafi tekið afstöðu til hugmynda um aðild að Tete-x-þætti Nordsat-kerfisins eða tilboðs Norðmanna, eins og fyrirspyrjandi orðar það, um afnot af Eutelsat-sendingum til bráðabirgða.

Nú skal vikið að þessari spurningu og í leiðinni gerð stuttlega grein fyrir þeim fyrirbærum sem leynast að baki þessum torkennilegu heitum.

Tele-x er nafnið á gervitungli sem Svíar ákváðu fyrir nokkrum árum að láta smíða í tilraunaskyni til ýmiss konar fjarskiptanota, m.a. í þágu iðnaðar. Norðmenn hafa gerst aðilar að þeim áformum að litlu leyti og einhver aðild Finna hefur verið til umræðu. Í áætluninni um Tele-x er miðað við að tunglinu verði skotið á loft árið 1986. Gert er ráð fyrir að í því verði 2–3 rásir fyrir sjónvarpssendingar. Skýrt ber að taka fram að engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort og þá með hvaða hætti Tele-x áætlunin verði liður í framkvæmd hugsanlegs Nordsat-samstarfs. Í samþykkt Ráðherranefndar Norðurlanda um Nordsat-könnunina segir aðeins að vinnunni beri að haga þannig að hagnýtt verði sú reynsla og sú færni sem fengist hafi í starfi að þróun annarra gervitunglaáætlana, sérstaklega Tele-x, og enn fremur beri að leiða í ljós að hvaða marki kunni á byrjunarstigi að mega nýta Tele-x gervitunglið. Það er hins vegar ljóst að af sænskri hálfu er lögð nokkur áhersla á að hugsanlegt Nordsat-samstarf tengist Telex-áætluninni náið, m.a. tæknilega, en ekkert liggur enn fyrir um hvaða samstaða næst í því efni.

Áætlunin um Tele-x gerir, eins og fyrr segir, ráð fyrir að gervitungl komist í notkun á árinu 1986, en sérstakt gervitungl samkvæmt hugsanlegri Nordsat-áætlun gæti hins vegar komist á loft í fyrsta lagi árið 1988. Af þessum sökum mundu Íslendingar að óbreyttu þurfa að bíða samnorrænna sendinga a.m.k. tveimur árum lengur en þær þjóðir sem eru aðilar að Tele-x.

Eins og Tele-x hefur verið hannað ná sendingar frá því ekki til Íslands. Lengst af var og staðhæft að ekki væri raunhæfur möguleiki á því að breyta áætluninni á þann veg að Íslendingar gætu notið sendinganna. Fyrir atbeina þeirra norrænu aðila sem vinna að Nordsat-könnuninni var þó tekin sú ákvörðun nú í júní að sænska geimtæknistofnunin (Rymdbolaget) gerði athugun á hugsanlegum breytingum á Tele-x í þessu skyni. Skýrslu um þessa athugun var skilað í sept. s.l. Kemur þar fram að slíkar breytingar ætti að vera kleift að gera með öllu minni tilkostnaði en hingað til hefur verið látið í veðri vaka. Bent var á að það gæti orðið um 26 millj. sænskra kr. Jafnframt var þó talið nauðsynlegt að afstaða til þess hvort í breytingarnar yrði ráðist yrði tekin mjög skjótlega, eða fyrir 1. nóv., þar sem þær mundu ella hafa í för með sér meiri kostnað og framkvæmdatöf.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir nokkrum mismunandi kostum um breytingar á tækniforsendum Tele-x þannig að sendisvið gervitungls tæki til Íslands. Sá kostur sem raunhæfastur hefur verið talinn, m.a. að mati Nordsat-tækninefndarinnar, felur m.a. í sér eftirfarandi:

Möguleikar fengjust hér á landi á móttöku allra sjónvarpssendinga frá Tete-x, en að líkindum yrði um að ræða svonefnda „óbeina“ móttöku. Ástæðan er sú að móttökustyrkur yrði það lélegur að talið er að þurfa mundi viðtökuloftnet er væru 1.5–1.8 m í þvermál, og svo viðamikinn búnað er hæpið að notendur setji upp hver hjá sér. Yrði því að gera ráð fyrir kapalkerfum með sameiginlegri móttöku eða þá dreifingu um endurvarpsstöðvar. Um gæti orðið að ræða 2–3 sjónvarpsdagskrár, þ.e. fleiri en líklegt er að í boði verði í geisla til Íslands á fyrsta stigi Nordsat-áætlunar ef til kemur.

Hins vegar er ekki gert ráð fyrir möguleika á beinum dagskrársendingum frá Íslandi um Tele-x. Kostnaður við breytingar samkv. þessu nefndi ég áðan að væri um 26 millj., eftir því sem hér segir í skráðum tölum hjá mér, miðað við núverandi verðlag. Um greiðslu yrði að semja við aðilana að Tele-x-áætluninni. Breytingarnar mundu hafa í för með sér nokkra rýrnun móttökugæða annars staðar á Norðurlöndum og valda minni háttar töf, tæpast þó meira en þriggja mánaða, á framkvæmd Tete-x-áætlunarinnar. Lögð var áhersla á að þetta mat á kostnaði og framkvæmdatöf væri háð því að ákvörðun yrði tekin ekki síðar en í nóvemberbyrjun. Nú hefur reyndar nýlega verið haft samband við okkur frá Svíþjóð og menn kveðast þar tilbúnir til að framlengja frestina og hafa óskað viðtals af Íslands hálfu um þetta atriði. Ráðuneytisstjóri menntmrn., sem um þessar mundir sækir fund í Helsingfors, tók að sér að ræða óformlega við Svía samkvæmt þeirra ósk. Er skýrslu hans að vænta í vikulokin.

Það ber að leggja áherslu á að sá kostnaður sem hér hefur verið rætt um er einungis tengdur sjálfum breytingunum á Tele-x-áætluninni. Þá er ótalinn allur kostnaður við móttöku hér á landi svo og hugsanleg útgjöld vegna afnota af dagskrárefni, sem að vísu hefur ekki komið enn til umræðu. Niðurstaðan af athugun þessa máls á vegum þeirra rn. sem tengst hafa Nordsat-könnuninni varð sú, að hinn 8. þ.m. var send til viðkomandi aðila á Norðurlöndum tilkynning um afstöðu Íslands þessa efnis:

„Íslensk stjórnvöld hafa haft til athugunar skýrslu geimtæknistofnunarinnar sænsku (Rymdbolaget): Q 2/7 2 TV till Island via Tele-x, tekniska alternativ och deras kostnads- och tidplaneeffekter," eins og það heitir, dags. 14. sept. 1983. Af því tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

Af Íslands hálfu er metið mikils að gerð hefur verið athugun á og lagðar fram tillögur um hvernig unnt væri að breyta tækniforsendum Tele-x-áætlunarinnar í því skyni að sjónvarpssendingar um gervitunglið Tele-x næðu til Íslands. Að athuguðu máli er það þó niðurstaða íslenskra stjórnvalda að ekki beri að fara fram á að ráðist skuti í þessar breytingar, sem mundu hafa í för með sér nokkurt óhagræði fyrir aðila Tete-x-áætlunarinnar, þ.e. lakari tæknigæði sendinga og framkvæmdatöf. Þær ástæður sem þessi afstaða er reist á eru einkum tvenns konar: Annars vegar sú óvissa sem hlýtur að vera um kostnaðarhlið málsins, miðað við að stefnuákvörðun þurfi að taka nú þegar, áður en tök eru á að kanna frekar ýmsa kostnaðarþætti og fjármögnun. Hins vegar eru tæknilegar ástæður. Sá kostur sem talinn er raunhæfastur (2a) miðast við óbeina (semidirekt) móttöku fyrir kapalkerfi. Mjög mikið skortir á að kapalvæðing sé hér á landi komin á það stig að slík tilhögun kæmi að viðhlítandi notum. Jafnframt er nokkuð augljóst að tenging við Tele-x á þessum grundvelli mundi í raun merkja að þátttaka Íslands í hugsanlegu Nordsat-samstarfi yrði bundin til frambúðar við óbeina móttöku. Af íslenskri hálfu hefur jafnan verið talið að sú tilhögun væri ekki hentug fyrir landið allt vegna þess hvernig byggð þess er háttað.“

Þar með er svarað fyrra atriðinu í þessum lið og nú skal vikið að síðara atriðinu.

ECS er fjarskiptagervitungl sem ráðgert er að taka í notkun á vegum Eutel-sat, samtaka símamálastofnana í Vestur-Evrópu. Meginhlutverk ECS verður á sviði símaþjónustu, en í gervitunglinu eru magnarar umfram þörf fyrir símarásir, og hefur aðildarlöndunum verið gefinn kostur á að leigja þá til annarrar notkunar. Norðmenn hafa tryggt sér möguleika á að leigja einn magnara sem nota mætti fyrir tvær sjónvarpsrásir. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég verið víst að hætta hér, án þess að hafa svarað síðasta lið fsp. Í raun og veru eru þetta þrjár fsp., bornar fram undir einum dagskrárlið. En ég skal lesa það sem ég á eftir með ýtrasta hraða, því að þetta er allt saman niður skrifað. (Forseti: Já, hæstv. ráðh. getur haft hvort heldur hann vill, halda áfram ræðunni og þá verður það sem er fram yfir dregið frá í síðari ræðutíma, eða skipta ræðunni.) Hve langur er síðari ræðutími? (Forseti: Tíu mínútur.) Ég kann þá betur við og mér þykir það þinglegra að svara þeirri fsp. sem hér er lögð fram þinglega. Það hefði e.t.v. farið í þetta lengri tími ef það hefði verið utan dagskrár, en hinni þinglegu fsp. verður svarað.

Hér segir að Norðmenn hafi tryggt sér möguleika á að leigja einn magnara sem nota mætti fyrir tvær sjónvarpsrásir. Raunar er það svo að samningar hafa ekki verið gerðir um þetta milli Norðmanna og eigenda gervihnattarins, þannig að ekki er fullráðið hvort úr þessu verður. En ef til kemur er líklegt að önnur rásin verði notuð til að senda dagskrá norska sjónvarpsins til Svalbarða og jafnvel til norskra olíuborpalla á Norðursjó. Komið hefur til athugunar hvort hugsanlegt væri að hin rásin verði notuð til sjónvarpssendinga á samnorrænum grundvelli, áður en eiginlegt Nordsat-samstarf hæfist, en sú hugmynd hefur hlotið dræmar undirtektir, einkum af hálfu Finna og Svía. Í fsp., sem hér er til umr., mun hins vegar væntanlega átt við hugsanleg afnot Íslendinga af sjónvarpssendingum Norðmanna á fyrrnefndu rásinni. Um það atriði er því til að svara, að formlegt tilboð Norðmanna liggur ekki fyrir, en hugmyndin hefur verið mjög lauslega rædd. Þess ber að gæta að ekki yrði um að ræða beina móttöku sjónvarpsnotenda á sendingum frá ECS-gervitunglinu, heldur þyrfti jarðstöð hér og síðan dreifingu annaðhvort um kapalkerfi eða um dreifinet íslenska sjónvarpsins utan dagskrártíma þess, en það mun koma að nokkrum notum vegna tímamismunar.

Ókannað er að mestu um kostnaðarhlið þessa máls, m.a. hvernig fara mundi um hækkun leigugjalds til Eutelsat ef norsku dagskránni yrði einnig dreift um Ísland. Ég tel fyrir mitt leyti vert að kanna áfram með viðræðum við Norðmenn þá samstarfsmöguleika sem hér kunna að bjóðast og að því er unnið.

Í 2. tölul. fsp. er spurt hvernig háttað sé aðild íslenskra stjórnvalda að þeim athugunum sem nú fara fram milli Norðurlandanna varðandi sjónvarpssamstarf. Hér á undan var gerð grein fyrir því með hvaða hætti var stofnað til þessarar athugunar og að hverju hún beinist. Jafnframt var tekið fram að þáv. ríkisstjórn ákvæði að Íslands skyldi eiga aðild að henni. Í samræmi við það voru tilnefndir fulltrúar af Íslands hálfu í hinar helstu þeirra norrænu nefnda sem að könnuninni vinna.

Í embættismannanefnd þeirri sem hefur yfirstjórn könnunarinnar með höndum átti sæti Birgir Thorlacius fyrrv. ráðuneytisstjóri og síðan Knútur Hallsson núv. ráðuneytisstjóri frá menntmrn., Árni Þ. Árnason skrifstofustjóri frá iðnrn. og Sigurður Þorkelsson forstjóri af hálfu samgrn. Hann á einnig sæti í tækni- og fjármálanefnd ásamt Guðrúnu Hallgrímsdóttur deildarstjóra í iðnrn. Gústaf Arnar yfirverkfræðingur og Jón Þóroddur Jónsson verkfræðingur hafa starfað í samræmingarefnd og tilteknum vinnuhópum um tæknimál. Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóri er fulltrúi í nefnd um dagskrármálefni og Knútur Hallsson ráðuneytisstjóri á sæti í nefnd um lagaleg málefni.

Eins og hér kemur fram er um umfangsmikið nefnda- og starfshópakerfi að ræða sem viðriðið er þessa könnun. Af hálfu Íslands hefur verið reynt að tryggja að fylgst væri með framvindu starfsins með viðhlítandi hætti og sjónarmiðum okkar komið á framfæri þótt ekki hafi verið tök á að sækja alla fundi sem haldnir hafa verið.

Í 3. og síðasta lið fsp. er spurt: Hvenær gæti þurft að taka skuldbindandi afstöðu um aðild að norrænu sjónvarpssamstarfi og á hvaða stigi yrði málið lagt fyrir Alþingi? Eins og áður var getið var þessari athugun sett það tímamark í upphafi að niðurstöður hennar skyldu lagðar fram innan tveggja ára, nánar til tekið ekki síðar en 1. apríl 1984. Þeirri áætlun hefur ekki verið breytt. Hins vegar má ætla að þótt takast megi að leggja fram lokaskýrslu um athugunina á tilsettum tíma muni þurfa talsverðan aðdraganda að endanlegri ákvörðun um framhald málsins. M.a. hefur verið gert ráð fyrir að Norðurlandaráði gefist kostur á að fjalla um málið að nýju eftir að niðurstöður liggja fyrir. Fráleitt er áð gera ráð fyrir öðru en að ákvörðun varðandi aðild Íslands að hugsanlegu Nordsat-samstarfi verði borin undir Alþingi með einhverjum hætti, en samkv. því sem nú var sagt verður að telja fremur ólíklegt að það geti orðið tímabært á því þingi sem nú situr.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir ríflegan ræðutíma.