15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

392. mál, Þormóður rammi

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að beina fsp. til forsrh. vegna Þormóðs ramma og spyr hvort það sé ætlun forsrh. að láta undan þrýstingi í máli Þormóðs ramma og nota almenningsfé til að halda uppi rekstri fyrirtækis sem nú er komið á hausinn.

Tilefni þessarar fyrirspurnar er margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. forsrh. um að hann og hans ríkisstj. muni ekki láta undan þrýstingi og því ekki kvika frá þeirri efnahagsstefnu, sem mörkuð er með þeim orðum, með leyfi hæstv. forseta, „að festa verði sköpuð með raunhæfri gengisstefnu, sem ásamt aðhaldssamri fjármála-og peningastjórn myndi umgerð ákvarðana í efnahagslífinu. Að loknum aðlögunartíma beri aðilar vinnumarkaðarins ábyrgð á samningum um kaup og kjör í ljósi hinnar opinberu stefnu í gengis- og kjaramálum“.

Í þjóðhagsáætlun segir enn fremur, með leyfi forseta: „Mikil ábyrgð hvílir á öllum þeim fjölmörgu aðilum í hagkerfinu sem fara með ákvörðunarvald hver á sínu sviði að ekki verði farið út yfir þau mörk sem samrýmast jafnvægi í þjóðarbúskapnum og áframhaldandi hjöðnun verðbólgu“.

Til að fyrirbyggja að þessi umr. fari út í umr. um bókhald vil ég taka fram að ég geri mér vel grein fyrir því að Þormóður rammi er ekki undir hamrinum. Ég geri mér einnig grein fyrir því að væri fyrirtækið boðið upp, segjum þegar skuldir þess falla í gjalddaga, sem verður ekki alveg á næstunni, stæðu eignir þess fyllilega undir skuldum.

Ég geri mér ljósa grein fyrir að vandamál þessa fyrirtækis er nákvæmlega sama vandamál og hvers einasta heimilis í landinu, þ.e. skortur á rekstrarfé.

Ríkisstj. getur auðvitað lýst því yfir að hún auki hlutafé sitt í fyrirtækinu og þannig greitt fyrir auknum lánamöguleikum þess í bönkum og þar með gert kleift að rekstur þess geti gengið áfram með sömu umsvifum og áður. Hér er einfaldlega um nokkurs konar verðbólgu í smáum mæli að ræða, sem eykur krónufjölda í umferð á þessum stað, en þær krónur eru ekki fengnar með tekjuaukningu fyrirtækisins.

Ef við yfirfærum þetta dæmi á heimilin í landinu hljóta rekstraraðilar heimila að skoða verk ríkisstj. á þessu sviði sem öðrum sem fordæmi að sinni kröfugerð á hendur ríkisstj., því rekstrarvandi Þormóðs ramma er fyrst og fremst spurning um kaup og kjör.