15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

394. mál, bankaútubú

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem kom til umr. á þingi fyrir nokkrum dögum, þ.e. útþensla bankakerfisins. Ég vil nota þetta tækifæri vegna umr. sem nú er hafin til að þakka fyrirspyrjanda fyrir spurninguna af því að hún er mjög tímabær. Og ég vildi líka beina þeirri frómu ósk til hæstv. viðskrh. að hann gefi nú einhvers konar tryggingu fyrir því að þessi útþensla verði stöðvuð a.m.k. á sama tíma og fólki er gert að þrengja æ meir sultarótina.

Auðvitað er algerlega ólíðandi hvernig bankakerfið hefur fengið að þróast og stækka og teygja anga sína í allar áttir látlaust og stöðugt án þess að nokkur hafi reynt að spyrna við fótum. Og það nær ekki heldur nokkurri átt, ef við förum að hugleiða það, að hér skuli vera jafnmargir ríkisbankar og eru. Við höfum ekkert við alla þessa banka að gera. Það er alveg ljóst. Nákvæmlega sama gildir um þrjú olíufélög sem reka þrefalt skrifstofu- og dreifingarkerfi með þjóðinni. Hvaða vit er í þessu öllu í 240 þús. manna landi? Þetta er auðvitað hrein vitleysa.

Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. að því, hver afstaða hans yrði ef hér yrði lagt fram á morgun eða hinn daginn frv. til l. um stöðvun á smíði húss Seðlabanka Íslands og stöðvun á þessari útþenslu, þessari útibúastefnu bankanna. Ég vildi gjarnan heyra það, þannig að það færi inn í þingtíðindi, hvað hæstv. ráðh. segði við þessu, vegna þess að mér finnst þetta mál skipta mjög miklu. Og ef núv. ríkisstj. ætlast til þess að þjóðin taki raunverulegt mark á sér, þegar ríkisstj. er að biðja hana að leggja af mörkum svo og svo mikið til að reyna að hjálpa þjóðarskútunni út úr þessum þrengingum, þá geri ég líka þá kröfu til hæstv. ríkisstj. að hún fari fram með tiltölulega góðu fordæmi, þó ég taki ekki dýpra í árinni.

Þessi mál hafa komið hér upp á þingi oft og mörgum sinnum. Ég minnist þess t.d. að ég og hv. þm. Vilmundur heitinn Gylfason ræddum þetta hér oft og mörgum sinnum, gerðum ítrekaðar tilraunir til að flytja hér mál og till. um að dregið yrði úr þessari útþenslu, bæði í bankakerfinu, hjá olíufélögunum og þeim aðilum sem raunverulega hafa og þjóna þeim eina tilgangi að dreifa sama fjármagninu um landið, — og fyrir hverja? Fyrir sjálfa sig? Þeir lifa raunverulega á sjálfum sér, lifa á því sem vinnandi fólk í landinu leggur þeim til og þenjast síðan út af einhverjum óskiljanlegum ástæðum og lögmálum sem engin veit hvaðan eru runnin. Þetta er að verða eins konar skrímsli sem enginn virðist ráða við. Það teygir anga sína um allt í þjóðfélaginu — og fyrir utan þann siðferðilega þátt, sem væri kannske vert að skoða dálítið betur, hvernig bankakerfið hefur verið notað.