15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

9. mál, afsögn þingmennsku

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. þm. hefur lesið upp úr þingtíðindum og gert það rétt. Hann nefndi ekki nafn Ellerts B. Schram, en ég hygg að þó að svo sé komist að orði sem í þingtíðindum er gert hafi kjörbréf Ellerts B. Schram verið samþykkt samkv. venju um rannsókn kjörbréfa í upphafi þings. Og ég hygg að allir hv. þm. á þessum fundi, 10. okt., hafi litið svo á. Hins vegar skiptir það ekki máli í sambandi við þann úrskurð sem hér hefur verið kveðinn upp hvort búið sé að samþykkja kjörbréf Ellerts B. Schram, hv. 6. þm. Reykv., eða ekki. Það mun verða litið á þetta sjónarmið hv. þm. Komi það í ljós við gaumgæfilega athugun að kjörbréfið hafi ekki verið samþykkt, þá hlýtur að liggja fyrir að bera það undir Alþingi til samþykktar síðar.