15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika mikilvægi þess sem fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. og 3. landsk. þm. um að vandamál öryrkja varðandi vistun verði leyst. Eins og fram kemur í grg. með þáltill. eiga þessir sjúklingar sem hér um ræðir gjarnan við geðræna sjúkdóma að stríða auk þeirrar miklu örorku sem þeir hafi hlotið eftir slys eða önnur áföll. Þegar svo er komið að geðræn sjúkdómseinkenni bætast við annars mikla fötlun má augljóst vera að það kallar á mun fjölþættari og víðtækari meðferð og aðhlynningu en ella væri. Aðstæður til hjúkrunar, umönnunar og endurhæfingar á hjúkrunar- og sjúkrastofnunum eru alls ófullnægjandi. Við það bætist yfirþyrmandi vinnuálag og þar á ofan vanmáttarkennd starfsfólks þegar það stendur frammi fyrir því að geta á engan veginn sinnt þessu mikilvæga og yfirgripsmikla hlutverki. Ég er þó ekkert í vafa um að það leggur ábyggilega allt af mörkum af þreki, kunnáttu og tíma sem í þess valdi stendur til að veita nauðsynlega umönnun þrátt fyrir að þetta fólk sé yfirleitt mjög fáliðað.

Það er skelfilegt til þess að vita, eins og fram kemur í grg., að svo langt skuli vera gengið á þrek þessa starfsfólks sem þó er vant mjög miklu vinnuálagi undir venjulegum kringumstæðum, að það finni svo mikið til þessarar byrði sem á það er lagt að það skuli hafa hótað að ganga út verði byrðinni ekki af því létt. Ég held að hér sé um mun mikilvægara atriði að ræða en nokkur gerir sér grein fyrir. Ég held að það hljóti að vera orðið langt gengið þegar starfsfólk þessara stofnana, sem annars er vant svo miklu vinnuálagi undir venjulegum kringumstæðum, hótar að ganga út.

Geðræn sjúkdómseinkenni eru ein sér þess eðlis að þau kalla á afar flóknar og sértækar aðgerðir. Umfang aðhlynningar geðsjúkra og endurhæfing þeirra er tímafrek og kostar mikla sérhæfingu starfsfólks. Þann þátt þarf að gaumgæfa og taka til rækilegrar athugunar. Þegar saman fara líkamleg örorka og geðræn einkenni þessara einstaklinga, þarf ekkert að fjölyrða um til hve mikils álags það leiðir á aðra starfsemi stofnananna og hugsanlega dregur úr umfangi þeirrar aðhlynningar sem þar þarf að veita.

Herra forseti. Ég held að skynsemin hljóti að ráða til þess að bætt verði úr hér og komið til móts við þá einstaklinga sem hlut eiga að máli, annaðhvort með eflingu hjúkrunar á núverandi vistunarstöðum, og þá helst í heimabyggð eins og fram kemur í till., eða að stofnuð verði sérdeild. Ég tek undir þessa till. sem kom frá 3. landsk. þm. hér áðan með sérdeildarstofnun á Borgarspítalanum. Þó fyndist mér að þessi sérdeildarstofnun, ef af yrði, þyrfti að vera í mjög nánum tengslum við geðdeild og gæti þá einmitt komið mjög vel heim og saman þar. Þetta er knýjandi mál og ég vonast til að málið fái skjóta og góða afgreiðslu í gegnum nefnd og áfram í gegnum þingið.