15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

52. mál, vistunarvandi öryrkja

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að fylgja þessari þáltill. úr hlaði með nokkrum orðum. Sá hópur sjúklinga sem hér um ræðir er ekki stór, í mesta lagi 10–15 einstaklingar, og fer stærð hópsins að mestu eftir því hvaða forsendur eru notaðar til að skilgreina hann. Þó má segja að allir þessir einstaklingar eigi við mjög alvarlega líkamlega og andlega fötlun að stríða vegna slysa eða sjúkdóma. Andlegri fötlun þeirra má jafna við meðfædda þroskaskerðingu og eykur hún mjög á erfiða hjúkrun á líkamlegri fötlun þeirra. Í flestum ef ekki öllum tilvikum er ekki um neina batavon að ræða. Umönnun og þjálfun þessara sjúklinga miðar því fyrst og fremst að því að gera líðan þeirra og líf bærilegra á þeirri stofnun þar sem þeir dvelja, en er ekki sniðin til þess að koma þeim úf í lífið á nýjan leik.

Hjúkrun þessara sjúklinga og umönnun er svo erfið að ekki er hægt að sinna slíku á venjulegu heimili þannig að þeim hlýtur að verða búin framtíð á hjúkrunar- eða vistunarstofnunum. Á þeim stofnunum þar sem þeir dvelja nú er engan veginn viðundandi aðstaða til að sinna þeim og er það bæði vegna skorts á starfsfólki og líka vegna sérstöðu sjúklinganna. Æskilegast væri að sjúklingar gætu dvalist í heimabyggð sinni svo lengi sem kostur er, ef það samræmist óskum þeirra sjálfra og jafnframt óskum og getu fjölskyldu þeirra. Aðstæður þyrfti að skoða hverju sinni og meta að hve miklu leyti má leysa vandann í heimabyggð, fyrst og fremst með því að auka mannafla við hjúkrun og þjálfun. Í þéttbýli má leysa vandann með því að stofna sérstaka sjúkradeild sem hafi aðstöðu til að sinna slíkum sjúklingum. Þeir eru eins og áður sagði orðnir svo andlega fatlaðir að jafna má við meðfædda þroskaskerðingu. Þeir þurfa því auk líkamlegrar hjúkrunar á mjög svipaðri umönnun að halda og þeir sjúklingar sem vistaðir eru á Kópavogshælinu. Þykir mér því eðlilegt að nýta þá aðstöðu sem fyrir er þar og auka við hana eftir þörfum. Í því tæknivædda hraðfleyga þjóðfélagi sem við byggjum verða æ fleiri fórnarlömb. Örlög þeirra einstaklinga sem hér um ræðir hljótast oftast af völdum umferðarslysa en geta líka t.d. hlotist af ofneyslu fíkniefna. Báða þessa orsakaþætti mætti minnka verulega með fyrirbyggjandi aðgerðum. Meðan ekki er þar betur að gert en nú er finnst mér að við verðum a.m.k. að reyna að mæta afleiðingunum svo að mannsæmandi og mannúðlegt sé.