16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Magnús H. Magnússon:

Hæstv. forseti. Brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. gengur út á það og það eitt að tryggja að staðið verði við hluta af þeim loforðum sem húsbyggjendum og húskaupendum hafa verið gefin. En mig langar við þetta tækifæri að beina orðum mínum til hæstv. fjmrh.

Nú taka Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna mjög mikið af lánum hjá lífeyrissjóðunum, reyndar fyrir mestum hluta af útlánum sínum, með 3.5% vöxtum til 15 ára, en lána þetta fé síðan út með 21/4% vöxtum til 26 ára. Samtímis, þ.e. hin síðari ár, hafa markaðir tekjustofnar þessara sjóða verið skertir í heild um fullan helming. Því miður virðist vera að núv. hæstv. ríkisstj. ætli að feta svipaða braut. Þó að ég viðurkenni að það er út af fyrir sig gott að fá 50% hækkun á lánunum, — ég er ánægður með það þó að hækkunin hefði auðvitað þurft að vera meiri, og reyndar hefur húsbyggjendum og húskaupendum verið lofað miklu meira, — er með þessu verið að binda þessum sjóðum þunga bagga, ekki bara fyrir næstu ár heldur áratugi fram í tímann. Það styttist óðfluga í að öll framlög ríkissjóðs, eins og þau hafa verið á undanförnum árum, fara í það eitt að borga vaxtamismun tekinna og veittra lána. Og þá erum við að reyna með þessu að lána í dag á kostnað morgundagsins. Við erum að reyna að lána þeim sem á þurfa að halda í dag, en við gleymum því, að við erum samtímis með þessum hætti að gera erfiðara að lána börnum okkar og barnabörnum þegar þau þurfa á lánum að halda. Við erum að leggja þunga bagga á þessa sjóði langt fram í tímann. Við erum ekki að byggja upp öflugt kerfi sem gæti sjálft innan tiltölulega fárra ára staðið undir nauðsynlegum úttánum án aðstoðar ríkissjóðs að mestu, eins og einu sinni var lagt frv. fyrir um, heldur erum við að eyðileggja þetta kerfi.

Nú langar mig að spyrja hæstv. fjmrh. Það er sagt að þessi bréf séu verðtryggð með einum eða öðrum hætti og beri 4.16% vexti. Á Byggingarsjóður ríkisins að greiða þessa vexti alla af þeim framlögum sem hann fær úr ríkissjóði á næstu árum eða verður þetta sett inn í lánapúlíu ríkissjóðs?