16.11.1983
Efri deild: 15. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. er ekki staddur í deildinni svo erfitt er að svara honum, en ég vil þó reyna að gera það til að upplýsa aðra hv. nm. minni hl. sem skrifað hafa undir minnihlutaálitið.

En áður en ég geri það vil ég taka mjög eindregið undir margt af því sem kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni. Ég er ansi hræddur um að allt það sem hann sagði um gang mála í þessu sjóða- og lánakerfi sé rétt og varhugavert. Hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði áðan, að við værum að yfirfæra vandamálin yfir á morgundaginn. Það er búið að gera það í mörg ár. Þetta er kerfi sem ég hélt að væri ekki fjarskyldur ættingi Alþfl., verkamannabústaðakerfið og fjármögnun til þess, þannig að hugarfarsbreyting hlýtur að hafa orðið í herbúðum Alþfl. og ég fagna því. Ég tek undir málflutninginn. Hann er réttur að mínu mati.

Varðandi það sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það væri áhugamál allra flokka að efla sparifjármyndun: Það er rétt. Ég fagna því að með þeim orðum tekur hann undir stefnu þá sem kemur fram í þessu frv. og að afstaða minni hl. er jákvæð til frv. En það sem hann gerði eiginlega mesta athugasemdina við var það, að hér skuli vera ríkissjóðsvíxlar til viðbótar við hefðbundin lán. Hér er ekki verið að breyta frá því sem áður var. Fólk hefur þetta valfrelsi. Það er því eina athugasemdin sem hv. þm. gerir við þetta frv. að fólk skuli hafa valfrelsi milli þess sem verið hefur og er áfram, vísitölutryggðra bréfa og gengistryggðra bréfa, og svo aftur ríkissjóðsvíxla. Þarna eru þrír möguleikar í staðinn fyrir einn áður. Ég sé ekki annað en að það sé gott fyrir fólk. Fótkið verður að fara að meta hvað það vill kaupa, hvaða fjárfestingu það treystir best svo að peningar sem það getur notað til að fjárfesta í skuldabréfum séu í minnstri hættu með að rýrna. Það er staðreynd að vextir hafa lækkað, verðbólga hefur lækkað ansi mikið og að lánskjaravísitalan deyr út um áramót svo til. Ef svo heldur fram sem horfir verður fólk að meta það sjálft hvort peningum þess er betur komið í vísitölutryggðum bréfum með vísitölu sem fer sílækkandi — kannske deyr út — eða hvort þeir eru betur komnir í gengistryggðum bréfum, gengi sem hefur litla möguleika eins og horfir nú til þess að verða því óhagstætt. Þó að okkur takist að halda genginu föstu hef ég ekki trú á því að íslenska krónan fari að hækka miðað við dollara. Ég hef ekki trú á því í augnablikinu. Þannig er það bara valfrelsið sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerir athugasemd við. Og það eru ósköp billeg rök. (Gripið fram í.) Nei, en ræðan var þó öll á þeim nótunum.

Nokkur orð um þann ótta sem býr í brjósti virðulegra flm. minnihlutaálits og snýr að viðbótarlánunum. Ég tók það sérstaklega fram, og ég ætla að endurtaka það hér, að ríkisstj. mun standa við allt sem hún hefur sagt. Það eru hennar orð sem hæstv. félmrh. hefur flutt. Ríkisstj. mun standa við öll sín gefnu loforð í sambandi við viðbótarlánin. Það eru 6000 umsækjendur mögulegir. Mér skilst að umsóknarfresturinn sé útrunninn. Þegar ég síðast talaði við hæstv. félmrh. höfðu um 3000 umsóknir borist. Og til að létta á þeirri vinnu sem fellur á Húsnæðisstofnunina við afgreiðslu þessara mála, þá voru þegar í stað gerðar ráðstafanir með aukafjárveitingu til að standa í skitum við fyrstu 900 umsóknirnar sem þegar voru útreiknaðar þegar hæstv. félmrh. fór úr landi. — Hann kemur til baka núna um helgina. Útborganir viðbótarlána hafa þegar tafist, eftir því sem ég best veit, en aukafjárveiting er frágengin í það sem tilbúið er að reikna út. Þetta er því ástæðulaus ótti.

En það sem ég sagði var um árið 1984 og fjárlög þess árs og lánsfjáráætlun. Ef sala ríkisskuldabréfa, gengistryggðra bréfa eða ríkissjóðsvíxla gengur illa hefur ríkissjóður ekki peninga til að fjármagna húsbyggjendur að því marki sem um hefur verið talað. Það væri óhreinskilni af mér að gefa einhverjar yfirlýsingar sem gæfu annað í skyn. Það vita allir hv. þm. hvernig staða ríkissjóðs er. Þess vegna segi ég: Bregðist þessi sparnaðartilraun er annað hægt að gera. Ég hef óskað þess í báðum hv. deildum þessarar virðulegu stofnunar að allir þm. kæmu með frekari tillögur um niðurskurð á ríkisútgjöldum til þess að mæta þessum vanda. Ég er tilbúinn hvenær sem er að setjast niður með hvaða þm. sem er eða hvaða þingflokki sem er uppi í fjmrn. og staðfesta þær tölur sem starfsmenn hafa fundið út um niðurskurð. Ég bið ykkur einnig um að hjálpa mér til að skera niður frekar ef á þarf að halda. En frekari lántaka í Seðlabankanum kemur ekki til greina og frekari erlend lánasöfnun kemur ekki heldur til greina. Ég hugsa að enginn hv. þm. mundi heldur samþykkja frekari skattlagningu á fólk í landinu. Það er nóg komið.

Ég hef sagt í fullri hreinskilni, og mér er hjartanlega sama hvernig því er tekið, að ef allt þetta bregst er ekki nema um eitt að ræða, að segja við húsbyggjendur: Fjárfestið ekki, notið ekki þá peninga sem þið eigið til að hefja framkvæmdir sem ekki komast lengra áfram vegna þess að lánin eru ekki fyrir hendi. — Það er betra að segja fólkinu strax að það verði ekki til peningar nema sala viðkomandi ríkisskuldabréfa gangi vel eða að frekari niðurskurður á ríkisútgjöldum geti átt sér stað. Við skulum halda áfram að vera hreinskilin við fólkið í landinu.

Ég þakka virðulegri fjh.- og viðskn. fyrir góða afgreiðslu á þessu og öðrum þeim málum sem frá henni hafa komið og snerta mitt rn. á þessum hv. fundi í dag.