16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

43. mál, lagmetisiðnaður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það ætlar að verða lífseigt þetta ákvæði um einkarétt Sölustofnunar lagmetis til að annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. Við afgreiðslu á þessu máli og endurskoðun á lögum um Sölustofnun lagmetis fyrir tveimur árum líklega var það skoðun þeirrar n. sem hafði þetta mál til umfjöllunar, iðnn., að það væri að vísu kannske of snöggt í farið að afnema þennan einkarétt fyrirvaralaust. Þess vegna var gert ráð fyrir því að hann skyldi gilda áfram í eitt ár en þá skyldi hann niður falla. Síðan hefur þetta verið framlengt einu sinni um eitt ár og nú er hugmyndin að framlengja það aftur um tvö ár.

Þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma um að ekki væri fyrirvaralaust tekinn af þessi einkaréttur Sölustofnunar lagmetis var það m.a. með tilliti til þess að stofnunin fengi tækifæri til að aðlaga sig þeim breytingum sem hér væri verið að gera. En nú virðist þetta vera komið í þann farveg að það eigi sífelldlega að endurnýja til eins eða tveggja ára þetta einokunarákvæði sem er inni í þessum lögum. Ég tel að það sé með öllu óeðlilegt. Hér hefur átt sér stað einhver óeðlilegur þrýstingur á þingið þar sem verið er að ýta því til að fresta eigin ákvörðunum. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem það er gert, heldur er verið að gera það aftur og aftur og sífellt verið að lengja þann tíma sem ætlast er til að líði þangað til hin eiginlegu ákvæði laganna, eins og frá þeim var gengið, taki gildi.

Það hafa verið færð ýmis rök fyrir því að þessi einkaréttur væri nauðsynlegur. En í umfjöllun n. á sínum tíma urðu allir nm. í Ed., þar sem ég sat á þeim tíma, sammála um að þau rök fengju ekki staðist og það væri engin hætta í því fólgin að afnema þennan einkarétt og ekkert sem mælti með því að hafa hann áfram.

Ég mun ekki greiða atkvæði með þessari framlengingu núna. Mér þykir hér verið að seilast til þess að fá Alþingi til að hafa uppi aðra skoðun og aðra stefnu í þessu máli heldur en er hin raunverulega stefna Alþingis. Ég mæli gegn þessari breytingu og þessari till.