16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

11. mál, launamál

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um launamál á þskj. 11. Meiri hl. n. hefur lagt til í nál. á þskj. 101 að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á þskj. 102. Þetta frv. um launamál er flutt til staðfestingar á brbl. sem gefin voru út 27. maí 1983. Meginefni þess kveður á um að fella niður verðbætur á laun, bæði að því er varðar ákvæði kjarasamninga og ákvæði laga er um þau efni giltu. Jafnframt er kveðið á um bann við verðbótatryggingu kjarasamninga í tvö ár.

Þá eru í 2. gr. frv. ákveðnar með lögum tilteknar launahækkanir sem komu til framkvæmda 1. júní og 1. okt. Loks er ákvæði þess efnis að kjarasamningar framlengist til 31. jan. 1984.

Hæstv. forsrh. ritaði n. bréf 10. nóv. 1983. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Við mat á þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum telur ríkisstj. nú öruggt að verðbólga verði um eða undir 30% í lok ársins. Með vísan til þess og jafnframt með tilliti til alvarlegra ástands í efnahags- og atvinnumálum á næsta ári en áður var talið, sem nauðsynlegt er að ríkisstj. og aðilar vinnumarkaðarins ræði, hefur ríkisstj. á fundi sínum í dag ákveðið að leggja til við hv. fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis að frv. til l. til staðfestingar á brbl. nr. 54 1983, um launamál, verði breytt í samræmi við meðfylgjandi tillögu.“

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að þær breytingar, sem fram koma á þskj. 102, verði samþykktar, en þær feta í sér þær breytingar á frv. að með skýrum og ótvíræðum hætti er tekið fram að frekari hækkanir sem koma áttu til framkvæmda á tímabilinu eftir 25. maí falla niður, hvort sem um þær var samið fyrir eða eftir þann dag.

Í raun og veru var frv. í upphaflegri mynd þess efnis að greiðslur af þessu tagi hefðu fallið niður. Það kom fram í framsögu hæstv. forsrh., er hann mælti fyrir frv., að slíkar greiðslur yrðu að koma til samninga að nýju ef aðilar ættuðu að halda þeim til streitu, en um þetta varð ágreiningur meðal aðila, hvort lögin með ótvíræðum hætti væru þessa efnis, og því er talið nauðsynlegt að taka af allan vafa um þetta efni. Jafnframt er með þessari breytingu lagt til að framlenging kjarasamninga nái aðeins fram til gildistökudags þessara laga en ekki til 31. jan. 1984 og þá verði allir kjarasamningar lausir.

Það hefur komið fram að Samband byggingarmanna er andvígt þessari breytingu vegna þess að með henni falla niður þær launahækkanir sem það samband hafði tryggt sér í samningum á þessu tímabili umfram önnur launþegafélög í landinu, þ. á m. þau félög sem eru í lægri hluta launastigans innan Alþýðusambandsins. Samband byggingarmanna taldi ekki að ákvæði brbl. gæfu tilefni til uppsagnar á kjarasamningum eins og þó var atmennt meðal verkalýðsfélaga í landinu. Það er eðlilegt og rétt við þessar aðstæður, með tilliti til þess að þeir kjarasamningar sem hér eiga við voru gerðir við aðrar efnahagslegar aðstæður en við búum nú við, að kjarasamningarnir verði lausir fyrir alla aðila vinnumarkaðarins, og jafnframt vegna þess að það er eðlilegt þegar svo háttar að öll launþegafélög búi við sömu aðstæður og einn hópur hafi ekki tryggt sér forréttindi fram yfir aðra, að þessar greiðslur falli niður og kjarasamningar verði lausir fyrir alla aðila.

Það þarf ekki að orðlengja það hér, eftir þær ítarlegu umr. sem þegar hafa farið fram um efni og tildrög þessara samninga, hvað brýna nauðsyn bar til í vor sem leið að setja þessi lög. Á þeim tíma var ekki ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna í landinu um það að fyrstu aðgerðir þá í efnahagsmálum hlytu að lúta að aðgerðum í launamálum. Af hálfu Alþb. var lagt til í stjórnarmyndunarviðræðum að öllum verðbótagreiðslum á laun yrði frestað um einn mánuð og þess yrði síðan freistað að ná fram samningum um vísitölukerfi sem drægi úr víxlhækkunum kaupgjalds og launa. Þessar tilraunir höfðu þó staðið yfir frá því í janúarmánuði 1982 með nánast þrotlausum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins af hálfu þáv. ríkisstj., en eftir 11/2 ár höfðu þær ekki skilað árangri. Það var þess vegna alveg ljóst á þessu stigi málsins að mánaðarfrestur til viðbótar væri tilgangslaus í þessu efni. Af þeim sökum var óhjákvæmilegt að stjórnvöld tækju af skarið og mörkuðu þá stefnu sem nauðsynleg var til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi og jafna byrðunum réttilega niður á fótkið í landinu.

Það var jafnframt um það þó nokkuð víðtæk samstaða að æskilegt væri og nauðsynlegt að fella niður verðbætur á laun í tvö ár. Um það komu einnig fram till. frá Alþfl. þegar stjórnarmyndunarviðræður fóru fram. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða brýnustu aðgerðir til þess að draga úr verðbólgu. Það eru mjög mikil og vandasöm verkefni óleyst ef við ætlum að höggva að rótum efnahagsmeinsemda í íslensku þjóðfélagi. Það hefur þegar verið unnið að verkefnum á því sviði. Það skiptir auðvitað höfuðmáli að tryggja það að fjárfestingarstefnan sé með þeim hætti að það fjármagn sem varið er til atvinnuuppbyggingar skili sem mestum arði. Fyrir þá sök er nú verið að vinna að endurskoðun laga um bankakerfið og um fjárfestingarlánasjóðakerfið til þess að tryggja sem best að við fáum hámarksarðsemi af fjárfestingarfjármagni. Það er jafnframt verið að vinna að endurskoðun laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins og verðmyndun í landbúnaði. Það er verið að vinna að áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þannig er verið að taka á flestum þeim grundvallarvandamálum í okkar efnahags- og atvinnulífi samhliða þeim ráðstöfunum sem hér hafa verið gerðar. Og eftir þær nýju upplýsingar sem fram hafa komið um minnkandi fiskafla á næsta ári er auðvitað nauðsynlegt að það takist mjög víðtæk samstaða með þjóðinni um aðgerðir á öllum þessum sviðum. Það er brýnt að þjóðin standi saman í þessum átökum og það væri æskilegt að einmitt við þessar aðstæður tækist samstarf milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins svo að þessir stærstu hagsmunaaðilar í þjóðfélaginu fengju með formlegum hætti að taka þátt í með ráðgjafarstarfi tillögugerð um atvinnuuppbyggingu og stjórn fjárfestingarmála. Þetta hygg ég að sé brýnt við þessar aðstæður til að tryggja sem víðtækasta samstöðu um þær heildaraðgerðir sem nú er unnið að.

Það er alveg ljóst að sú breyting sem gerð er á frv., að samningar verða ekki framlengdir til 31. jan. heldur fram til gildistökudags laganna, felur ekki í sér neinn undanslátt frá þeirri efnahags- og atvinnumálastefnu sem stjórnarflokkarnir hafa fylgt. Þvert á móti verður þeirri stefnu áfram haldið. Ástæðan var einfaldlega sú að sá árangur sem menn væntu af fyrstu aðgerðum ríkisstj. var kominn fram. Auðvitað var það svo að í vor sem leið sáu menn ekki fyrir hvort það gerðist á haustdögum eða undir áramót, en sem betur fer hafa allar áætlanir enn gengið eftir og því var þetta mögulegt. Til viðbótar koma svo ný áföll sem gera það að verkum að það er nauðsynlegt að stjórnvöld og hagsmunasamtök atvinnulífsins taki höndum saman um aðgerðir á öðrum sviðum í efnahags- og kjaramálum.

Það er ástæða til að taka það fram að það væri óraunhæft að blanda saman við þetta frv. skattheimtu og gjaldtöku. Og það væri einnig óraunhæft og óskynsamlegt við þessar aðstæður að lögákveða lágmarkslaunahækkun. Það væri í ósamræmi við þá meginskoðun sem ég hygg að hér sé ríkjandi á hv. Alþingi að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um launahlutföll sín á milli. Það er einnig ljóst að veruleg hætta er á því að ef Alþingi gæfi slíka forgjöf í kjarasamningum mundi það valda almennri launahækkun í landinu og ekki leiða til launajöfnunar eins og tilgangurinn væri. Af þeim sökum er ástæða til að mæla gegn hugmyndum og tillögum af því tagi.

Ég ítreka, herra forseti, að meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem greinir á þskj. 102.