16.11.1983
Neðri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

11. mál, launamál

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er nýstárlegt tungumál Morgunblaðsins þessa dagana, sem nú skrifar leiðara sem eru nánast hugmyndafræðilega fullkomin endurtekning á kjallaragreinum okkar, sem ekki erum í stjórn, og Mogginn hefur marglýst því yfir að við segjum aldrei neitt af viti. Þar segir að talnaleikurinn með verðbólguna sé ekki takmark í sjálfu sér og aðalatriðin séu falin í raunverulegum aðgerðum þar sem ráðist sé að rótum vandans. Og þetta er sagt örfáum dögum eftir að Morgunblaðið hótar forustu og ráðherrum flokksins öllu illu ef þeir gefi sig í verðbóta- og samningsréttarmálinu, sem þó er undirstaðan að því sem Mogginn kallar gagnslausa talnaleiki. Það er svolítið erfitt að halda áttum þessa dagana.

Við sem leggjum áherslu á varðveislu borgaralegra lýðréttinda og frelsis fögnum því að stjórnarflokkarnir hafa snúið af einræðisbraut sinni. Ástæðurnar fyrir þessum sinnaskiptum eru vafalaust margar. Hæstv. forsrh. sagði að önnur aðalástæðan væri hörmulegar aflaspár og alvarlegar horfur í efnahagsmálum. Þetta er þó nánast sama ástæðan og hann gaf fyrir sviptingu lýðréttinda og lokun þingsala í vor. Ég vil hins vegar trúa því að raunverulegar ástæður sinnaskiptanna séu þær, að ný forusta Sjálfstfl. hafi samviskubit yfir aðförunum frá í sumar og óttist jafnvel að þingmeirihluti finnist ekki fyrir þessum aðgerðum. En það sem ég óttast og óttast mjög er að ríkisstj. og atvinnurekendur ætli nú með yfirgnæfandi fjölmiðlavaldi sínu, talnaflóði embættismanna sinna og ámóta skelfingaræði eins og gekk yfir landið í vor að gera enn eina tilraun til að aðlaga launakerfið í landinu gerónýtri stefnu í fjárfestingar- og atvinnumálum. Svipan sem var sveiflað yfir okkur í vor var verðbótahækkun 1. júní. Svipan nú gæti orðið þorskspáin og hörmulegar horfur í efnahagsmálum.

Með því að lækka laun enn þá meir en orðið er verður þess hugsanlega freistað að komast hjá því erfiða verkefni sem er endurskipulagning íslenskra atvinnuhátta. Nú verður þetta líklega reynt undir yfirskini frjálsra samninga. Líklega hefur íslensk verkalýðshreyfing sjaldan staðið frammi fyrir jafn afdrifaríkum og erfiðum samningum og leikurinn verið jafn ójafn. Menn verða að takast á við raunverulegar rætur að þessu ástandi. Ég fagna frjálsum samningum, ég fagna samráði og samvinnu, en andrúmsloftið sem þessir samningar munu fara fram í verður að gefa færi á heiðarlegum vinnubrögðum án þess ógnarþrýstings sem við urðum vitni að í vor. Það verður að gefa aðilum vinnumarkaðarins tækifæri til að semja í sæmilega óbrjáluðu andrúmslofti.

Um einstakar greinar og einstök atriði vil ég segja þetta: Verðbætur eru bannaðar til 1985. Þetta er röng aðferð að mínu mati. Aðilar vinnumarkaðarins eiga að fá að semja um verðbætur ef þeir svo kjósa. Það er einnig tekið fram að verðbótavísitala megi ekki reiknast á sama tíma. Það er álíka aðgerð eins og að hitamælar væru bannaðir til að hefta útbreiðslu farsóttar og ég álít algjörlega óskiljanlega. Mælikvarðar á þróun verðlags hljóta alltaf að verða til og það er síðan ríkisstj. að ákveða hvort hún þorir að horfa á þá.

Við munum greiða atkv. gegn 1. gr.

Í 2. gr. er nú samningsréttur leyfður aftur og því fögnum við, eins og ég sagði áður, en um leið eru skertir samningar ýmissa aðila sem áður höfðu samið á lögformlegan hátt. Við munum ekki greiða atkv. um 2. gr. frv. Við munum greiða atkv. gegn frv. í heild vegna þeirrar takmörkunar og riftingar á samningsrétti sem það veldur.

Ég vona og trúi því að aðilar vinnumarkaðarins muni sérstaklega einbeita sér að því að bæta kjör hinna lægst launuðu. Þeir verða að reyna að finna færa leið til að ná þessu marki og reyndar hafa ASÍ og VSÍ lýst því yfir sem sérstöku forgangsverkefni. Því tel ég að ekki ætti að sinni að setja lög um lágmarkslaun. Þessir aðilar eru að komast undan lögbindingaráþjáninni og hafa lýst sig fúsa til að taka upp nýja siði, frjálsa samninga. Ef samningar hins vegar dragast úr hömlu er rétt að grípa inn í með svona ákvæðum.