21.11.1983
Efri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

79. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 84 er frv. til l. um breyting á umferðarlögum nr. 40 23. apríl 1968. Frv. þetta felur í sér breytingar á þeim ákvæðum laganna er varða skráningu ökutækja.

Svo sem kunnugt er eru bifreiðir og önnur skráningarskyld ökutæki skráð áður en þau eru tekin í notkun. Skráningu annast lögum samkv. lögreglustjórar og fer skráningin fram hjá lögreglustjóra, þar sem eigandi er búsettur. Við flutning milli umdæma ber eiganda að tilkynna lögreglustjóra flutninginn og ber að skrá ökutækið að nýju í umdæminu sem flutt er í. Við eigendaskiptin, þegar nýr eigandi er búsettur í öðru lögsagnarumdæmi, ber og að tilkynna eigendaskiptin og skrá ökutækið að nýju í umdæmi hins nýja eiganda. Auk þessara lögboðnu umskráninga vegna flutninga milli umdæma hefur tíðkast að umskrá ökutæki að ósk eigenda þótt eigi sé það lögskylt.

Samfara auknum bifreiðafjölda hefur umskráningum farið mjög fjölgandi og þau auknu umsvif sem af því stafa hafa leitt til fjölgunar starfsliðs og aukins rekstrarkostnaðar. Á undanförnum árum hafa því af eðlilegum ástæðum verið uppi hugmyndir og tillögur um það, með hverjum hætti mætti draga úr kostnaði vegna þessa. Þessar hugmyndir koma m.a. fram í lagafrv. á árinu 1975 og 1976, þar sem lagt var til að hætt yrði að umskrá ökutæki vegna flutninga milli umdæma og að Bifreiðaeftirlit ríkisins taki að sér bifreiðaskráninguna. Byggðu þessar tillögur á því, að tekið yrði upp fast númerakerfi fyrir allt landið, þar sem meginreglan yrði sú, að ökutæki haldi óbreyttum skráningarmerkjum frá því að það er fyrst skráð og þar til það er tekið af skrá sem ónýtt.

Eigi náðu tillögur þessar fram að ganga. Í maímánuði 1979 skipaði þáv. dómsmrh. starfshóp til þess m.a. að gera tillögur um skipan bifreiðaeftirlits hér á landi í næstu framtíð. Skilaði sá starfshópur skýrslu um verkefni sitt í okt. 1979 og lagði hann til að tekið yrði upp nýtt fyrirkomulag á bifreiðaskráningu í ætt við þær tillögur sem áður höfðu komið fram. Að tilhlutan dómsmrn. skilaði umferðarlaganefnd í ársbyrjun 1982 frv. til breytinga á umferðarlögum, er fól m.a. í sér breytingar þess efnis. Það frv. var þó eigi lagt fyrir Alþingi.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér þær sömu meginbreytingar á bifreiðaskráningunni og áður hafa komið fram, þ.e. að umskráningum verði hætt og byggt á föstu númerakerfi fyrir allt landið, þar sem meginreglan verði sú, að ökutæki haldi óbreyttu skráningarnúmeri þar til það verður afskráð sem ónýtt. Þá er gert ráð fyrir að Bifreiðaeftirlit ríkisins verði lögformlegur skráningaraðili í stað lögreglustjóra, en Bifreiðaeftirlitið hefur að mestu leyti annast verkefni í umboði lögreglustjóranna.

Breytingar þær sem hér um ræðir fela fyrst og fremst í sér sparnað í vinnu og aðstöðu þar sem hætt verður við umskráningar. Þá fellur jafnframt niður skoðun bifreiða sem nú fer fram samhliða umskráningu.

Í aths. við frv. kemur fram að á síðasta ári voru umskráningar á bifreiðum 26 100. Miðað við bitreiðafjölda í byrjun ársins má heita að fjórða hver bifreið á landinu hafi verið umskráð á árinu. Þessar umskráningar og skoðanir því samfara mundu falla niður og kemur sparnaður af þessu ekki aðeins fram hjá opinberum aðilum, eins og Bifreiðaeftirliti, lögreglustjórum og þinglýsingadómurum, heldur og hjá eigendum ökutækjanna og tryggingafélögum. Er áætlað að þessi breyting feli í sér sparnað sem samsvarar 8–10 stöðugildum hjá Bifreiðaeftirlitinu og er árlegur sparnaður í launum og rekstrargjöldum áætlaður um 6 millj. kr. miðað við verðlag í oki. þessa árs. Breytt skráningarkerfi auðveldar og alla gerð ökutækjaskrár og dregur úr hættu á mistökum við skráningu.

Bilreiðaeftirlitið hefur um nokkurt skeið haldið bifreiðaskrá fyrir allt landið og er hún tölvufærð. Er unnið að því að tengja starfsstöðvar Bifreiðaeftirlitsins utan Reykjavíkur við tölvuna, þannig að breytingar á skránni verði jafnóðum færðar beint inn í skrána þaðan í stað þess að senda breytingar á skránni til Bifreiðaeftirlitsins í Reykjavík, sem fæst við skrána þar. Auk þess sem starfsstöðvar Bifreiðaeftirlitsins hafa beinan aðgang að upplýsingum úr bifreiðaskránni á tölvuskjá hefur lögreglustjóraembættið í Reykjavík beinan aðgang að bifreiðaskránni og er þar hægt að afla upplýsinga úr skránni allan sólarhringinn. Þá hafa embætti sýslumanna og bæjarfógeta fengið beinan aðgang að bifreiðaskránni eftir því sem þau hafa tengst skýrsluvélum vegna bókhalds og innheimtuverkefna. Loks hefur borgarafógetaembættið í Reykjavík beinan aðgang að bifreiðaskránni vegna þinglýsingarverkefna.

Hin aukna tölvuvæðing í sambandi við bifreiðaskrána á því nú að tryggja að þar verði jafnan réttar upplýsingar um bilreiðir landsmanna og er öllum þeim sem réttmætra hagsmuna hafa að gæta í því sambandi jafnan fært að leita upplýsinga úr skránni. Upplýsingar um eignarhald bifreiða eru þó jafnan háðar því að eigendaskipti séu tilkynnt. Hafa mikil vanhöld verið á því að tilkynningarskyldu sé fullnægt. Með frv. er lagt til að tilkynningarskylda við eigendaskiptin hvíli eigi einungis á seljanda og kaupanda, heldur skuli bifreiðasalar, er annast sölu bifreiða, einnig ábyrgjast að tilkynning um eigendaskipti verði send til ökutækjaskrár.

Ég hef hér að framan greint frá þeim meginbreytingum sem felast í frv. því sem hér liggur fyrir og varðar skráningu ökutækja. Í þeim breytingum felst og að niður fellur skoðun bifreiða við umskráningar, svo sem þegar hefur verið nefnt. Þá leiðir af 6. gr. frv. að eigi verður að lögum skylt að skoða öll ný ökutæki. Þess í stað verði tekin upp svokölluð gerðarskoðun, þ.e. skoðun á fyrstu bifreið af hverri tegund og árgerð, en síðari skráningar byggist á yfirlýsingum innflytjenda á því að bifreið sé í samræmi við gerðarskoðun samkv. nánari reglum þar um.

Með þeirri breytingu, sem í frv. felst, falla niður þau auðkenni á ökutækjum sem leiða af umdæmaskiptingu. Þess í stað er gert ráð fyrir að hvert ökutæki verði auðkennt með tveimur bókstöfum og tveimur tölustöfum og er það kerfi nú þegar í notkun við bifreiðaskráningu ásamt núverandi númerakerfi. Við það hefur verið miðað að ný skráningarmerki verði með ljósum grunni og endurskini, en slík skráningarmerki eru skýrari og stuðla að bættu öryggi í umferð.

Það er rétt að taka fram, að þótt þessi breyting verði ákveðin er ekki þörf á að skipta á skráningarmerkjum á öllum ökutækjum samtímis, heldur má dreifa því á lengri tíma.

Verði þær breytingar á skráningu ökutækja sem felast í frv. lögfestar verður nauðsynlegt að aðlaga ákvæði þinglýsingarlaga þeim reglum. Mun frv. þar að lútandi verða lagt, fyrir þingið. Vegna tölvuvæðingar bifreiðaeftirlits og embættis sýslumanna og bæjarfógeta verður unnt að koma upplýsingum um þinglýsingar, þ.e. hvort skjali hefur verið þinglýst, í bifreiðaskrána. Er nú verið að undirbúa færslu slíkra upplýsinga um þinglýsingar við borgarfógetaembættið í Reykjavík.

Frv. þetta fjallar, eins og þegar hefur komið fram, fyrst og fremst um skráningu ökutækja. Ýmis atriði önnur er varða starfsemi Bilreiðaeftirlits ríkisins eru og hafa verið til athugunar og meðferðar. Þannig hefur fyrirkomulag og tíðni bifreiðaskoðunar verið til umræðu og í skýrslu áðurgreinds starfshóps um skipan bifreiðaeftirlits voru tillögur um breytt fyrirkomulag bifreiðaskoðunar. Var þar lagt til að bifreiðaskoðun verði að nokkru leyti framkvæmd á löggiltum bifreiðaverkstæðum. Um þetta atriði varð þó eigi samstaða í starfshópnum.

Fram hefur komið hér á Alþingi að dómsmrn. treystir sér ekki til að taka upp tillögur starfshópsins um breytt fyrirkomulag bifreiðaskoðunar. Hins vegar kæmi til athugunar að fækka nokkuð skoðunum nýrra og nýlegra bifreiða, þó ekki skoðunum atvinnubifreiða. Þessi sjónarmið hef ég fallist á. Tel ég ekki rétt að stofna til nýs kerfis við skoðun bifreiða og þess eftirlits sem með því þyrfti að koma á. Þótt ekki sé ástæða til að vantreysta bifreiðaverkstæðum eða faglærðum starfsmönnum þeirra fer ekki hjá því að upp kunna að koma hagsmunaárekstrar þegar skoðun fer fram á verkstæði og ákveða þarf hverrar viðgerðar sé þörf. Hins vegar tel ég fært, án þess að umferðaröryggi verði stofnað í hættu, að fækka skoðunum nokkuð og er fyrirhugað að reglur þar um komi til framkvæmda um næstu áramót. Verði þá ekki þörf á að færa almennar fólksbifreiðir til skoðunar fyrr en á þriðja ári frá því að þær voru skráðar nýjar fyrsta sinni. Búnaður bifreiða er nú yfirleitt traustari en áður og endurbætur á vegakerfinu valda því að slit á bifreiðum hefur verulega minnkað. Eftir sem áður þykir hins vegar rétt að stefna atvinnubifreiðum og stórum fólksbifreiðum til skoðunar árlega svo sem verið hefur. Miðað við árið 1982 fækkar skoðunum við þetta um 17 þúsund og er áætlað að við það sparist um 3.5 stöðugildi hjá Bifreiðaeftirlitinu, en launakostnaður og annar kostnaður vegna þessara skoðana er áætlaður 1.8 millj. kr. á verðlagi í okt.

Áður hefur verið vikið að niðurfellingu skoðana við umskráningu og nýskráningar, sem felast í frv. Þótt skylduskoðun verði þannig felld niður á nýlegum bifreiðum hvílir eftir sem áður rík ábyrgð á eiganda á því að bifreið sé í lagi. Verður hann að vera við því búinn að sæta eftirliti í umferðinni, en samhliða þessari breytingu er ætlunin að auka skyndiskoðanir.

Niðurfelling skoðana á bifreiðum fyrstu tvö árin eftir skráningu kallar m.a. á breytt eftirlit með því að ábyrgðartryggingar séu í gildi. Eru reglugerðir bifreiðatrygginga nú í endurskoðun og ætti ný reglugerð að geta tekið gildi um eða upp úr áramótum.

Einn þáttur í starfsemi Bifreiðaeftirlitsins varðar ökuprófin. Reglur um framkvæmd þeirra hafa verið til endurskoðunar og um næstu áramót mun taka gildi ný reglugerð um ökukennslu og próf ökumanna. Munu þá taka gildi ákvæði um námskeið fyrir þá sem öðlast vilja ökukennararéttindi og gefin verður út námsskrá til leiðbeiningar fyrir ökukennara til að tryggja samræmda ökukennslu. Þá verða tekin upp fræðileg próf fyrir almennt bifreiðarstjórapróf. Þessum nýmælum er ætlað að stuðla að bættri ökukennslu og markvissari og samræmdari prófum, en jafnframt nokkurri hagræðingu í starfsemi Bifreiðaeftirlitsins. Er áætlað að spara megi 1–2 stöðugildi hjá Bifreiðaeftirlitinu við það að taka upp skrifleg próf í stað munnlegra.

Ég hef nú greint frá nokkrum atriðum er varða starfsemi Bifreiðaeftirlitsins, og öll eru þau til þess fallin að draga nokkuð úr starfsemi þess og leiða til umtalsverðs sparnaðar. Fækkun umskráninga og skoðana leiðir hins vegar að óbreyttum reglum til tekjutaps fyrir ríkissjóð, en rétt er að það komi hér fram að tekjur ríkissjóðs af þeim verkum sem tengjast starfsemi Bifreiðaeftirlitsins, þ.e. skráningargjöld, skoðanagjöld og prófgjöld, hafa um árabil numið verulega hærri upphæð en nemur kostnaði við Bifreiðaeftirlitið. Þótt starfsemi Bifreiðaeftirlitsins hafi þannig staðið undir sér, ef svo má að orði komast, hefur ekki að sama skapi reynst unnt að tryggja fjárveitingar til rekstrarins, hvað þá heldur til nauðsynlegra endurbóta á aðstöðu, þar á meðal til skoðunar innanhúss þar sem beita megi tækjum við skoðun í ríkara mæli en nú er. Mundi þá og mega dreifa skoðun meira yfir allt árið og nýta starfslið betur. Er brýnt að bæta aðstöðuna, bæði hér í Reykjavík og víðar um landið. Er í samvinnu við fjárlaga- og hagsýslustofnun unnið að skipulagningu skoðunarstöðva í nýju húsnæði við Bíldshöfða í Reykjavík í næsta nágrenni við núverandi starfsstöð og er fyrirhugað að sú skoðunarstöð geti sinnt skoðun bifreiða af stærra svæði en nú er, þar á meðal úr Hafnarfirði og Mosfellssveit.

Nokkurt fé þarf þó til að innrétta þetta húsnæði, sem tekið var á leigu fyrr á árinu, svo og til að bæta aðstöðu Bifreiðaeftirlitsins víðar, svo sem í Hafnarfirði til bráðabirgða, þar til unnt verður að taka sameiginlega skoðunarstöð í notkun, og á Selfossi.

Ég hef hér einkum fjallað um þau atriði er varða efni frv. þess sem hér liggur fyrir til breytinga á umferðarlögunum og atriði varðandi starfsemi Bifreiðaeftirlitsins. Efni frv. takmarkast við þær breytingar einar sem þörf er á vegna breytinga á skráningu ökutækja og eru felldar inn í umferðarlögin eins og efni þeirra er nú skipað. Þau lög eru, eins og kunnugt er, í heildarendurskoðun og hefur verið vonast til að tillögur þar um komi fram og yrðu lagðar fyrir Alþingi á þessu ári, sem nefnt hefur verið norrænt umferðaröryggisár. Endurskoðun þessari er ekki enn lokið og hefur verkið gengið hægar en vonir stóðu til. Hef ég lagt áherslu á að því verki verði hraðað sem mest svo að Alþingi gefist góður tími til að fjalla um þau viðfangsefni sem umferðin og umferðaröryggi er.

Ég nefndi norrænt umferðaröryggisár. Því ári er senn að ljúka. Ég mun ekki hér fjalla nánar um það, en vil láta í ljós þakkir til umferðarráðs, framkvæmdastjóra þess og starfsliðs, sem haft hafa veg og vanda af undirbúningi og framkvæmd aðgerða á árinu. Hefur þeim þrátt fyrir takmörkuð fjárráð tekist að brydda upp á ýmsum nýjungum, oft til eftirbreytni og íhugunar.

Um árangur þessa starfs er að sjálfsögðu erfitt að dæma. Hvort sem það er því starfi að þakka eða öðru getum við fagnað því að skráð umferðarslys hafa orðið færri á árinu en á síðasta ári. Eftir sem áður er brýnt að vinna að fækkun slysa og draga úr afleiðingum þeirra. Að því þarf sífellt að vinna á ótal sviðum og það starf takmarkast ekki við eitt norrænt umferðaröryggisár.

Hæstv. forseti. Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir frv. að lögum til breytingar á umferðarlögum. Ég leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn., og vildi ég beina þeim tilmælum til hennar að hún taki málið sem fyrst til athugunar, þannig að ef meiri hl. á Alþingi er fyrir þessu máli hlyti það afgreiðslu svo fljótt sem kostur er.