21.11.1983
Efri deild: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

79. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um stórt mál þó.

Ég lýsi því yfir að ég er samþykkur því frv. sem hér liggur fyrir. Það felur í sér, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram, nauðsynlega samræmingu, nauðsynlega einföldun og um leið sparnað, eins og hann rakti hér áðan.

Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál eins og vera þyrfti um umferðarmál okkar almennt, þar sem um er að ræða eitt stærsta öryggismál okkar, eitt stærsta slysavandamál okkar, en tek undir það með hæstv. dómsmrh. sem hann sagði í lok ræðu sinnar um þau mál, um það mikla starf sem þar hefur verið unnið og vissulega ber að þakka, en enn betur þarf að gera.

Hann kom nokkuð inn á skoðunarmálin, skoðanir bifreiða, og ég fullyrði að ein af orsökunum fyrir þeim hörmulegu bifreiða- og umferðarslysum sem eru því miður allt of algeng er einmitt lélegur búnaður bifreiðanna og margs konar trassaskapur varðandi búnað þeirra. Geta þá vissulega allir horft í eigin barm, hvort þeir hafi ekki einhvern tíma sýnt trassaskap varðandi bifreiðar sínar, því að ég hygg að þrátt fyrir allar skoðanir á bifreiðum hafi komið í ljós við hinar svokölluðu skyndiskoðanir að ótrúlega mörgu er ábótavant í búnaði bifreiðanna, jafnvel hinum nauðsynlegasta búnaði, svo sem hemlabúnaði og öðru slíku, þegar þær skoðanir hafa farið fram. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, en auðvitað kemur þessi spurning upp í hugann þegar um er talað að fækka skoðunum og framkvæma jafnvel ekki skoðanir á bifreiðum fyrr en þriggja ára gömlum, eftir þá nýskoðun sem talað var um áðan að yrði einungis gerðarskoðun eða skoðun tiltekinnar gerðar. Þetta held ég að þurfi verulegrar athugunar við.

Ég fagna því fyrirheiti sem gefið var af hæstv. ráðh. um að ökukennsla verði aukin að mun. Þar er ekki vanþörf á. Og ég held að það sé rétt, og ég veit að það var reyndar gert í þessum starfshópi, að taka sem mest tillit til þeirra sem gerst þekkja hér til, þ.e. ökukennara og annarra þeirra sem fást við þessi kennslumál. Ég veit að það er ekki síður þörf á að framkvæma viss hæfnispróf með vissu millibili. Það veitir ekki af því, gefur mönnum vissa aðvörun, heldur mönnum vakandi varðandi það að aðlaga sig að ýmsum breyttum aðstæðum. Ég tek bara sem dæmi sveitamann eins og mig, sem kem í umferðina í Reykjavík. Þar er um mikla breytingu að ræða. Eftir 12 ára akstur hér tel ég mig hreinlega ekki vera nógu góðan bifreiðarstjóra hér í borginni miðað við þann mikla umferðarþunga sem hér er á götum og það mikla tillitsleysi sem þar er sýnt og er kannske ein helsta orsökin fyrir því að svo mörg slys verða sem raun ber vitni.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, en út af Bifreiðaeftirliti ríkisins vil ég koma því hér að að ég er alfarið gegn því að það verði lagt niður og að skoðun fari fram á svokölluðum löggiltum verkstæðum eins og kröfur hafa verið um. Það kann að verða talsverður sparnaður við slíkt hjá því opinbera, en ég held að alveg sé öruggt að ekki verður sparnaður hjá hinum almenna bifreiðareiganda. Ég hef enga trú á því. Og þó að margir ágætir menn annist bifreiðaviðgerðir verður viss hagsmunatogstreita á ferðinni, eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh., og ég treysti þeim miðlungi vel til þess að sinna því nauðsynlega aðhaldi sem Bifreiðaeftirlitið hefur þrátt fyrir allt ekki sinnt nógu mikið, en er aðhald þó. Ég skal ljúka þessu með því að segja að virkasta eftirlit sem við getum haft í þessu efni er aukning skyndiskoðananna og að hafa þær sem tíðastar og almennastar. Það kann að vera að þær séu nokkuð dýrar, en þær eru líka dýrmætar og þær geta áreiðanlega borgað sig.